| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Stuðningsmenn og leikmenn Liverpool eru enn í skýjunum eftir metsigurinn á Manchester United á Old Trafford. En dagskráin heldur áfram. Næsta mál á dagskrá er Deildarbikarleikur.

Liverpool mætir Preston North End á Deepdale og verkefnið gæti orðið snúið. Heimamenn eru sem stendur rétt fyrir ofan fallsvæði í næst efstu deild. Lið þeirra er þó seigt og Liverpool má ekki vanmeta það. En hvernig á annað að vera en Liverpool vinni öruggan sigur á liði úr næst efstu deild eftir að hafa burstað Manchester United í síðasta leik? Ástæðan er auðvitað sú að það verða kannski tveir eða þrír úr því liði í byrjunarliði Liverpool annað kvöld. Þetta liggur fyrir!

Liðinu verður umbylt og ungir leikmenn verða valdir í bland við leikmenn sem hafa lítið leikið að undanförnu. Það er ekki gott að segja hverjir verða valdið en þó mun vera staðfest að Adrián San Miguel verður í marki. Alisson Becker verður auðvitað hvíldur og Caoimhín Kelleher er eitthvað meiddur. 

En það eru gömul og ný sannindi að það eru alltaf mikilvægustu mennirnir sem byrja leikina í það og það skiptið. Liverpool vann öruggan 0:3 sigur á Norwich City í síðustu umferð. Conor Bradley, Kaide Gordon og Tyler Morton spiluðu sína fyrstu leiki í þeim leik og stóðu sig mjög vel. Ekki er ólíklegt að þeir komi aftur við sögu. 


Sem fyrr segir vann Liverpool Norwich 0:3 í síðustu umferð. Ég spái því að Liverpool vinni 0:3 eins og þá. Divock Origi, Curtis Jones og Takumi Minamino skora mörkin.

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan