| Sf. Gutt

Niðurtalning. 3. kapítuli


Það styttist í leikinn á Wembley. Nú væri rétt að rifja upp fyrri leiki Liverpool í leiknum um Skjöldinn. Í þeim hefur margt borið til tíðinda.

+ 1922. Liverpool - Huddersfield Town 0:1. Leikið var á Old Trafford heimavelli Manchester United. Liverpool voru ríkjandi Englandsmeistarar en töpuðu sínum fyrsta leik um Góðgerðarskjöldinn með minnsta mun. Tommy Wilson skoraði markið.

+ 1964. Liverpool - West Ham United 2:2. Leikið var á Anfield Road. Þeir Gordon Wallace og Gerry Byrne skoruðu mörk Liverpool. John Byrne og Geoff Hurst skoruðu fyrir Hamrana. 

+ 1965. Liverpool - Manchester United 2:2. Leikið var á Old Trafford. Willie Stevenson og Ron Yeats skoruðu fyrir Liverpool. George Best og David Heard sáu um mörk United.  



+ 1966. Liverpool – Everton 1:0. Leikið var á Goodison Park. Hér mættust nágrannarnir fyrir framan 63.329 áhorfendur. Ekki spillti fyrir aðsókninni að Heimsmeistarastyttan var til sýnis fyrir leik ásamt Englandsmeistara- og F.A. bikarnum. Heimsmeistaratitillinn vannst til handa Englendingum fyrr um sumarið. Þeir Roger Hunt og Ray Wilson leikmaður Everton sem léku með Englendingum sýndu styttuna fyrir leik. Roger bætti um betur og skoraði sigurmarkið í leiknum snemma leiks með bylmingsskoti utan vítateigs. 

+ 1971. Liverpool - Leicester City 0:1. Arsenal voru tvöfaldir meistarar en þáðu ekki keppnisboðið og Liverpool var boðið til leiks í þeirra stað. Liverpool hafði um vorið tapað úrslitaleiknum um FA bikarinn fyrir Arsenal. Leicester sem vann aðra deildina tók hitt sætið. Furðulegt. Steve Whitworth skoraði eina mark leiksins á Filbert Street heimavelli Leicester. 




+ 1974. Liverpool - Leeds United 1:1. Fyrsti leikurinn um Skjöldinn sem leikinn var á Wembley. Í fyrsta skipti réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni. Liverpool vann hana 6:5. Það voru litlir kærleikar með leikmönnum og þeir Kevin Keegan og Billy heitinn Bremner voru reknir af leikvelli og fengu þungar refsingar í kjölfarið. Það þótti ekki gott til afspurnar að fá rautt spjald í góðgerðarleik. Ekki bætti úr skák að þeir félagar afklæddust keppnispeysum sínum eftir að hafa verið vísað af leikvelli. Phil Boersma skoraði mark Liverpool í leiknum. Í vítaspyrnukeppninni skoruðu þeir: Alec Lindsay, Emlyn Hughes, Brian Hall, Tommy Smith, Peter Cormack og Ian Callaghan fyrir Liverpool. Úrslit réðust þegar David Harvey markverði Leeds brást skotfimin. Bill Shankly leiddi Liverpool til leiks þrátt fyrir afsögn sína um sumarið. Hann stjórnaði liðinu í síðasta sinn með nýja stjóranum Bob Paisley sem fékk Skjaldarsigurinn á afrekaskrá sína. 

+ 1976. Liverpool – Southampton 1:0. Allt fór vel friðsamlega fram að þessu sinni. Southampton var bikarmeistari eftir óvæntan sigur 1:0 á Manchester United um vorið og að auki unnu þeir sér sæti í efstu deild. Veilsverjinn John Toshack skoraði sigurmarkið. 


+ 1977. Liverpool - Manchester United 0:0. Meistarinn Kenny Dalglish nýfluttur frá Skotlandi lék sinn fyrsta leik með Liverpool og þótti besti maður vallarins í tíðindalitlum leik. Ekki í fyrsta skipti sem hann var í því hlutverki á ferli sínum með Liverpool. 

+ 1979. Liverpool – Arsenal 3:1. Líklega besti leikur Liverpool um Skjöldinn í sögunni. Liðið setti sýningu á svið og komst í 3:0 með tveimur glæsimörkum frá Terry McDermott og einu snilldarlegu frá Kenny Dalglish. Alan Sunderland svaraði fyrir Arsenal. Stórkostlegur leikur í sólinni á Wembley. 

+ 1980. Liverpool - West Ham United 1:0. Aftur lék Liverpool gegn liði sem vann sig upp í efstu deild og vann að auki Bikarinn 1:0 eftir óvæntan sigur gegn Arsenal. West Ham er reyndar síðasta liðið til að vinna F.A. bikarinn sem annarar deildar lið. Terry McDermott skoraði sigurmarkið af stuttu færi í fyrri hálfleik. 


+ 1982. Liverpool - Tottenham Hotspur 1:0. Liverpool vann Tottenham aftur eftir að hafa unnið þá 3:1 í úrslitum Deildarbikarins fyrr um árið. Ian Rush skoraði eina markið eftir að hafa komist einn í gegn eftir snilldareinleik og stungusendingu frá Phil Thompson. Ray Clemence mátti sækja boltann í markið. 

+ 1983. Liverpool - Manchester United 0:2. Gömlu samherjanir hjá Liverpool Bob Paisley og Matt Busby hömpuðu verðlaunagripum fyrrum liða sinna fyrir leik. Joe heitinn Fagan stjórnaði Liverpool í fyrsta skipti. Kenny Dalglish átti glæsiskot í stöngina innanverða þegar leikurinn var markalaus. Bryan Robson skoraði síðar tvívegis. Þrátt fyrir tap í fyrsta leik stýrði Joe Liverpool til Þrennu á leiktíðinni sem fylgdi í kjölfarið þegar liðið varð Englands-, Evrópu- og Deildarbikarmeistari. 

+ 1984. Liverpool – Everton 0:1. Þrefaldir meistarar Liverpool mættu Bikarmeisturum Everton. Fjórir stórtitlar gistu Liverpool borg um þær mundir og Skjöldurinn fór þangað líka. Eitthundrað þúsund áhorfendur fylltu Wembley. Aldrei fyrr eða síðar hefur verið uppselt á Wembley í leik um Góðgerðarskjöldinn. Eina mark leiksins er skráð sem sjálfsmark hjá Bruce Grobbelaar. 

+ 1986. Liverpool – Everton 1:1. Aftur nágrannaslagur. Everton reyndi allt hvað eina til að hefna sín á þeim Rauðu eftir að Liverpool vann Englandsmeistaratitilinn af þeim og að auki vann Liverpool þá Bláu 3:1 í úrslitum F.A. bikarins um vorið. Bruce Grobbelaar meiddist og Mike Hooper kom í fyrsta skipti í mark Liverpool. Bruce missti í kjölfarið sína fyrstu leiki með Liverpool eftir að hann lék fyrst með liðinu haustið 1981. Adrian Heath kom Everton yfir þegar liðið var á leik en hver annar en Ian Rush jafnaði í lok leiksins. 

+ 1988. Liverpool - Wimbledon.2:1. "Liverpool v. Wimbledon. Part two. The Revenge." ,,Liverpool v. Wimbledon. Annar hluti. Hefndin." Þetta stóð á borða uppi í stúku. Ekki gat það verið betur orðað. Liverpool var í hefndarhug eftir að Wimbledon rændi þá Tvennunni með óvæntum sigri í úrslitum F.A. bikarins 1:0 um vorið. John Aldridge misnotaði vítaspyrnu í þeim leik en bætti heldur betur úr með því að skora bæði mörk Liverpool eftir að John Fashanu hafði komið Wimbledon yfir. Seinna mark John var stórglæsilegt. Hann klippti boltann í mark í mjaðmarhæð í grenjandi rigningu. John brosti út að eyrum í leikslok. Hefndin náðist. 

+ 1989. Liverpool - Arsenal.1:0. Aftur var Liverpool í hefndarhug eftir að Arsenal rændi þá Tvennunni með því að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn á Anfield Road á vordögum. Peter Beardsley skoraði eina markið í fyrri hálfleik. Aftur náðist hefnd fram. 

+ 1990. Liverpool - Manchester United 1:1. Jafn og tvísýnn leikur. Clayton Blackmore kom Manchester United yfir. En Liverpool gafst ekki upp og John Barnes jafnaði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið hafði verið á honum. 

+ 1992. Liverpool - Leeds United 3:4. Einn besti leikurinn um Skjöldinn í sögunni. Liverpool lék mjög vel í leiknum og verðskuldaði sannarlega ekki tap. Vörnin var óþarflega ótraust. Veilsverjanir Ian Rush og Dean Saunders skoruðu auk þess sem Skotinn Gordon Strachan bættist á markalistann með sjálfsmarki. Tony Dorigo og Eric Cantona sem skoraði þrennu sáu um mörk Leeds.


+ 2001. Liverpool - Manchester United.2:1. Fyrsti leikur Liverpool um Góðgerðarskjöldinn á nýrri öld og sá fyrsti frá 1992. Liverpool og Manchester United háðu harða rimmu og hugtakið vináttuleikur var víðsfjarri. Gary McAllister kom Liverpool yfir með marki úr vítaspyrnu strax í upphafi leiks. Ekki löngu síðar skoraði Michael Owen eftir að hafa tætt vörn Manchester í sig. Ruud Van Nistelrooy minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks. Lengra komust leikmenn Manchseter United ekki. Liverpool vann 2:1 og Sander Westerveld var kosinn Maður leiksins. Samy Hyypia tók við Skildinum og söngskemmtun stuðningsmanna Liverpool hófst! 

2002. Liverpool - Arsenal.0:1. Liverpool lék ekki sérstaklega vel í þessum leik. Arsenal var lengst af sókndjarfara liðið og Jerzy Dudek hafði í nógu að snúast í markinu. Pólverjinn varði nokkrum sinnum frábærlega og hélt Liverpool inni í leiknum. Brasilíumaðurinn Gilberto Silva skoraði eina mark leiksins í sínum fyrsta leik með Skyttunum. Heppnin var þó með Arsenal undir lok leikins og Liverpool hefði átt að fá vítaspyrnu. Dómarinn dæmdi ekkert og Arsenal vann sigur.


+ 2006. Liverpool - Chelsea.2:1. Þriðji Skjaldarleikur Liverpool í Cardiff. Liverpool og Chelsea leiddu margoft saman hesta sína á þessum árum og það var jafnan grunnt á því góða. John Arne Riise kom Liverpool yfir snemma leiks eftir mikla rispu fram völlinn sem endaði með föstu skoti. Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko jafnaði fyrir hálfleik. Peter Crouch tryggði Liverpool Skjöldinn með sigurmarki leiksins. Hann skallaði þá fallega í mark þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Liverpool vann því fyrsta og síðasta Skjaldarleikinn í Cardiff en þar fóru úrslitaleikir í ensku knattspyrnunni fram á meðan Wembley var endurbyggður.  

+ 2019. Liverpool - Manchester City. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi lið takast á um Skjöldinn. Liverpool er ríkjandi Evrópumeistari en Manchester City hefur alla fjóra verðlaunagripi sem hægt er að vinna á Englandi í vörslu sinni! Vonandi nær Liverpool þeim fyrsta úr klóm City á morgun!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan