| Grétar Magnússon

Jürgen Klopp með nýjan samning !

Þær gleðifréttir voru að berast frá félaginu að Jürgen Klopp hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2024. Sögusagnir höfðu verið á kreiki um að Þjóðverjinn vildi ekki framlengja og hugðist taka sér frí frá þjálfun þegar þáverandi samningur hans rynni út.



Nú eru þær sögusagnir heldur betur settar á ís og það sem meira er hafa þeir Peter Krawietz og Pepijn Lijnders einnig framlengt samningum sínum við félagið. Frábært samstarf þeirra þriggja er því tryggt í að minnsta kosti fjögur og hálft ár í viðbót.

Klopp, sem er 52 ára gamall, hefur verið stjóri félagsins í rúmlega fjögur ár og óhætt er að segja að árin hafi verið árangursrík þó það hafi nú "bara" tekist að ná í tvo bikara í safnið. Liðið hefur enn ekki tapað tveggja leikja útsláttarkeppni í Evrópu undir hans stjórn sem þýðir að félagið hefur alltaf komist í úrslitaleik í Evrópukeppni undir hans stjórn. Við vitum auðvitað hvernig þessir leikir enduðu en sú staðreynd að Þjóðverjanum hefur tekist að innprenta í leikmenn sína að gefast aldrei upp kemur berlega í ljós þegar litið er til Evrópuleikjanna. Það er því ánægjuleg tilhugsun að þróun liðsins, og í raun klúbbsins alls, heldur áfram undir handleiðslu Klopp og hans manna, vel fram í næsta áratug.

Klopp sagði í viðtali við undirskrift samningsins að hann hefur mikla trú á því að báðir aðilar hagnist vel á þessum samningi og að hann sjálfur gæti ekki hugsað sér neitt annað félag í heiminum til að stýra.

,,Fyrir mig persónulega er þetta yfirlýsing ásetning frá félaginu að byggja enn frekar á þeim árangri sem hefur náðst til þessa. Þegar ég horfi á þróun félagsins og þá samvinnu sem heldur áfram að vera í gangi finn ég að mitt framlag getur bara vaxið."

Fólk sér hvað gerist inná vellinum og notar það sem mælikvarða á árangur og þó svo að það sé auðvitað besti mælikvarðinn er það ekki sá eini. Ég hef séð hversu ótrúlega mikla vinnu eigendurnir hafa lagt í hvern einasta þátt og hvert einasta atriði sem tengist félaginu sem fólki dettur í hug. Þegar símtalið kom haustið 2015 fannst mér ég og félagið passa fullkomlega saman. Ef eitthvað er þá hef ég þá trú núna að ég vanmat þessa tilfinningu. Ég hef einstaklega mikla trú á því að samvinna okkar allra muni gagnast báðum aðilum og ég held því áfram að leggja mitt af mörkum til ársins 2024."



,,Ef ég hefði ekki þessa tilfinningu þá væri ég ekki að skrifa undir. Félagið er á virkilega góðum stað, ég gæti ekki hugsað mér að fara. Ég verð líka að hrósa hlutverki Michael Edwards á vegferðinni til þessa. Framlag hans og samvinna er jafn mikilvæg og allra annara að koma okkur í þá stöðu að við erum nú að keppa um stóru titlana. Það er í raun ekki hægt að vera hjá betra félagi en Liverpool ákkúrat núna, hver einasta deild hér er að vinna einstakt starf, alveg frá stuðningi áhangenda til þeirrar sýnar sem eigendurnir hafa."

Eins og áður sagði hefur Klopp verið stjóri félagsins í rúmlega fjögur ár en þann 8. október 2015 var hann formlega kynntur til leiks. Flestir þekkja feril hans áður en hann kom til Englands. Þjálfaraferillinn byrjaði hjá FSV Mainz 05 og kom Klopp félaginu upp í þýsku Bundesliguna í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2004 og einu tímabili síðar var liðið komið í Evrópukeppni. Hann fór svo til Borussia Dortmund og var hjá félaginu í sjö tímabil þar sem þýski meistaratitillinn vannst tvisvar sinnum ásamt fleiri titlum og einu sinni komst liðið í úrslit Meistaradeildar.

Hjá Liverpool var brekkan kannski brött í fyrstu eins og við var að búast þegar Klopp tók við. En á fyrsta tímabilinu komst liðið í úrslit deildarbikarsins og Evrópudeildarinnar en mátti sætta sig við tap í bæði skiptin. Tímabilið 2016-17 var svo sæti í Meistaradeildinni tryggt á ný þegar fjórða sæti deildarinnar náðist á lokadegi tímabilsins með sigri á Middlesbrough á Anfield. Á sínu fyrsta tímabili með Liverpool í Meistaradeild fór Klopp með liðið alla leið í úrslit gegn Real Madrid og allir vita nú hvernig sá leikur fór. En liðið gerði sér lítið fyrir og endurtók leikinn á síðasta tímabili og nú tókst loksins að ná í bikar með 2-0 sigri á Tottenham. Liðið náði jafnframt í flest stig í sögu félagsins í deildinni, 97 stig alls en því miður dugði það ekki til þess að fagna titlinum langþráða. 

Það sem af er þessu tímabili er liðið með í öllum keppnum og situr á toppi deildarinnar með átt stiga forystu á Leicester City.

Það er því klárlega ástæða til að fagna því að Klopp og hans menn hafi framlengt samningum sínum við Liverpool FC og við stuðningsmenn getum haldið áfram að njóta þess að hafa þennan frábæra þjálfara við stjórnvölinn !



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan