| Grétar Magnússon

Súrt jafntefli

Liverpool og Brighton skildu jöfn í 10. umferð úrvalsdeildar. Okkar menn komust í 2-0 en glutruðu niður forystunni í seinni hálfleik.

Jürgen Klopp gerði tvær breytingar á liðinu frá síðasta deildarleik. Sadio Mané og Curtis Jones komu inn í stað Diogo Jota sem settist á bekkinn og James Milner sem er meiddur. Naby Keita gat byrjað eftir að hafa verið borinn útaf um síðustu helgi en því miður entist hann ekki nema 19 mínútur í þessum leik og Alex Oxlade-Chamberlain kom inná. Hvort þessar hræringar á miðjunni hafi eitthvað haft að segja varðandi úrslitin skal ósagt látið en það getur auðvitað ekki verið gott að þurfa endalaust að breyta til á miðjunni.

Heimamenn fengu draumabyrjun en eftir aðeins fjórar mínútur hafði Jordan Henderson þrumað boltanum í netið eftir snarpa sókn. Virgil van Dijk sendi, eins og svo oft áður, frábæran bolta upp hægri kantinn til Salah sem lék inná teiginn. Hann sá að fyrirliðinn var í góðri stöðu, renndi boltanum til hans og Henderson sá um rest. Glæsilegt mark.


Eins og áður sagði kom Oxlade-Chamberlain inná á 19. mínútu og fimm mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Sadio Mané. Sendingin frá Ox inná teiginn var frábær og Mané beið fyrir aftan varnarmann sem náði ekki til boltans og skallaði í netið. Þess má þó geta að Brighton menn höfðu minnt á sig áður en fyrsta mark leiksins kom þegar Solly March komst einn gegn Alisson í þröngu færi vinstra megin í teignum en Alisson varði vel. Gestirnir héldu áfram að leika sinn leik þrátt fyrir að vera lentir tveim mörkum undir og náðu oftar en ekki að koma sér í ágætar stöður á síðasta þriðjungi vallarins. Þeir voru þó næstum búnir að klúðra sínum málum sjálfir þegar Mané kom boltanum í netið öðru sinni eftir að markvörður þeirra var eitthvað að staulast með boltann beint fyrir framan eigið mark. Hann reyndi að hreinsa frá, Mané komst fyrir boltann sem endaði í markinu en það var dæmt af þar sem Mané fékk boltann í höndina. Liverpool menn fengu fín færi til að bæta við mörkum en fóru illa að ráði sínu eða þá að varnarmenn Brighton komust fyrir á síðustu stundu. Það fór svo þannig að gestirnir minnkuðu muninn á 41. mínútu en markið var óþarflega flott. Mwepu skaut háum bolta fyrir utan teiginn og yfir Alisson, eiginlega óverjandi skot. Staðan í hálfleik 2-1.

Liverpool bætti við marki í upphafi seinni hálfleiks en því miður var Salah rangstæður þegar sendingin frá Mané kom og markið stóð því ekki. Eftir þetta fannst manni eins og það myndi gerast að Brighton myndu jafna. Það fór auðvitað svo á 65. mínútu þegar Trossard gerði vel og setti boltann framhjá Alisson eftir undirbúning frá Lallana. Gestirnir héldu svo út það sem eftir lifði leiks og súrt og pirrandi 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Konaté, Robertson, Keita (Oxlade-Chamberlain, 19. mín.), Henderson, Jones (Minamino, 87. mín.), Salah, Firmino (Jota, 78. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Gomez, Matip, Tsimikas, Morton, Origi.

Mörk Liverpool: Jordan Henderson (4. mín.) og Sadio Mané (24. mín.).

Gul spjöld: Robertson og Minamino.

Brighton: Sánchez, Veltman, Duffy, Dunk, Cucurella, Mwepu, Bissouma (Mac Allister, 60. mín.), March, Lallana (Groß, 77. mín.), Moder (Lamptey, 66. mín.), Trossard. Ónotaðir varamenn. Webster, Maupay, Steele, Locadia, Roberts, Sarmiento.

Mörk Brighton: Mwepu (41. mín.) og Trossard (65. mín.).

Gul spjöld: Duffy og Lamptey.

Maður leiksins: Ætli það sé ekki best að velja Alisson að þessu sinni enda varði hann oft vel í leiknum og var ekki sakaður um mörkin sem hann fékk á sig.

Jürgen Klopp: ,,Ég get ekki breytt neinu núna en mér líður eins og við höfum tapað leiknum þó svo að ég viti að við gerðum það ekki. Brighton áttu stigið skilið, útaf mismunandi ástæðum. Þetta var samt alveg óþarfi því þegar við náðum góðum köflum í leiknum þá vorum við virkilega góðir, við sýndum hvernig á að spila á móti Brighton. En svo hættum við að spila inná milli og opnuðum dyrnar fyrir þá. Besta leiðin til að verjast þeim er að vera sjálfir með boltann og það gerðum við ekki nógu oft í leiknum."

Fróðleikur:

- Sadio Mané skoraði sitt sjötta deildarmark á leiktíðinni og það sjöunda alls.

- Jordan Henderson skoraði sitt fyrsta deildarmark á leiktíðinni.

- Naby Keita hefur nú spilað 60 deildarleiki fyrir Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan