| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur Liverpool er einnig í höfuðborginni, okkar menn mæta West Ham á London Stadium sunnudaginn 31. janúar klukkan 16:30. Nú þarf að halda áfram á sigurbraut.

Það er aðeins léttara yfir okkur nú eftir góðan sigur gegn Tottenham á fimmtudagskvöldið. En þessi leikur verður ekki síður erfiður þar sem David Moyes hefur verið að gera góða hluti með Hamrana á tímabilinu, eitthvað sem kannski ekki margir bjuggust við. Jürgen Klopp mætti auðvitað á blaðamannafund fyrir leik og staðfesti það að Fabinho verður ekki með. Beðið er frekari fregna af meiðslum Joel Matip en nýjustu fréttir herma reyndar að meiðslin líti ekki alveg eins illa út og í fyrstu var talið. En það er auðvitað ljóst að Matip verður ekki með og félagið reynir nú allt hvað það getur til að fá nýjan varnarmann til félagsins. Tíminn er afskaplega naumur því félagaskiptaglugginn lokar klukkan 23:00 mánudagskvöldið 1. febrúar. Eins og venjulega eru svo þeir Jota, Gomez, van Dijk og Keita á meiðslalistanum og verða ekki með. Moyes og hans menn glíma ekki við mikil meiðslavandræði en aðeins þeir Arthur Masuaku og Darren Randolph eru á sjúkralistanum.

Ætli það sé ekki nokkuð einfalt að segja til um hverjir verða í miðvarðastöðunni í þessum leik. Jordan Henderson og Nat Phillips hljóta að byrja enda spilaði Phillips alveg ágætlega í seinni hálfleik gegn Tottenham. Miðjan er eins og venjulega spurningamerki en ég vona að Klopp breyti ekki miklu þar því Milner, Wijnaldum og Thiago gerðu fína hluti síðast og varla hristir hann upp í fremstu þrem frekar en venjulega. Trent Alexander-Arnold, Andy Robertson og Alisson verða líka á sínum stað. En þar sem stutt er liðið frá síðasta leik er nú aldrei að vita nema að Klopp vilji fá ferska fætur inn líka.

Undanfarin ár hefur Liverpool gengið alveg ágætlega á útivelli gegn West Ham og síðustu fjórir leikir ekki tapast (1 jafntefli og 3 sigrar) og í síðustu sex viðureignum liðanna hafa West Ham aðeins náð í eitt jafntefli. Hamrarnir hafa hinsvegar ekki tapað í deildinni síðan í desember þegar þeir lágu gegn Chelsea 3-0. Það sem meira er þá hafa þeir unnið síðustu þrjá leiki og mæta því fullir sjálfstrausts til leiks. Eitthvað verður því undan að láta þegar leikurinn verður flautaður á. Við vonum bara að sjálfstraust okkar manna sé komið vel til baka eftir frábæra frammistöðu á fimmtudagskvöldið.

Þetta tímabil hefur verið fáránlegt í alla staði fyrir okkar menn og í raun má segja í deildinni heilt yfir. Það nægir að líta á stöðu liðanna fyrir þennan leik, West Ham eru tveimur stigum á eftir Liverpool í fimmta sæti. Þetta verður því barátta um að halda sér í topp fjórum, eitthvað sem fáa hefði órað fyrir í byrjun tímabils miðað við gengi liðanna á síðasta tímabili. Ég spái því að okkar menn haldi áfram að rífa sig í gang og vinni nauman 1-2 sigur. Koma svo !!

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er sem fyrr markahæstur Liverpool manna í deildinni með 13 mörk.

- Tomas Soucek er markahæstur West Ham manna með sjö mörk í deildinni það sem af er.

- Liverpool eru í fjórða sæti deildarinnar með 37 stig eftir 20 leiki.

- West Ham eru í fimmta sæti með 35 stig eftir 20 leiki.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan