| Sf. Gutt

Niðurtalning - 5. kapítuli

Úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni fer fram annað kvöld. Nú er rétt að rifja upp úrslitaleiki Liverpool í Evrópubikarnum á meðan beðið er eftir leiknum. 


+ 1977. Liverpool:Borussia Mönchengladbach. 3:1. Hjarðir stuðningsmanna Liverpool héldu til Rómar til að hvetja nýbakaða Englandsmeistara til dáða. Liverpool hafði tapað úrslitaleiknum í F.A. bikarnum 2:1 fyrir Manchester United laugardaginn áður. En leikmenn Liverpool rifu sig upp eftir þau vonbrigði og sýndu stórleik í Róm. Terry McDermott kom Liverpool yfir á 27. mínútu þegar hann skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir laglegt samspil við Steve Heighway. Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Þýska liðið hafði þó ekki gefist upp og á 55. mínútu jafnaði Daninn Allan Simonsen með þrumuskoti. Þjóðverjarnir spiluðu vel í kjölfar marksins og Ray Clemence varð að taka á honum stóra sínum við að verja frá Ule Stielike. En Liverpool náði aftur forystu á 64. mínútu. Tommy Smith skoraði þá með föstum og glæsilegum skalla eftir hornspyrnu frá Steve Heighway. Nú náði Liverpool yfirhöndinni á nýjan leik og á 82. mínútu gerði liðið endanlega út um leikinn. Berti Vogts braut þá á Kevin Keegan, sem þetta kvöld spilaði kveðjuleik sinn með Liverpool, innan vítateigs. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Phil Neal sá um að skora úr henni. Stuðningsmenn Liverpool sem voru fjölmennir á Olympíuleikvanginum fögnuðu gríðarlega en þó aldrei eins og þegar Emlyn Hughes tók við bikarnum eftir leikinn. Fyrsti sigur Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða var staðreynd. 


+ 1978. Liverpool:Brugge. 1:0. Liverpool fékk tækifæri til að verja Evrópubikarinn á Syðri Anfield eins og stuðningsmenn Liverpool nefndu Wembley gjarnan. Liverpool var miklu sterkari aðilinn í leiknum gegn Brugge. Belgarnir spiluðu á hinn bóginn sterkan varnarleik og leikmönnum Liverpool gekk illa að skapa sér góð marktækifæri. Nokkur færi sköpuðust þó en markvörður belgíska liðsins varði vel þegar á þurfti að halda. Það var loksins á 65. mínútu sem sókn Liverpool bar árangur. Graeme Souness sendi þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Brugge á Kenny Dalglish. Markvörður Brugge kom út á móti honum en Kenny lyfti boltanum meistaralega yfir hann og í markið. Yfirburðir Liverpool voru miklir en Brugge náði samt næstum því að jafna upp úr þurru. Eftir mistök Alan Hansen náði Simoen skoti sem stefndi í markið en á síðustu stundu náði Phil Thompson að bjarga á línu. Þetta var í eina skiptið sem Belgarnir komust í verulega hættulegt færi. Sigurinn var öruggur og mikill fögnuður braust út á Wembley þegar Emlyn Hughes tók við Evrópubikarnum annað árið í röð. Liverpool varð þar með fyrst enskra liða til að verja Evrópubikarinn.


+ 1981. Liverpool:Real Madrid. 1:0. Nú var leikið á Prinsaleikvanginum í París. Þessi leikur var lengi tíðindalítill. Bæði lið tóku litla áhættu og fátt var um marktækifæri. Það stefndi í framlengingu þegar Liverpool gerði út um leikinn. Á 81. mínútu fékk Liverpool innkast vinstra megin á móts við vítateig Real. Ray Kennedy tók innkastið og kastaði boltanum til nafna síns Alan Kennedy. Hann lék framhjá einum varnarmanni, inn í vítateiginn og þrumaði boltanum í markið. Stuðningsmenn Liverpool gengu af göflunum þegar þeir sáu boltann hafna í markinu. Phil Thompson tók við bikarnum eftir leikinn. Liverpool varð fyrst enskra liða til að vinna Evrópubikarinn þvívegis og Bob Paisley hafði stjórnað liðinu í öll skiptin.

 

+ 1984. Liverpool:Roma. 1:1. Liverpool vann 4:2 í vítaspyrnukeppni. Aftur héldu hjarðir stuðningsmanna Liverpool til Rómar. Verkefni Liverpool var ekki árennilegt. Liðið þurfti að fást við Roma á þeirra eigin heimavelli. Joe Fagan lagði vel á ráðin fyrir leikinn. Liverpool fékk óskabyrjun í leiknum þegar Phil Neal skoraði af stuttu færi, eftir mistök í vörn Roma, á 14. mínútu. Liverpool virtist ekki vera í miklum vandræðum en á 43. mínútu jafnaði ítalska liðið. Roberto Pruzzo skoraði þá með skalla. Liverpool hafði í fullu tré við Rómverja og hefði allt eins getað unnið leikinn áður en kom til framlengingar. Ekkert var skorað í henni og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni. Hún bryjaði ekki vel fyrir Liverpool því Steve Nicol skaut yfir úr fyrstu spyrnu Liverpool. En dæmið átti eftir að snúast við. Þar eftir skorðu allir leikmenn Liverpool af öryggi. Fyrst Phil Neal, þá Graeme Souness og svo Ian Rush. Ítalir misnotuðu tvær spyrnur og Alan Kennedy gulltryggði sigur Liverpool úr fimmtu sprynu Liverpool. Fjórði Evrópubikasigur Liverpool var í höfn. Um leið var fyrsta Þrenna ensks liðs tryggð því fyrr á leiktíðinni hafði Liverpool tryggt sér enska meistaratitilinn og Deildarbikarinn. Graeme Souness tók við bikarnum og var það síðasta verk hans sem leikmanns Liverpool. 

+ 1985. Liverpool:Juventus. 0:1. Leikið var á Heysel leikvanginum í Brussel. Því miður þá féll þessi leikur algerlega í skuggann á hinum hræðilega harmleik sem átti sér stað fyrir leikinn. Slakt skipulag framkvæmdaaðila leiksins olli því að stuðningsmenn félaganna voru hlið við hlið á einum stað á vellinum. Fylkingum laust saman og 39 ítalir létust. Þrátt fyrir þetta ákváðu yfirvöld að láta leikinn fara fram. Liverpool gat líklega aldrei unnið þennan leik. Eina mark leiksins skoraði Michel Platini úr vítaspyrnu sem dæmd var á brot sem var utan vítateigs. Leikmenn Liverpool reyndu að jafna en það lá ekki fyrir þeim að gera það. 


+ 2005. Liverpool:AC Milan. 3:3. Liverpool vann 3:2 í vítaspyrnukeppni. Það mæla ekki margir því mót að þessi ótrúlegi úrslitaleikur á Ataturk leikvanginum í Istanbúl sé besti úrslitaleikur sögunnar. Að auki þá var þetta magnaðasta endurkoma í úrslitaleik. AC Milan virtist vera með unninn leik í hálfleik. Paulo Maldini kom ítalska liðinu yfir á fyrstu mínútu. Hernan Crespo skoraði svo tvívegis á síðustu fimm mínútum hálfleiksins. Öll sund virtust lokuð. Síðari hálfleikur virtist vera formsatriði fyrir AC Milan. Ótrúlegasta endurkoma sögurnnar breytti þó öllu. Endurkoman hófst á 54. mínútu þegar Steven Gerrard skoraði með skalla. Tveimur mínútum síðar skoraði Vladimir Smicer með skoti utan vítateigs. Þrjár mínútur liðu og Liverpool fékk vítaspyrnu eftir að bortið hafði verið á Steven Gerrard. Dida varði frá Xabi Alonso en Spánverjinn var vel vakandi og kom frákastinu í markið. Staðan var orðin 3:3! Leikurinn fór í framlengingu og undir lok hennar varði Jerzy Dudek tvívegis á yfirnáttúrulegan hátt frá Andreyi Schevchenko. Vítaspyrnukeppni tók við og í henni varð Jerzy Dudek að goðsögn. Pólverjinn varði tvær vítaspyrnur. Þá seinni varði hann frá Andreyi og tryggði Evrópubikarinn. Þeir Dietmar Hamann, Djibril Cissé og Vladimir Smicer skoruðu fyrir Liverpool. Það kom ekki að sök þótt spyrna John Arne Riise hefði verið varin. Liverpool vann Evrópubikarinn í fimmta sinn! Steven Gerrard tók við Evrópubikarum og sá verður í Liverpool um aldur og ævi!

+ 2007. Liverpool:AC Milan. 1:2. Liðin leiddu saman hesta sína í úrslitaleik í annað sinn á tveimur árum! Liverpool liðið var sterkara en tveimur árum áður og lék í raun betur í Aþenu en Istanbúl. Filippo Inzaghi kom Milan yfir mínútu fyrir leikhlé og bætti svo við marki átta mínútum fyrir leikslok. Dirk Kuyt minnkaði muninn mínútu fyrir leikslok með skalla eftir hornspyrnu en allt kom fyrir ekki. AC Milan náði að hefna fyrir tapið tveimur árum áður.  

+ 2018. Liverpool:Real Madrid. 1:3. Liverpool var sterkari aðilinn framan af í Kiev en leikurinn breyttist þegar Sergio Ramos braut illa á Mohamed Salah sem varð að fara meiddur af velli. Eftir það fóru Evrópumeistararnir að færa sig upp á skaftið. Ekkert mark var skorað í hálfleik en snemma í síðari hálfleik komst Real yfir þegar Loris Karius henti boltanum í Karim Benzema sem gat ekki annað en skorað. Liverpool gafst ekki upp og Sadio Mané jafnaði fjórum mínútum seinna eftir hornspyrnu. Real komst yfir á 64. mínútu þegar varamaðurinn Gareth Bale skoraði með ótrúlegri hjólhestaspyrnu. Hann skoraði svo aftur þegar sjö mínútur voru eftir með langskoti sem Loris missti framhjá sér í markið. Allt gekk Liverpool í móti og því fór sem fór.  

+ 2019. Liverpool:Tottenham Hotspur. ???? Tvö lið frá Englandi mæta til Madrídar til hólmgöngu um Evrópubikarinn. Liverpool leikur til úrslita í níunda sinn og annað árið í röð en Tottenham er að spila í fyrsta sinn til úrslita í keppni þeirra bestu í Evrópu. Liverpool vann báða leiki liðanna í ensku deildinni á leiktíðinni. Leikirnir voru jafnir en Liverpool vann þá báða 2:1. Bæði komust í gegnum undanúrslitin á ævintýralegan hátt. Þó svo margir telji Liverpool sigurstranglegri þá getur allt gerst. 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan