| Sf. Gutt

Af leikmannamálum

Hvað leikmenn koma til með að fara frá Liverpool í sumar? Fjölmiðar eru látlaust að velta slíku fyrir sér. Þessir gætu hugsanlega farið. 


Marko Grujic, Harry Wilson, Ben Woodburn, Sheyi Ojo, Liam Millar, Kamil Grabara, Taiwo Awoniyi og Yasser Larouci eru allir ungir leikmenn sem hafa leikið nokkra leiki með aðalliðinu og hafa verið misjafnlega mikið í láni síðustu misseri. Sumir eru í láni núna. 


Xherdan Shaqiri og Divok Origi hafa verið nefndir í sambandi við brottför. Báðir hafa aðeins komið við sögu hjá aðalliðinu á leiktíðinni en eru ekki fastamenn. Einhver félög sýndu þeim áhuga í fyrra og það er trúlegt að þeir fari. 


Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain hafa líka verið nefndir í þessu sambandi. Hvorugur hefur náð sér á strik á keppnistímabilinu. Reyndar hafa báðir verið mikið frá vegna meiðsla svo framganga þeirra er hugsanlega ekki alveg marktæk. Joël Matip gæti verið nefndur í sömu andrá og þessir tveir hvað meiðsli áhrærir en hann lék stórvel þegar hann var tiltækur á leiktíðinni áður en meiðsli ollu því að hann fór í sumarfrí á þorra. Talið er að hann verði kannski til sölu í sumar. 


Þá er Georginio Wijnaldum ótalinn en samningur hans við Liverpool rennur út í sumar. Hann hefur verið orðaður við Barcelona í marga mánuði en síðustu fréttir hemra að spænska liðið vilji ekki borga honum það kaup sem hann vill. Hann hefur ekki viljað gera nýjan saming við Liverpool út af því að hann fær ekki nógu hátt kaup í því samningstilboði sem lagt hefur verið fram. Í stuttu máli vilja forráðamenn Liverpool halda honum og hann vill líka vera áfram. 


Svo gera sumir því skóna að einn af skyttunum þremur, Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino, verði seldur. Bæði Sadio og Roberto hafa ekki spilað eins vel og síðustu árin. Mohamed hefur á hinn bóginn farið á kostum og raðað inn mörkum. 

Við sjáum hvað setur í öllu þessu.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan