| Grétar Magnússon

Góður útisigur á Cardiff

Liverpool vann flottan sigur á Cardiff City í dag. Lokatölur voru 0-2 þar sem miðjumenn sáu um markaskorun.

Eins og við var að búast voru gerðar breytingar á byrjunarliðinu en inn komu þeir Jordan Henderson, Naby Keita og Roberto Firmino í stað Fabinho, James Milner og Divock Origi sem settust á bekkinn. Vörninni var stillt upp eins og venjulega og þeir Sadio Mané og Mohamed Salah voru á sínum stað einnig.

Liverpool voru auðvitað mun meira með boltann frá fyrsta flauti dómarans en náðu þó ekki að ógna marki heimamanna að ráði til að byrja með. Fyrsta tilraunin sem vert er að nefna er skot frá Mané fyrir utan teig sem fór langt yfir markið. Cardiff menn reyndu hvað þeir gátu til að sækja þegar þeir unnu boltann og þeir fengu ágætt færi til að skora þegar sending kom yfir á fjærstöngina þar sem Junior Hoilett tók við boltanum en hann reyndi að leggja hann fyrir sig og Robertson komst fyrir skotið. Færið kom eftir slæma sendingu frá Alexander-Arnold hægra megin en hann átti því miður erfitt uppdráttar í varnarleiknum í fyrri hálfleik.

Eftir þetta voru okkar menn sprækari og besta færi fyrri hálfleiks kom skömmu síðar þegar Salah, Mané og Firmino léku vel saman þar sem Firmino komst einn í gegn en skot hans var slakt og fór vel yfir markið. Mané var næstur á blað, sending kom frá Alexander-Arnold frá hægri og Senegalinn mætti fyrstur á boltann á teignum en hitti því miður ekki markið. Salah komst svo í ágætt skotfæri í teignum en Etheridge í markinu varði. Síðasta færi hálfleiksins var heimamanna. Hornspyrna þeirra var hreinsuð frá marki en ekki nógu vel og boltinn barst aftur inná teiginn. Þar náði Niasse skoti að marki sem Alisson varði vel og sló boltann yfir. Staðan 0-0 í hálfleik og heimamenn auðvitað mun ánægðari með þá stöðu.

Þeir ógnuðu fyrstir í seinni hálfleik þegar skalli frá Morrison endaði ofaná markinu en eftir það voru Liverpool menn mun meira ógnandi. Ísinn var brotinn á 57. mínútu þegar glæsileg hornspyrna frá Alexander-Arnold fór beint til Wijnaldum í teignum og hann þrumaði boltanum í netið við mikinn fögnuð leikmanna og stuðningsmanna liðsins fyrir aftan markið. Jordan Henderson hefði svo átt að bæta við marki skömmu síðar eftir undirbúning Mané en skot fyrirliðans hitti ekki markið, sannarlega fór gott færi forgörðum þar. Talandi um að gott færi hafi farið forgörðum hjá Liverpool þá var hreint ótrúlegt að horfa á færið sem Morrison misnotaði rétt á eftir. Hornspyrna Cardiff endaði á fjærstönginni þar sem Morrison átti afskaplega auðvelt verk fyrir höndum að því er virtist. Alisson náði ekki til boltans og Morrison kastaði sér fram til að skalla boltann í markið en einhvernveginn tókst honum að skalla framhjá markinu. Eftir leik á svo dómari leiksins víst að hafa sagt leikmönnum að hann hefði hvort sem er flautað aukaspyrnu fyrir brot á Alisson í aðdraganda þannig að ef Morrison hefði skorað hefði það mark ekki staðið.


En þetta dauðafæri var nóg til að vekja leikmenn Liverpool aftur og þeir skerptu á leik sínum. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka pressaði Firmino vel á miðjum vallarhelmingi Cardiff og Salah náði boltanum uppvið vítateiginn. Hann lék í átt að endalínu og reyndi hvað hann gat til að snúa af sér títtnefndan Morrison sem hélt utanum Salah báðum höndum og hindraði augljóslega. Dómari leiksins var í góðri stöðu og dæmdi vítaspyrnu. James Milner, sem hafði komið inná fyrir Fabinho á 75. mínútu (eftir að Fabinho sjálfur hafði komið inná fyrir Keita fimm mínútum áður en fengið höfuðhögg) fór á punktinn og skoraði auðvitað af miklu öryggi. Lokatölur 0-2 og mikilvægum stigum siglt í höfn.

Cardiff: Etheridge, Peltier, Morrison, Ecuele Manga, Bennett, Gunnarsson, Hoilett (Murphy, 83. mín.), Camarasa, Ralls (Bacuna, 79. mín.), Mendez-Laing, Niasse (Zohore, 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Smithies, De Cordova-Reid, Cunningham, K Harris.

Gult spjald: Aron Einar Gunnarsson.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez, 86. mín.), Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Keita (Fabinho, 71. mín. (Milner, 75. mín.)), Salah, Firmino, Mané. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Shaqiri, Sturridge, Origi.

Mörk Liverpool: Gini Wijnaldum (57. mín.) og James Milner (81. mín. vítaspyrna).

Gult spjald: James Milner.

Maður leiksins: Flestir eru sammála um að Joel Matip eigi útnefninguna skilið að þessu sinni. Hann hefur kannski fallið í skuggann af van Dijk oft á tíðum en hann hefur staðið sig frábærlega við hlið Hollendingsins á tímabilinu. Mörgum leist ekki á blikuna þegar Lovren og Gomez meiddust fyrr á tímabilinu og Matip eini miðvörðurinn sem var heill heilsu (fyrir utan ungliða). En Matip hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu og á skilið að vera útnefndur maður leiksins að þessu sinni.

Jürgen Klopp: ,,Þetta var klárlega leikur sem hefði getað orðið okkur að falli og við vissum það. Strákarnir voru stórkostlegir. Við vissum að þetta yrði afskaplega erfitt verkefni. Völllurinn var þurr þannig að erfitt var að senda boltann almennilega á milli manna. En strákarnir létu það ekki pirra sig, við áttum góð færi í fyrri hálfleik og vissum að ef við myndum halda áfram að fleiri færi myndu koma. Hvernig við skoruðum þessi mörk var hreint út sagt frábært."

Fróðleikur:

- Liverpool hafa nú náð í 88 stig í deildinni sem er félagsmet í úrvalsdeildinni. Aðeins hafa náðst fleiri stig tímabilin 1978-79 (98 stig) og 1987-88 (90 stig).

- Liðið hefur nú unnið síðustu níu leiki í öllum keppnum en það hefur ekki gerst síðan árið 2014 undir stjórn Brendan Rodgers.

- Gini Wijnaldum skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu.

- Trent Alexander-Arnold lagði upp sitt 10. mark á leiktíðinni.

- James Milner skoraði sitt 7. mark á leiktíðinni.

- Tíu af síðustu 12 mörkum Milner í deildinni fyrir Liverpool hafa komið af vítapunktinum og níu af þessum tíu mörkum hafa verið skoruð á útivelli.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan