| Sf. Gutt

Góður sigur


Liverpool vann í kvöld góðan 2:1 sigur á Sheffield United á Anfield Road. Þó Sheffield sé neðarlega hafa fá lið veitt Liverpool meiri keppni á Anfield á þessu ári. 

Góðar fréttir voru staðfestar þegar Allisson Becker tók sér stöðu í marki Liverpool. Brasilíumaðurinn var því ekki jafn lengi frá vegna meiðslanna sem hann varð fyrir. Það kom nokkuð á óvart að Mohamed Salah, Sadio Mané, Roberto Firmino og Diogo Jota hófu allir leikinn. Í liði Sheffield United var Rhian Brewster. Hann var í fyrsta sinn í byrjunarliði United eftir söluna frá Liverpool. 

Liverpool byrjaði af miklum krafti og á annarri mínútu varð misskilningur í vörn gestanna. Sadio Mané náði boltanum, komst framhjá markmanninum Aaron Ramsdale og gaf fyrir autt markið. Mohamed Salah reyndi að ná fyrirgjöfinni en varnarmaður náði að bjarga. Rétt á eftir fékk Liverpool aukaspyrnu rétt við miðjuna á eigin vallarhelmingi. Trent Alexander-Arnold sá að Aaron markmaður Sheffield stóð framarlega og þess vegna skaut hann strax að marki. Aaron náði naumlega að slá boltann yfir. 

Það var þó fljótlega ljóst að gestirnir, þótt þeir væru án sigurs í deildinni, komu óhræddir á Anfield. Þeir börðust eins og ljón og Englandsmeistararnir þurftu sannarlega að vera vakandi. Sheffield fékk svo víti sem myndbandsdómgæslan sá um að dæma. Þar á bæ var ákveðið að Fabinho Tavarez hefði brotið á mótherja inni í vítateig. Reyndin var sú að Fabinho náði boltanum áður en hann fór í leikmanninn og þar að auki fór allt þetta fram fyrir utan vítateig. Sander Berge tók vítið og skoraði af öryggi. Sheffield United yfir eftir 13 mínútur. Alisson gerði svo vel í að verja fast skot frá Ben Osborne. Litlu áður vildu gestirnir fá víti þegar Andrew Robertson handlék boltann. Frekar hefði átt að dæma víti þá en þegar það var gert. 

Liverpool jafnaði leikinn á 41. mínútu. Jordan Henderson sendi þá fast fyrir frá hægri beint á Sadio. Hann átti fastan skalla sem Aaron varði. Hann hélt þó ekki boltanum og Roberto Firmino, sem var á næstu grösum, skoraði örugglega af örstuttu færi. Vel þegið mark bæði vegna þess að leikurinn var orðinn jafn og eins var gott að sjá Roberto skora. 

Liverpool réði öllum málum í síðari háfleik en gestirnir gáfu þó hvergi eftir. Rhian Brewster var skipt af velli snemma í síðari hálfleik en pilturinn hafði ekki sést i leiknum. Á 63. mínútu sendi Trent inn í vítateiginn á Mohamed. Egyptinn tók boltann glæsilega niður og laumaði honum svo út í hornið en því miður var hann dæmdur rangstæður sem var reyndar réttur dómur. Mínútu síðar eða svo kom löglegt mark. Sadio fékk boltann út til vinstri. Hann sendi frábæra sendingu fyrir markið sem hitti beint á Diogo Jota. Portúgalinn þakkaði gott boð, stökk upp rétt utan við markteiginn og skallaði boltann í markið fyrir framan Kop stúkuna. Vel gert hjá Diogo sem var vaxandi eftir því sem leið á leikinn. 

Sheffield United barðist vel á lokakaflanum en varð ekki mikið ágengt. Á 81. mínútu sneri Mohamed snilldarlega af sér varnarmann en skot hans fór í stöng. Óheppni því markið hefði verið glæsilegt. Liverpool hafði góðan sigur sem liðið þurfti sannarlega að hafa fyrir! Í raun hafa fá lið spilað betur á Anfield á þessu ári en Sheffield United gerði í þessum leik!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, Gomez, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Jota (Milner 83. mín.), Firmino (Minamino 83. mín.), Mané og Salah. Ónotaðir varamenn: Ónotaðir varamenn: Adrián, Jones, Shaqiri, Phillips og N. Williams.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (41. mín.) og Diogo Jota (64. mín.).

Sheffield United: Ramsdale, Basham, Egan, Stevens, Baldock, Berge, Ampadu, Lundstram (McGoldrick 76. mín.) Osborn, McBurnie og Brewster (Burke 54. mín.). Ónotaðir varamenn: Sharp, Jagielka, Norwood, Robinson og Verrips.

Mark Sheffield United: Sander Berge, víti, (13. mín.).

Gul spjöld: John Lundstram, Enda Stevens og Sander Berge. 

Áhorfendur á Anfield Road: Engir. Þó var Kenny Dalglish uppi í stúku. Gaman að sjá Kónginn á sínum stað!

Maður leiksins: Jordan Henderson. Fyrirliðinn var magnaður. Hann barðist eins og ljón og dró sína menn áfram. Sem sagt stórgóður leikur eins og svo oft áður!

Jürgen Klopp: Ég elska svona leiki. Maður þarf að leggja svo hart að sér til að vinna þá. 

Fróðleikur

- Roberto Firmino skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Diogo Jotta skoraði í annað sinn fyrir Liverpool. 

- Bæði mörkin hafa verið skoruð á Anfield og fyrir framan The Kop. 

- Andrew Robertson lék sinn 100. deildarleik. Alls hefur hann spilað 135 leiki fyrir Liverpool.

- Liverpool hefur fengið á sig 14 mörk í fyrstu sex deildarleikjunum. Á síðustu leiktíð fékk liðið 14 mörk á sig í 15 fyrstu leikjunum. 

- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu 13 heimaleikjum sem liðið hefur lent undir í. Níu síðustu eru sigurleikir.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan