| Grétar Magnússon

Öruggur sigur

Í fyrsta sinn síðan í mars máttu áhorfendur mæta á Anfield og leikmenn sýndu mátt sinn og megin í öruggum 4-0 sigri á Úlfunum.

Lítið kom á óvart í byrjunarliðsvali Jürgen Klopp, það var kannski helst sú staðreynd að hann setti traust sitt á Kelleher sem vakti athygli en miðað við frammistöðu hans í síðasta leik var það kannski ekki mjög skrýtið. Neco Williams og Andy Robertson voru bakverðir, miðverðir þeir Joel Matip og Fabinho. Á miðjunni voru þeir Jordan Henderson, Curtis Jones og Gini Wijnaldum. Frammi svo þríeykið heilaga, Sadio Mané, Mohamed Salah og Roberto Firmino. Diogo Jota settist á bekkinn og ánægjulegt var að sjá þá Trent Alexander-Arnold og Naby Keita mæta aftur til leiks eftir meiðsli.

Okkar menn byrjuðu betur, héldu boltanum vel innan liðsins og fyrsta færið kom eftir 12 mínútna leik þegar Robertson komst upp vinstra megin eftir laglegt samspil, sendi fyrir markið þar sem Mané átti skalla en hitti ekki markið. Hinumegin þurfti Kelleher svo að vera snöggur að átta sig þegar Daniel Podence reyndi að vippa boltanum í fjærhornið frá miðjum vítateig. Kelleher náði hinsvegar að slá boltann með flottri markvörslu. Gestirnir fengu annað fínt færi þegar Adama Traoré skeiðaði upp hægra megin, komst framhjá Fabinho og inná teiginn, fyrirgjöf hans hitti sem betur fer ekki samherja. Á 24. mínútu kom svo fyrsta mark leiksins. Henderson sendi háan bolta innfyrir ætlaðan Salah en Conor Coady virtist vera með allt á hreinu. Hann ákvað hinsvegar að taka boltann á brjóstkassann og missti hann frá sér. Salah var mættur til að hirða boltann, lék aðeins nær marki og skaut í fjærhornið. Kannski má kalla þetta gjöf frá fyrrum Liverpool manninum Coady en honum var ekki skemmt eftir þetta. Eins og oft áður í Liverpool leikjum hingað til var svo smá VAR dramatík þegar dómarinn dæmdi vítaspyrnu til Úlfanna rétt fyrir hálfleik. Mané hugðist hreinsa frá með bakfallsspyrnu og Coady kom aðvífandi í boltann og féll við. Í endursýningu var hinsvegar ljóst að Mané snerti Coady ekki neitt og dómarinn réttilega tók vítið til baka. Staðan 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svo meira og minna eign okkar manna. Eftir um klukkutíma leik vannst boltinn á eigin vallarhelming og Henderson kom boltanum á Wijnaldum sem lék í átt að teig Úlfanna með Mané og Salah með sér. Hann var hinsvegar ekkert á þeim buxunum að nýta sér hlaup þeirra og þrumaði boltanum glæsilega í markið rétt fyrir utan teiginn. Hann fagnaði markinu að hætti félaga síns Virgil van Dijk, sem sat uppí stúku og gladdist mjög. Frábært mark hjá Wijnaldum ! Nokkrum mínútum síðar skoraði svo Joel Matip með föstum skalla frá markteig eftir snilldar sendingu frá Salah eftir stutta hornspyrnu. Liverpool menn voru ekki hættir og Alexander-Arnold, sem kom inná sem varamaður rétt eftir mark Matip, átti hættulega sendingu inná teiginn þar sem Mané og Salah reyndu að ná til boltans ásamt Nelson Semedo sem hafði ekki erindi sem erfiði og tæklaði boltann í eigið mark. Lokatölur 4-0 og sigrinum auðvitað vel fagnað fyrir framan 2.000 stuðningsmenn félagsins í Kop stúkunni.



Liverpool: Kelleher, N. Williams (Alexander-Arnold, 68. mín.), Matip, Fabinho, Robertson, Henderson (Keita, 81. mín.), Wijnaldum, Jones, Salah, Firmino (Jota, 73. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Phillips, Tsimikas, Minamino.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (24. mín.), Gini Wijnaldum (58. mín.), Joel Matip (67. mín.) og sjálfsmark (78. mín.).

Gult spjald: Neco Williams.

Wolves: Rui Patrício, Nélson Semedo, Boly, Coady, Marçal, Dendoncker, João Moutinho, Neves (Fábio Silva, 62. mín.), Traoré, Podence (Aït-Nouri, 71. mín.), Neto (Vitinha, 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Ruddy, Hoever, Saïss, Kilman.

Gult spjald: João Moutinho.

Maður leiksins: Gini Wijnaldum skoraði fallegasta mark leiksins og stóð sig sem fyrr óaðfinnanlega á miðjunni. Hann hefur heldur betur þurft að standa vaktina á miðjunni á meðan liðsfélagar hans hafa dottið í meiðsli og sýnir lítil sem engin þreytumerki. Vonandi skrifar hann undir nýjan samning sem fyrst.

Jürgen Klopp: ,,Leikurinn og andrúmsloftið hér var frábært, ég var með gæsahúð þegar stuðningsmennirnir sungu You'll Never Walk Alone. Úlfarnir komust varla inní leikinn í kvöld og það er vegna þess að strákarnir spiluðu svo vel. Þetta var virkilega góð frammistaða."

Fróðleikur:

- Liverpool hafa nú ekki tapað í síðustu 65 leikjum á Anfield.

- Liðið hefur unnið 31 af síðustu 32 heimaleikjum í deildinni, skorað 93 mörk og fengið á sig 25.

- Caoimhin Kelleher varð þriðji yngsti markvörðurinn í sögu félagsins til að halda hreinu í deildarleik. Hinir tveir eru Scott Carson og Chris Kirkland. Kelleher er hinsvegar sá yngsti í sögunni til að halda hreinu í fyrsta deildarleik sínum.

- Gini Wijnaldum og Joel Matip skoruðu sín fyrstu mörk á leiktíðinni.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan