| Sf. Gutt

Titill í hús!



Liverpool bætti í kvöld titli á afrekaská sína með því að vinna Lancashire bikarkeppnina, Lancashire Senior Cup. Vissulega ekki stórtitill en þessi keppni á sér samt sína sögu. Fyrst var keppt í henni leiktíðina 1879/80.


Liverpool sló Preston North End, 3:0, og Blackpool, 4:1, út í leið sinni í úrslitaleikinn þar sem liðið mætti Burnley. Liverpool tefldi fram undir 23. ára liði sínu en samt voru sex leikmenn í byrjunarliðinu sem hafa spilað með aðalliðinu á leiktíðinni. Einn til viðbótar hefur komist á bekk aðalliðsins. Þetta ber góðu unglingaliðsstarfi fagurt vitni. Barry Lewtas stýrði liðinu.  

Liverpool var sterkari aðilinn en Burney barðist vel. Jack Bearne ógnaði tvívegis fyrir Liverpool á upphafskafla leiksins en Sam Waller markmaður Burnley sá við honum í öll skiptin. Joe McGlynn komst loks í færi fyrir Burnley en Brasilíumaðurinn Marcelo Pitaluga varði vel. 

James Norris

Eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik fékk Liverpool víti þegar brotið var á Jack. Leighton Clarkson tók vítið en Sam varði frá honum. Á 59. mínútu komst Liverpol yfir. Liverpool fékk aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn. Leighton sendi fyrir markið. Varnarmaður sparkaði frá en ekki nógu langt. Boltinn fór til James Norris sem er á myndinni að ofan. James tók boltann viðstöðulaust og þrykkti honum í markið. Glæsilegt mark. Ekki var meira skorað og Liverpool vann þar með Lancashire bikarkeppnina. Tom Clayton tók við bikarnum eftir leikinn. Það er alltaf gleðilegt að bæta við afrekaskrá Liverpool Football Club!

Liverpool: Marcelo Pitaluga, Conor Bradley, Owen Beck, Ryhs Williams, Jarell Quansah, Leighton Clarkson, Jack Bearne, Tayler Morton, Fidel O’Rourke (James Balagizi 69. mín.), Tom Clayton og James Norris. Ónotaðir varamenn: Oscar Kelly, Dominic Corness, Sean Wilson og Oakley Cannonier. 

Burnley: Burnley, Waller, Armstrong, Rooney, Sassi, Dodgson, Tucker, Woods, Helm (Ónefndur leikmaður til reynslu 75. mín.), Gomez Mancini, Thompson og McGlynn. Ónotaðir varamenn: Thomas, Ward, Hugill og Westley

Þetta var í 13. sinn sem Liverpool vinnur þessa keppni. Blackburn Rovers hefur oftast unnið keppnina. Þátttökurétt eiga lið frá Lancashire sýslu sem er á norðvestur hluta Englands. 

Liverpool vann þessa keppni síðast árið 2017. Hér má rifja þann sigur upp!

Hér er heimasíða keppninnar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan