| Sf. Gutt

Það var fyrir 55 árum!


Rauður dagur! Fyrsti maí er rauður dagur en hann var óvenjulega rauður fyrir 55 árum. Liverpool náði þá loksins að vinna F.A. bikarinn í fyrsta skipti í sögu félagsins. Vissulega hafði Liverpool unnið til æðstu verðlauna og sex sinnum hafði liðið orðið enskur meistari. En F.A. bikarinn vantaði í verðlaunasafnið. Stuðningsmenn liðsins voru lengi búnir að bíða og lánið var með liðinu í þriðja úrslitaleik þess. Liverpool hafði tapað 1:0 fyrir Burnley árið 1914 og 2:0 fyrir Arsenal árið 1950. Everton hafði unnið FA bikar tvisvar sinnum og stuðningsmenn þeirra Bláu minntu rauðliða óspart á að Liverpool hefði aldrei unnið þessa merkilegu keppni. Þegar Bill Shankly tók við stjórn Liverpool 1959 einsetti hann sér að vinna FA bikarinn. Hann sagði að það væri til skammar að Liverpool hefði aldrei unnið keppnina. 

En árið 1965 var loksins komið að því að Liverpool ynni þennan eftirsótta bikar. Biðin hafði verið löng og fögnuður stuðningsmanna Liverpool var eftir því mikill.

Liverpool hafði yfirstigið heverja hindrunina á fætur annarri á leið í úrslitin. Síðast lagði liðið Chlesea 2:0 að velli í undanúrslitum á Villa Park. Mótherjinn í úrslitum var Leeds United. Eins og oft vill verða með úrslitaleiki þá var leikurinn ekki jafn góður og vonir stóðu til. Það var þungbúið í höfuðborginni og eitthvað rigndi. Völlurinn var því þungur og erfiður yfirferðar.

Liverpool varð fyrir miklu áfalli snemma í leiknum þegar, Gerry Byrne, vinstri bakvörður liðsins viðbeinsbrotnaði eftir samstuð við einn leikmanna Leeds. Þetta var áður en varamenn voru leyfðir og því ekki um annað að gera en að spila áfram eða að fara af velli. Gerry harkaði af sér og lék leikinn á enda. Gerry sýndi mikla hörku og var til þess tekið að leikmenn Leeds urðu ekkert varir við meiðsli hans. Fá færi sköpuðust og ekkert var skorað í venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni færðist fjör í leikinn. Roger Hunt kom Liverpool yfir snemma í framlengingunni. Hann skallði þá í mark af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hinum viðbeinsbrotna Gerry Byrne. Litlu síðar síðar jafnaði Billy Bremner með föstu skoti úr teignum. En leikmenn Liverpool náðu að herja fram sigur þegar níu mínútur voru til loka framlengingar. Ian Callaghan lék upp að endamörkum og sendi fyrir markið. Þar kastaði Skotinn Ian St John sér fram og skallaði í markið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega og fögnuðurinn var enn meiri þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Biðin var á enda! Liverpool hafði, undir stjórn Bill Shankly, loksins unnið F.A. bikarinn!


Ron Yeats, fyrirliði Liverpool, tók við bikarnum úr hendi Elísabetar annarrar Bretadrottningar í leikslok. Hann minnstist þeirrar stundar svona seinna. ,,Þetta var ógleymanleg stund. Það var ólýsanlegt að sjá gleðina á meðal stuðningsmanna okkar. Mest langaði mig til að henda bikarnum út í hóp aðdáenda okkar. Mér fannst að við höfðum unnið bikarinn saman." Margir stuðningsemnn Liverpool sem upplifðu þennan dag segja þennan sigur enn þann sætasta í sögu félagsins. 

Þegar til Liverpool kom tóku tugþúsundir stuðningsmanna Liverpool á móti liðinu til að hylla það. Talið var að aldrei fyrr hefði fleira fólk komið saman í borginni. 

Sem fyrr segir þá var þetta fyrsti sigur Liverpool í FA bikarnum sem hafði mun meira gildi fyrr á árum en nú til dags. Liverpool hefur unnið keppnina sjö sinnum 1965, 1974, 1986, 1989, 1992, 2001 og 2006. 


Liverpool: 1. Tommy Lawrence, 2. Chris Lawler, 3. Gerry Byrne, 4. Geoff Strong, 5. Ron Yeats (fyrirliði), 6. Willie Stevenson, 7. Ian Callaghan, 8. Roger Hunt, 9. Ian St John, 10. Tommy Smith og 11. Peter Thompson.

Mörk Liverpool: Roger Hunt (93. mín.) og Ian St John (111. mín.).

Leeds United: 1. Gary Sprake, 2. Paul Reaney, 3. Willie Bell, 4. Billy Bremner, 5. Jack Charlton, 6. Norman Hunter, 7. Johnny Giles, 8. Jim Storrie, 9. Alan Peacock, 10. Bobby Collins (fyrirliði) og 11. Albert Johanneson.

Mark Leeds United: Billy Bremner (102. mín.).


Áhorfendur á Wembley: 100.000.

Hér má horfa á svipmyndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan