| Sf. Gutt

Vonin lifir!

Von Liverpool um að verða Englandsmeistari í 19. sinn er lifir enn eftir magnþrunginn 2:3 útisigur á Newcastle United. Sigurmark Divock Origi mun verða lengi í minnum haft og ef draumurinn rætist fer það í annála!

Eftir vonbrigðin í Barcelona beið erfiður útileikur gegn lærisveinum Rafael Benítez. Roberto Firmino gat ekki verið með vegna meiðsla og það sama gilti um Naby Keita. Jürgen Klopp stillti Daniel Sturridge upp eins og á móti Huddersfield. Dejan Lovren var líka í liðinu eins og í þeim leik.

Það var öllum ljóst að Liverpool varð að vinna þennan leik til að halda Manchester City við efnið en meistararnir mæta Leicester City á mánudagskvöldið. Byrjunin var góð og Liverpool komst yfir á 13. mínútu. Trent Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri. Virgil van Dijk reif sig lausan úr gæslu og skallaði auðveldlega óvaldaður í markið. Slök vörn heimamanna og hollenski risinn lét ekki happ úr hendi sleppa. 

Leikurinn var mjög opinn og bæði lið sóttu við hvert tækifæri. Sjö mínútum eftir að Liverpool komst yfir var staðan orðin jöfn. Eftir hamagang í vítateignum átti José Salomón Rondón skot sem Trent varði á marklínu en það var skammgóður vermir því Christian Atsu náði frákastinu og skoraði af stuttu færi. Trent var heppinn að Christian skoraði því hann varði skotið með olnboganum og hefði dómarinn séð það hefði hann dæmt víti og rekið Trent út af. En leikurinn hélt áfram og það endaði með marki. Hugsanlega sá dómarinn ekki hvernig Trent bjaragði skotinu. 

Fjörið hélt áfram og fast skot Ayoze Perez fór í þverslá og yfir. En átta mínútum eftir að Newcastle jafnaði komst Liverpool aftur yfir. Daniel Sturridge elti boltann út að hornfána hægra megin og senda eldsnögga hælsendingu framhjá tveimur mótherjum. Trent var á næstu grösum og sendi viðstöðulaust fyrir markið á Mohamed Salah sem stýrði boltanum laglega á lofti með hægri fæti í markið. Fallegt mark og Liverpool aftur komið yfir. Stuttu síðar komst Sadio Mané í færi einn á móti markverði Newcastle sem varði vel. Liverpool yfir í hálfleik. 

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og snemma lagði Georginio Wijnaldum boltann á Daniel sem skaut hátt yfir. Gott færi og Daniel hefði átt að skora. Það kom í bakið á 54. mínútu. Liverpool náði ekki að koma hornspyrnu frá hægri almennilega í burtu og Jose Salomón jafnaði með góðu skoti. 

Xherdan Shaqiri var sendur inn á og litlu síðar Divock Origi. Sú skipting kom ekki til af góðu því Mohamed var borinn af velli eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg eftir að markmaður Newcastle rak mjöðmina í hann í úthlaupi. Atvikið leit ekki vel út og mjög slæmt að missa Mohamed út af. 

Loka mínúturnar voru æsispennandi. Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Liverpool aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn eftir brot á Fabinho Tavarez. Reyndar var ekki um neitt brot að ræða og ekki rétt dæmt. Xherdan tók aukaspyrnuna og hitti á höfuðið á Divock Orgi sem skallaði boltann aftur fyrir sig í markið. Reyndar hafði boltinn viðkomu í höfðu eins heimamanna en Belginn átti markið og allt gekk af göflunum af fögnuði Rauðaliða innan vallar sem utan. Ótrúlega mikilvægt mark! Svo virtist sem Virgil segði Xherdan að taka aukaspyrnuna í stað Trent sem var líka við boltann.

Átta mínútm var bætt við vegna meiðsla og þær voru lengi að líða. Leikmenn Liverpool vörðu sinn hlut með kjafti og klóm og fögnuðurinn var mikill þegar sigurinn var staðfestur með lokaflauti dómarans. Sigurmark Divock var óborganlegt og eftir draumurinn um Englandsmeistaratitilinn rætist fer það í annála Liverpool Football Club! Vonin lifir!

Newcastle United: Dubravka, Manquillo, Schar (Muto 90. mín.), Lascelles, Dummett, Ritchie, Hayden, Ki, Atsu, Perez og Rondón. Ónotaðir varamenn: Darlow, Barreca, Fernandez, Kenedy, Shelvey og Diame.

Mörk Newcastle United: Christian Atsu (20. mín.) og José Salomón Rondón (54. mín.).

Gult spjald: Fabian Schär.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Lovren (Milner 83. mín.), Van Dijk, Robertson, Fabinho, Wijnaldum (Shaqiri 66. mín.), Henderson, Mane, Salah (Origi 73. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Gomez, Oxlade-Chamberlain og Matip.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (13. mín.), Mohamed Salah (28. mín.) og Divock Origi (86. mín.).

Gult spjald: James Milner. 

Áhorfendur á St James Park:
52.206.

Maður leiksins: Divock Origi. Belginn skoraði sigurmarkið og það gæti orðið eitt það mikilvægasta hjá Liverpool á seinni árum!  

Jürgen Klopp:
 Það er um margt að tala. Við gætum talað um knattspyrnu í kvöld, við gætum líka bara talað um að sýna virkilegt hugrekki, við gætum líka bara talað um að sýna eldmóð og þrá. Þetta var einfaldlega frábært.

 

Fróðleikur

- Virgil van Dijk skoraði í sjötta sinn á keppnistímabilinu. 

- Mohamed Salah skoraði 26. mark sitt á sparktíðinni. 

- Þetta var 70. mark hans fyrir Liverpool.

- Markið var það 100. sem Mohamed skorar í deildarkeppni. Á Englandi hefur hann skorað 56, 35 á Ítalíu og níu í Sviss. Öll eru skoruð í efstu deild. 

- Divock Origi skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. 

- Divock var varamaður. Mark hans var 12. deildarmarkið sem varamaður skorar fyrir Liverpool á leiktíðinni. Varamenn Liverpool hafa skorað flest mörk varamanna í deildinni. 

- Dejan Lovren spilaði sinn 170. leik fyrir Liverpool. Hann hefur skorað sjö mörk. 

- Sadio Mané lék sinn 120. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 57 mörk.

Hér er viðtal við  Jürgen Klopp sem tekið var eftir leik.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan