| HI

Stuðningshópur fórnarlamba Hillsborough lagður niður

Stuðningshópur fjölskyldu fórnarlamba Hillsboroughslyssins, Hillsborough Family Support Group, hefur verið lagður niður. Hópnum finnst kominn tími til að taka næsta skref í að vinna úr áfallinu.

Hillsboroughslysið árið 1989 hefur markað djúp spor í sögu Liverpool FC og Liverpoolborgar í heild sinni. Þann 15. apríl það ár léku Liverpool og Nottingham Forest í undanúrslitum bikarkeppninnar á Hillsborough í Sheffield. Mikill troðningur myndaðist í stúkunni fyrir aftan annað markið, Lepping Lane, þar sem stuðningsmenn Liverpool voru, en ástæðan var að of mörgum var hleypt inn í stúkuna. 96 stuðningsmenn Liverpool létust.

Í kjölfar slyssins voru stofnaðir tveir stuðningshópar. Annar heitir Hillsborough Justice Campaign og er tilgangur hans að berjast fyrir því að sannleikurinn um slysið kæmi í ljós og þeir sem ættu sök á því yrðu dregnir til ábyrgðar. Þeirri baráttu er ekki lokið og sá hópur því enn starfandi á fullu. Hinn hét Hillsborough Family Support Group og var hans hlutverk einkum að styðja þá sem áttu um sárt að binda vegna slyssins, bæði aðstandendur fórnarlambanna og þá sem lifðu af.

Nú hefur verið ákveðið að leysa síðarnefnda hópinn upp. Margaret Aspinall hefur veitt hópnum forystu en hún missti son sinn í þessu slysi. Hún sagði í viðtali að nú væri kominn tími til að fjölskyldurnar héldu lífinu áfram og tækju næsta skref. Hópurinn hefði gert sitt gagn og nú væri hans hlutverki lokið.

Á fimmtudaginn kemur verða 32 ár liðin frá því að slysið átti sér stað. Vegna kórónuveirufaraldursins verða engar stórar samkomur en fólk mun minnast slyssins á sinn hátt, meðal annars með því að fara að minnismerkinu sem er við Anfield.

Hér má sjá viðtal við Margaret Aspinall um þennan áfanga.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan