| Sf. Gutt

Lengra frí hjá sumum

Eins og venjulega þau sumur sem alþjóðlegar stórkeppnir fara fram fá sumir leikmenn lengra sumarfrí en aðrir. Þeir sem komast lengst í keppnunum fá kærkomna hvíld. Þetta þýðir að sex leikmenn Liverpool sem komust lengst með sínum landsliðum fara ekki að æfa fyrr en stutt verður í keppnistímabilið sem framundan er. 


Jordan Henderson var í enska liðinu sem komst í úrslitaleik EM þar sem það tapaði fyrir Ítalíu. Á sama tíma voru Alisson Becker, Fabinho Tavarez og Roberto Firmino í liði Brasilíu sem komst í úrslit í Suður Ameríkukeppninni. Brasilía tapaði í úrslitum fyrir Argentínu.

Thiago Alcantara komst í undanúrslit með Spánverjum. Xherdan Shaqiri og félagar hans í svissneska landsliðinu féllu úr leik fyrir Spáni í átta liða úrslitum. 

Wales féll úr leik í 16 liða úrslitum. Harry Wilson og Neco Williams voru í liði Wales. Þeir eiga að mæta til æfinga hjá Liverpool í Austurríki á mánudaginn. Portúgal féll út á sama stigi keppninnar og Wales. Diogo Jota á að koma til æfinga á miðvikudaginn. 


Skotland komst ekki í gegnum riðlakeppnina en forráðamenn Liverpool ákváðu að gefa Andrew Robertson aðeins lengra sumarfrí. Mikið leikjaálag var á honum á síðasta keppnistímabili. 

Þeir sex sem fyrst voru nefndir fá lengra frí en aðrir. Allir nema kannski Xherdan eru fastir menn í aðalliðinu og því er slæmt að þeir skuli missa af undirbúningstímabilinu. En það þýðir ekki að fást um það. Menn verða jú að fá einhverja hvíld.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan