| Ólafur Haukur Tómasson

Kaupin og kaupstefna FSG

Félagaskiptaglugginn var í þann mund að loka og fengu stuðningsmenn Liverpool heldur eitthvað fyrir sinn snúð. Ein helsta stjarna félagsins síðustu þrjú árin, Fernando Torres, var seldur á £50 milljónir sem er metfé í félagsskiptum á milli enskra liða en hann var einnig dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool í síðustu viku. Liverpool gerði sér lítið fyrir og sló félagsmet sitt í tvígang þegar Luis Suarez var keyptur á £23 milljónir á föstudegi og Andy Carroll síðan keyptur á £35 milljónir og er hann nú kominn í hóp leikmanna eins og Cristiano Ronaldo, Fernando Torres, Zinedane Zidane, Kaka, Hernan Crespo og Zlatan Ibrahimovic yfir dýrustu leikmenn heims og situr hann í sjöunda sæti listans!

Kaup og sölur hjá Liverpool hafa aldrei verið jafn mikilfenglega og núna en tveir leikmenn voru seldir fyrir hátt í £56 milljónir og aðrir tveir keyptir fyrir £58 milljónir, þetta er einnig í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem að Liverpool hefur komið út í mínus í félagsskiptaglugga en áður hafa þeir alltaf komið út í plús. Breytingarnar á högum Liverpool í félagsskiptaglugganum eru því heldur ólíkar því sem áður hefur sést. Þetta sýnir bæði metnað nýju eigendanna FSG, sem er stjórnað af þeim John W. Henry og Tom Werner formanni Liverpool F.C., og að þeir virðast ætla að halda sig við sömu aðferð í leikmannamálum og þeir gera hjá hanfaboltafélaginu Boston Red Sox.

Þegar leikmenn eru keyptir og seldir frá Boston Red Sox notast stjórnendur félagsins og eigendur þess við svokallað "sabermetrics" kerfi þar sem tölfræði leikmanna segir til um líkur þeirra til árangurs og framlag til liðsins eru rannsakað niður í frumeindir og svo menn fengnir inn eða látnir fara út á það.

Ef að við rýnum í bókina "Soccernomics" ,eftir Simon Kuper og Stefan Szymanski, sem greinir frá þessari nálgun í fótboltanum má sjá nokkra punkta sem ráðlagt er að farið sé eftir þegar kemur að félagsskiptum:
1. Nýr knattspyrnustjóri sóar peningum í leikmannakaup; ekki leyfa honum það.
2. Notastu við álit marga, ekki bara treysta á eigið hugvit ráðfærðu þig við aðra þjálfara og njósnara.
3. Stjörnuleikmenn á nýliðnum landsliðsstórmótum eru verðlagðir of hátt, hunsaðu þá.
4. Sum þjóðerni eru gjarnan verðlögð of hátt, þarna má til dæmis nefna Englendinga, Brasilíumenn og Hollendinga.
5. Eldri leikmenn eru verðlagðir of hátt.
6. Framherjar eru oft of dýrir en markverðir ekki.
7. Horfa framhjá öllum útlitstengdum þáttum í fari leikmanna.
8. Besti tíminn til að kaupa leikmann er þegar hann er snemma á tvítugsaldrinum.
9. Selja skal hvaða leikmann sem er ef að annað lið býður meira í hann en hann er í raun metinn á.
10. Það skal fá nýja menn inn áður en að bestu leikmenn liðsins eru seldir.
11. Gott er að kaupa leikmenn sem eiga við persónuleg vandamál að stríða og svo skal hjálpa þeim með þau.
12. Hjálpaðu leikmönnum þínum að flytja sig um set.

Ef að skoðuð eru vinnubrögð Liverpool í félagsskiptaglugganum þá má sjá augljós merki þess að stuðst hefur verið við þessa aðferð enda bæði eigendur liðsins og Damien Comolli, yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool F.C., miklir aðdáendur þessarar reglu. Einmitt með ráðningu Damien Comolli þá þykir líklegt að hann rannsaki og finni leikmenn, ráðfærir sig við knattspyrnustjórann og útsendara, gefi þeir allir grænt ljós þá mun vera reynt að næla í leikmanninn. Það er því ekki ólíklegt að Comolli og Liverpool hafi skoðað Luis Suarez og Andy Carroll í stjórnartíð Roy Hodgson en keypt þá í stjórnartíð Kenny Dalglish.

Í lið þrjú þá er gott að taka Luis Suarez sem dæmi. Hann stóð sig mjög vel á Heimsmeistaramótinu og var lykilmaður í liði sem endaði í fjórða sætinu. Hann fór því að vekja mikla athygli og umtal sem að Ajax, liðið sem Liverpool keypti hann frá, nýtti sér og hækkaði verðmiðann töluvert, en hann hljóðaði þá upp á rúmar £40 milljónir punda. Sex mánuðum seinna þegar allur æsingurinn eftir Heimsmeistaramótið róaðist niður þá lækkaði verðmiðinn niður um næstum því helming og Liverpool gat keypt hann á töluvert minni pening. Það er einnig til gott dæmi um það að Liverpool hafi þá keypt leikmenn of háu verði strax eftir Heimsmeistaramótið, það var þegar Gerard Houllier keypti Senegalana El Hadji Diouf og Salif Diao á samanlagðar £14,7 milljónir sem að var án nokkurs vafa of mikið verð fyrir þessa leikmenn.

Þegar Fernando Torres kom öllum að óvörum og lagði fram sölubeiðni til þess að geta farið til Chelsea og þar sem að Chelsea var tilbúið að bjóða háa upphæð fyrir hann þá gæti hafa þótt nokkuð ljóst hvaða ákvörðun Liverpool myndi taka í ljósi þess að þetta mettilboð var í mann sem hafði verið meiðslagjarn og virkað ósáttur lengi einnig sem að FSG er þekkt fyrir að vera óhræddir við að skipta út þeim sem geta skemmt ímynd liðsins og dregið úr líkum á árangri. Eins og kemur fram í lið tíu þá er hægt að sjá hvernig Liverpool brugðust við tilboði Chelsea í Torres. Þeir vildu ekki koma því í gegn fyrr en það var alveg klárt að eftirmaður hans væri kominn. Þess vegna er líklegt að salan á honum gekk í kvöld seint í gær eftir að Andy Carroll hafði skrifað undir hjá Liverpool.

Báðir leikmennirnir sem voru keyptir eru á besta aldri, Andy Carroll er nýorðinn 22ja ára og Luis Suarez nýorðinn 24ja, og eiga því mörg ár eftir og gætu því líklega verið hugsaðir sem framtíðar framherjapar liðsins þar sem að framherjar kosta alltaf dágóðan skilding. Þar sem þeir eru þetta ungir þá mun verð þeirra haldast á svipuðum stað eða það mun jafnvel hækka eftir nokkur ár. Því getur Liverpool notið góðs af þeim meðan þeir eru ungir og frískir, og kjósi þeir að selja þá þegar síga fer á seinni ár ferilsins þá er enn hægt að fá gott verð fyrir þá og hægt er að endurnýja framlínuna með yngri og frískari mönnum. Þarna má einnig sjá að Fernando Torres er á að nálgast 27 ára aldurinn þá gæti þetta hafa verið einn allra síðasti séns Liverpool til að fá slíka fjárhæð fyrir hann.

Þeir sem fylgst hafa með slúðri úr enska boltanum hafa mögulega heyrt nokkrar sögurnar af Andy Carroll og vandamálum hans utanvallar. Ákærur fyrir líkamsárás, drykkjuskapur, slæmur félagsskapur og eitthvað í þeim dúr hafa heyrst og eins og í lið ellefu þá er einmitt mælt með þessu. Svona vandamál geta oft lækkað verðmiða á góðum leikmönnum, þó það hafi kannski ekki gert það í þessu tilfelli, en ef Liverpool tekst að hjálpa honum úr þessari vitleysu þá er ekki ólíklegt að verðmiðinn á honum muni hækka, frammistöður hans verða betri og jafnvel betra samband og tryggð myndast milli hans og þeirra sem honum hjálpuðu. 

Kaupverðið á Carroll kom líklegast mörgum í opna skjöldu enda tiltölulega ungur, óreyndur og að margra mati ekkert sýnt enn til að standa undir verðmiðanum. Sé staðan hins vegar skoðuð út frá nokkrum sjónarhornum þá er hún ekki svo galin. Hann var mjög mikilvægur sínu gamla liði Newcastle United, hann er enskur en þeir leikmenn eru oft verðlagðir hærra, hann var á nýundirrituðum fimm ára samning og tími Liverpool til að finna nýjan leikmann var naumur. Þar sem að kaup FSG hjá Boston Red Sox hafa stundum verið mjög há þá kemur þetta lítið á óvart þar sem þeir hafa peninga og ef það býðst maður sem þeir telja að sé sá rétti og muni ná árangri hjá þeim þá eru þeir klárir í að láta það allt gerast og borga þá frekar uppsett verð leikmannsins frekar en að missa hann frá sér, það er mögulega það sem gerðist með Carroll. Liverpool hefði að öllum líkindum getað fundið annan leikmann sem var annað hvort þekktara nafn, reyndari eða ódýrari en Liverpool var staðráðið í að mæta kröfum Newcastle United og ef lesið er í stefnu FSG þá kemur það skýrt og greinilega fram að árangur skiptir öllu og peningarnir eigi að endurgjalda sig þannig.

Í viðtali við Tom Werner, einn forsprakka FSG og formanns Liverpool F.C., um daginn greindi hann frá því að stefnan væri að launakostnaður liðsins myndi hækka og þá með komu betri leikmanna, og að þau leikmannakaup sem Liverpool hefur gert undanfarna félagsskiptaglugga verði ekki jafn algeng. Þau hafa gjarnan verið þannig að leikmenn koma á of mikinn pening, fá of há laun miðað við getu og aldur, til dæmis má nefna það í sumar komu fjórir leikmenn á þrítugsaldrinum til félagsins og fengu allir góða þriggja til fjögurra ára samninga sem gæti gert það að verkum að erfitt væri að skipta þeim út.

FSG hafa staðið við þau fáu stóru orð sem hafa frá þeim komið. Þeim tókst að sanna það að Liverpool geti barist um stærstu bitana á leikmannamarkaðnum, þeir séu tilbúnir að gera hvað sem er til að koma félaginu aftur á toppinn og að þeir munu fara skynsamlega í leikmannakaup. Allt virðist þetta hafa staðist en hvort að þetta beri árangur mun koma í ljós. Eitt er víst að FSG og Liverpool eru ekki hætt á þessum markaði en félagið reyndi að fá til sín fleiri leikmenn í gærkvöldi en ekki tókst að ná samkomulagi í þeim málum svo þau gætu beðið til sumars.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan