| Grétar Magnússon

Jafntefli gegn Salzburg

Okkar menn léku seinni leik sinn í Austurríki í dag gegn Red Bull Salzburg. Lokatölur 2-2 jafntefli þar sem Rhian Brewster sá um markaskorun þeirra rauðu.

Byrjunarliðið hjá Jürgen Klopp var þannig skipað: Alisson, Williams, Gomez, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Wijnaldum, Keita, Mane, Salah, Firmino. Semsagt bara ein breyting frá leiknum við Stuttgart þar sem Gini Wijnaldum kom inn fyrir Curtis Jones.

Ekki voru liðnar nema þrjár mínútur af leiknum þegar heimamenn komust yfir. Fabinho missti boltann rétt fyrir utan eigin vítateig, Patson Daka komst einn í gegn og kláraði færið vel framhjá Alisson. Tíu mínútum síðar var staðan 2-0 og Daka aftur á ferðinni. Mergim Berisha komst upp kantinn vinstra megin og sendi inná teiginn þar sem Daka setti boltann í netið. Okkar menn eru nú ekki vanir því að vera lentir undir 2-0 snemma í leikjum og rönkuðu aðeins við sér eftir þetta. Mohamed Salah fékk fyrsta markverða færið þegar Salah náði ekki að hitta boltann eftir sendingu fyrir frá Mané. Á 38. mínútu fékk Firmino svo fínt færi en hitti því miður ekki markið eftir góða sendingu frá Mané.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks var aukaspyrna var tekin snöggt, Salah komst inní teiginn og sendi lágan bolta á Mané sem skaut að marki en varnarmaður bjargaði á línu. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Klopp gerði þrjár breytingar í hálfleik þegar þeir Jones, Minamino og Milner komu inná fyrir Firmino, Keita og Fabinho. Aftur virtust okkar menn byrja frekar rólega og van Dijk þurfti að gera vel þegar Alisson hreinsaði boltann beint í hann og Daka var við það að sleppa í gegn. En Hollendingurinn bjargaði málunum eins og oft áður.

Á 55. mínútu þurfti van Dijk svo að fara af velli með ljótan skurð á höfði, Nat Phillips kom inná fyrir hann. Eftir rétt rúman klukkutíma leik gerði Klopp svo sjö skiptingar þar sem þeir Elliott, Brewster, Adrian, Koumetio, Hoever, Grujic og Tsimikas komu inná. Það lifnaði aðeins yfir gestunum við þetta og á 71. mínútu minnkaði Rhian Brewster muninn eftir fínan undirbúning frá Milner og Minamino.


Á 81. mínútu jafnaði hann svo metin með laglegu marki. Löng sending fram frá Hoever og Oumar Solet misreiknaði boltann í vörninni. Markvörður Salzburg reyndi að lúðra boltanum frá markinu en skaut í Curtis Jones og boltinn barst til Brewster sem sendi boltann rakleiðis í markið.

Bæði lið fengu svo færi til að skora sigurmark leiksins í lokin en fleiri urðu mörkin ekki. Okkar menn halda nú aftur til Englands og halda áfram að undirbúa sig undir leik við Arsenal í Góðgerðaskildinum á laugardaginn kemur.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan