| Sf. Gutt

Árið byrjar með sigri!




Liverpool hóf árið 2020 eins og það lauk árinu 2019. Sem sagt með sigri á Anfield! Heimsmeistararnir unnu yfirburðasigur á Sheffield United. Þó sigurinn væri bara 2:0 þá voru yfirburðir Liverpool með fádæmum. 

Neby Keita átti að hefja leikinn en hann meiddist í upphitun og James Milner tók stöðu hans. Það ætlar að ganga illa fyrir Naby að ná mörgum leikjum í röð án þess að meiðast. 

Fyrsti leikurinn á nýja árinu hefði ekki getað byrjað betur. Andrew Robertson fékk sendingu fram á vinstri kantinn. Varnarmaður hrasaði og Andrew átti greiða leið inn í vítateiginn þar sem hann sendi þvert fyrir markið á Mohamed Salah sem skoraði með öruggu skoti af stuttu færi. Frábær sókn. Það kom sér vel að varnarmaðurinn féll við en bæði Andrew og Mohamed gerðu sitt eins og best mátti vera.  

Gestirnir áttu skot rétt framhjá í næstu sókn og á 7. mínútu skaut David McGoldrick  föstu skoti frá vítateig sem fór beint á Alisson Becker. Á 11. mínútu lagði Jordan Henderson upp færi fyrir Mohamed. Egyptinn tók viðstöðulaust skot frá vítateigspunkti eftir langa sendingu frá Jordan en Dean Henderson sló boltann yfir með tilþrifum. Eftir hálftíma fékk Mohamed langa sendingu fram í vítateiginn en Dean varði aftur frá honum. Liverpool réði lögum og lofum en aðeins eitt mark skildi í hálfleik. 

Það var ótrúlegt að sjá Liverpool spila á löngum köflum í síðari hálfleik. Boltinn gekk manna á milli og leikmenn Sheffield United voru ekki með. Ótrúlegir yfirburðir. Á 57. mínútu fékk Roberto Firmino skotfæri við vinstra vítateigshornið en bogaskot hans fór rétt framhjá fjærstönginni. Þremur mínútum seinna fékk Mohamed boltann utan við vítateiginn. Hann vippaði boltanum að markinu. Boltinn skoppaði einu sinni á leiðinni og ekki var annað að sjá en mark yrði úr en boltinn fór í stöngina innanverða og Dean náði svo boltanum á síðustu stundu. 

Á 64. mínútu gerði Liverpool út um leikinn. Ein af fáum sóknum Sheffield var brotinn á bak aftur. Alisson kastaði út á Andrew og hann sendi fram á Sadio Mané sem braust fram vinstra megin. Senegalinn gaf á Mohamed sem sendi inn í vítateiginn á Sadio. Dean náði að stöðva skot hans en Sadio var eldsnöggur af stað aftur og þrumaði boltanum í markið af stuttu færi. Eldsnögg sókn!

Á 69. mínútu átti Mohamed skot eftir hraða sókn en Dean varði. Sheffield hefði getað skorað þegar þrjár mínútur voru eftir en Oliver McBurnie hitti ekki boltann af stuttu færi og Alisson hirti boltann á marklínunni. Liverpool réði lögum og lofum til leiksloka. Sigurinn hefði átt að vera stærri en hann var nógu stór.

Liverpool byrjar nýtt ár eins og liðið lauk því gamla. Með því að vinna sigur á Anfield. Áfram skal haldið. Það er langt til vors en staða Liverpool gæti ekki verið betri!

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson (Lallana 88. mín.); Henderson, Milner, Wijnaldum; Salah (Elliott 90. mín.), Firmino og Mané (Origi 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrian, Jones, Williams og Phillips.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (4. mín.) og Sadio Mané (64. mín.).

Sheffield United: Henderson; Basham, Egan, O'Connell; Baldock, Lundstram, Norwood (Besic 78. mín.), Fleck, Stevens; McGoldrick (Sharp 66. mín.) og Mousset (McBurnie 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Robinson, Jagielka, Verrips og Osborn.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.321.

Maður leiksins:
Jordan Henderson. Fyrirliðinn var frábær eins og svo oft áður. Hann var úti um allan völl og dreif liðið sitt áfram. 

Jürgen Klopp: Við stjórnuðum leiknum. Við náðum að fara í kringum leikaðferð þeirra. Komumst inn fyrir, lékum inni á milli þeirra, brutumst í gegn og áttum hraðar sóknir. Við gerðum allt sem við viljum gera í leikjum. Strákarnir voru frábærir. Ég er hæst ánægður og stoltur af strákunum.  

Fróðleikur

- Liverpool hóf árið 2020 með sigri. 

- Mohamed Salah skoraði 14. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Sadio Mané skoraði 15. mark sitt á leiktíðinni. 

- Alisson Becker spilaði 70. leik sinn með Liverpool. 

- Á morgun verður eitt ár liðið frá því Liverpool tapaði síðast deildarleik. 

- Á þessu ári hefur Liverpool leikið 37 deildarleiki. Liðið hefur unnið 37 og gert fimm jafntefli. 

- Liverpool setti nýtt deildarmet í sendingum. Leikmenn Liverpool áttu 969 sendingar í leiknum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan