| Sf. Gutt

Liverpool og Real Madrid mætast í París!


Það verða Liverpool og Real Madrid sem mætast í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn á Frakklandsleikvanginum í París laugardagskvöldið 28. maí. Liðin hafa áður leikið til úrslita þar í borg og vonandi verður niðurstaðan sú sama og þá!

Liverpool komst auðvitað í úrslitaleikinn í gærkvöldi eftir 2:3 sigur á Villarreal á Spáni. Liverpool vann 2:0 á Anfield Road og þar með samanlagt 5:2. Real Madrid tryggði sér sæti í úrslitaleiknum í kvöld með ótrúlegum 3:1 sigri á Manchester City í framlengdum leik í Madríd. City vann fyrri leikinn í Manchester 4:3. Real komst því áfram samtals 6:5.  


Liverpool fær tækifæri til hefnda gegn Real Madrid en Real vann úrslitaleik liðanna um Evrópubikarinn í Kiev 3:1 2018. Þá gekk Liverpool allt í mót. Mohamed Salah meiddist og Loris Karius gerði tvenn afdrifarík mistök sem kostuðu Liverpool leikinn. Gareth Bale skoraði tvö og Karim Benzema eitt. Sadio Mané skoraði mark Liverpool. 


En Liverpool hefur unnið Evrópubikarinn áður í París og það var einmitt á móti Real Madrid. Liðin mættust í úrslitaleik 1981 og þá vann Liverpool 1:0 með marki Alan Kennedy. Vonandi verða sömu úrslit nú 28. maí og þá!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan