| Sf. Gutt

Ozan fer frá Liverpool


Ozan Kabak hefur yfirgefið Liverpool. Hann kom til félagsins sem lánsmaður frá Schalke 04 í byrjun febrúar. Um leið fékk Liverpool forkaupsrétt á piltinum. 


Tyrkneski miðvörðurinn átti erfitt uppdráttar í fyrstu leikjum sínum en svo náði hann sér á strik og lék vel. Hann missti af síðustu leikjum Liverpool á leiktíðinni eftir að hann meiddist. Eftir að keppnistímabilinu lauk ákváðu forráðamenn Liverpool að nýta ekki forkaupsrétt sinn á Ozan og hann er því aftur kominn til Schalke.


Ozan spilaði fyrst með Galatasaray í heimalandi sínu. Hann fór svo til Þýskalands og gerði samning við Stuttgart. Þar var hann leiktíðana 2018/19 en fór svo til Schalke þar sem hann hefur verið síðan. 


Ozan Kabak spilaði 13 leiki með Liverpool. Hann var í liðshópi Tyrkja á Evrópumóti landsliða en spilaði ekki neinn leik. Hann hefur leikið 12 landsleiki. 

Ozan birti stuðningsmönnum Liverpool opið bréf í dag og þakkaði fyrir sig. Hann sagði meðal annars þetta. ,,Mig langar að þakka ykkur fyrir þá velvild og þann stuðning sem þið hafið sýnt alla tíð frá þeim degi sem ég kom til félagsins."

Liverpool klúbburinn á Íslandi þakkar Ozan Kabak fyrir framlag sitt til Liverpool og óskar honum góðs gengis í framtíðinni. 

Hér má lesa allt það helsta um feril Ozan á LFCHISTORY.net.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan