| Grétar Magnússon

Lucas nálgast endurkomu

Lucas Leiva gæti verið nefndur í leikmannahópnum fyrir leik U-21 árs liðsins við Middlesboro á föstudagskvöldið.  Verða þetta að teljast frábærar fréttir.

Frá fimmtudegi til sunnudags mun aðallið, U-21 og U-18 ára lið félagsins spila fjóra leiki.  Lucas, sem ekki hefur spilað síðan í ágúst gæti fengið að spila 45 mínútur í fyrrgreindum leik en þó ekki fyrr en læknalið félagsins hefur fullvissað sig um að hann sé leikfær.

Colin Pascoe, aðstoðarmaður Rodgers, hafði þetta að segja í viðtali:  ,,Næsta skref er að hann styrki sig á æfingum og vonandi getur hann náð 45 mínútum í varaliðsleiknum á föstudaginn."

,,En við munum skoða hann, sjá hvernig hann er næstu daga, og ef honum sjálfum líður vel, þá gæti hann mögulega spilað 45 mínútur."

Lucas hefur verið lengi frá vegna meiðsla því ekki er nóg með að hann hafi lítið sem ekkert spilað á þessu tímabili þá missti hann af öllum seinni helmingi síðasta tímabils eftir að hafa meiðst í deildarbikarleik gegn Chelsea.

Pascoe sagði:  ,,Það er stórkostlegt að sjá hann aftur á æfingum.  Hann er góður leikmaður og það er gott að fá hann til baka.  Hann hefur verið óheppinn með meiðsli.  Ég veit að þetta er hluti af knattspyrnunni en þetta getur dregið menn niður og það er gott að sjá hann aftur með bros á vör."

,,Hann er frábær atvinnumaður.  Hann hefur klárað endurhæfinguna og þegar maður er meiddur, þá getur maður ekki beðið eftir því að spila knattspyrnu á ný og stundum sjá menn hreinlega ekki ljósið við enda ganganna, en Lucas hefur bitið á jaxlinn, lagt hart að sér og litið vel út á æfingum."

Enn gæti verið langt í að Lucas spili með aðalliðinu á ný en Pascoe telur að Lucas muni falla beint inní liðið hjá Rodgers.

Hann sagði:  ,,Hann þekkir sína stöðu, þekkir leikinn vel og er frábær leikmaður.  Það var virkilega vont að missa hann - og það verður því mikil lyftistöng þegar hann snýr til baka.  Hann er vinsæl persóna hér.  Hann er frábær strákur og var saknað af okkur öllum hér.  Við erum ánægðir með að hann sé farinn að æfa aftur og þegar hann loksins getur spilað með aðalliðinu þá verður það frábært."

Pascoe sagði einnig að endurkoma Pepe Reina í markið gegn Wigan um síðustu helgi hafi verið kærkomin en hann hrósaði einnig Brad Jones fyrir frammistöðu hans í fjarveru Spánverjans.

,,Brad kom inn og var stórkostlegur, hélt markinu hreinu í nokkrum leikjum, en það var gott að sjá Pepe koma til baka og halda markinu einnig hreinu. Pepe er í hópi bestu markvarða heims. Hann hefur frábæra fætur, getur komið boltanum í leik hvar sem er, hann er öruggur í höndunum og er topp markvörður. Báðir halda sér í góðu formi á æfingum, vinna með hluti og þegar þessir tveir eiga í hlut erum við að tala um tvo mjög góða markverði."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan