| Sf. Gutt

Meistari í Portúgal


Sebastian Coates, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur vegnað vel í Portúgal eftir að hann gekk til liðs við Sporting Clube de Portugal eða Sporting Lissabon eins og liðið nefnist hér á landi. Hann varð portúgalskur meitstari núna í vor.


Sebastian gekk til liðs við Liverpool 2011 og var á mála hjá félaginu til 2015 þegar hann fór til Sunderland en hann hafði áður verið í láni eina leiktíð þar. Miðvörðurinn var í tvær sparktíðir hjá Sunderland en fór reyndar í lán til Sporting Lissabon 2016/17. Hann var svo seldur til Sporting snemma árs 2017 og hefur verið þar síðan. 

Sebastian, sem er nú fyrirliði Sporting, hefur vegnað mjög vel hjá félaginu og varð eins og áður segir meistari með liðinu í vor. Hann var kjörinn besti leikmaður deildarinnar í lok móts og var valinn í lið leiktíðarinnar. Hann varð bikarmeistari með Sporting 2019 og vann Deildarbikarinn þar í landi 2018, 2019 og svo í þriðja sinn á nýlokinni leiktíð. Í fyrra var hann kjörinn Leikmaður ársins hjá Sporting Lissabon. Þess má geta að meistaratitilinn í vor var sá fyrsti sem félagið vinnur frá 2002. 


Þetta er í þriðja sinn sem Sebastian verður landsmeistari. Hann varð meistari í Úrúgvæ 2009 og 2011 með Nacional en hann hóf feril sinn hjá félaginu. Þegar Sebastian, sem nú er þrítugur, kom til Liverpool var hann talinn efnilegasti miðvörður Suður Ameríku. Hann varð Suður Ameríkumeistari 2011 og var þá valinn besti ungi leikmaður keppninnar. 


Sebastian Coates náði aldrei að festa sig í sessi hjá Liverpool. Hann spilaði 24 leiki og skoraði tvö mörk. En hann er nú í hávegum hafður hjá Sporting Lissabon. Það er alltaf gaman að sjá þegar fyrrum leikmönnum félagsins vegnar vel. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan