| Sf. Gutt

Öruggur sigur í London

Liverpool vann í kvöld öruggan 0:2 sigur á West Ham United í London. Þetta var frestaður leikur frá því þegar Liverpool tók þátt í Heimsmeistarakeppni félagsliða fyrir jólin. 

Eftir fárið í kjölfar bikarleiksins við Shrewsbury var komið að deildarkeppninni. Jürgen Klopp hefur margoft lagt áherslu á að öll einbeiting og kraftar gangi fyrir í deildinni og þess vegna voru allir sterkustu menn ræstir út. Sadio Mané var þó meiddur og Divock Orgi var í hans stað. 

Strax frá upphafsflauti tók Liverpool öll völd. West Ham United pakkaði í vörn á heimavelli og Liverpool var með boltann löngum stundum. Ekkert var um færi fram eftir hálfleiknum og það var ekki fyrr en á 24. mínútu að færi gafst. Mohamed Salah sendi til vinstri á Andrew Robertson sem komst inn að markteig þar sem hann kom boltanum framhjá markmanni West Ham en boltinn fór rétt framhjá fjærstönginni. Um 11 mínútum seinna komst Liverpool yfir. Roberto Firmino náði boltanum við endamörkin og kom honum fyrir markið á Divock Origi sem var að reyna að koma sér í skotstöðu á markteig þegar Issa Diop felldi hann. Dómarinn dæmdi víti sem Mohamed Salah skoraði af öryggi úr. Þetta mark dugði til forystu í hálfleik. 

Heimamenn höfðu ekki átt sókn sem hætta skapaði af í fyrri hálfleik en eftir fjórar mínútur í síðari hálfleik fékk Manuel Lanzini boltann í góðu færi en hitti hann illa og boltinn fór til Alisson Becker. Liverpool fór fram hinu megin og Roberto fékk botann við markteiginn. Hann náði skoti en markmaður West Ham varði meistaralega neðst í horninu. Á 52. mínútu fékk West Ham horn hægri. Virgil van Dijk skallaði frá og sneri vörn Liverpool í leiftursókn. Boltinn gekk manna á milli fram á Mohamed Salah sem sendi glæsilega sendingu inn fyrir vörnina á Alex Oxlade-Chamberlain sem rauk inn í vítateiginn og skoraði af öryggi. Falleg sókn!

West Ham ógnaði þremur mínútum seinna þegar Robert Snodgrass náði markskoti en Alisson varði vel. Liverpool hafði öll tök á leiknum en Declan Rice átti skot á 71. mínútu sem Alisson varði. Sjö mínútum seinna átti Mohamed gott skot utan teigs sem small í stöng. Trent Alexander-Arnold hafði áður átt skot í stöng en á eigin marki þegar hann hugðist bjarga í horn! Vörn Liverpool var traust og að baki hennar var Alisson Becker öryggið uppmálað. Þetta dugði til að Liverpool hélt hreinu og landaði öruggum sigri. 

Leikur Liverpool var traustur þó svo liðið geti leikið mun betur. Sigurinn tryggði 19 stiga forskot sem er alveg með ólíkindum. Stórkostlegur árangur! Það er þó langt í land en það styttist með hverjum leik. Einbeitingu og kröftum liðsins verður áfram beint að deildarleikjunum! Bill Shankly sagði að deildin væri brauð og viðbit Liverpool. Jürgen Klopp hefur orð hans í hávegum!

West Ham United:
Fabianski; Ngakia, Diop, Ogbonna, Cresswell, Masuaku; Noble, Rice, Snodgrass; Haller og Lanzini (Fornals 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Randolph, Balbuena, Zabaleta, Sanchez, Cardoso og Ajeti   

Gul spjöld:
 Issa Diop og Mark Noble.  

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold (Keita 78. mín.), Van Dijk, Gomez, Robertson; Oxlade-Chamberlain (Jones 85. mín.), Henderson, Wijnaldum; Firmino, Salah og Origi (Fabinho 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrian, Lovren, Minamino og Matip. 

Mörk Liverpool: Mohamed Salah, víti, (35. mín.) og Alex Oxlade-Chamberlain (52. mín.).

Áhorfendur á London leikvanginum: 59.959.

Maður leiksins: Mohamed Salah. Egyptinn var mjög ógnandi í sókninni. Hann skoraði úr vítinu sem kom Liverpool á bragðið og lagði upp seinna markið. Stöngin kom svo í veg fyrir annað mark hjá honum. 

Jürgen Klopp: Ég er bara ánægður með að við skyldum ná þremur stigum. Við spiluðum í kvöld eins og við eigum að okkur. Aðalmarkmiðið er að ná þeim stigum sem eru í boði. Það eru margir leikir eftir ennþá. 

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði 16. mark sitt á leiktíðinni. 

- Alex Oxlade-Chamberlain skoraði sjötta mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Í fyrsta sinn í sögu Liverpool hefur liðið unnið alla mótherja sína í deildarkeppni í efstu deild. 

- Þetta var 150. sigurinn á valdatíð Jürgen Klopp í öllum keppnum. Jafntefli eru 58 og töp 39.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan