| Heimir Eyvindarson

Lengi lifi VAR

Liverpool gerði góða ferð til Porto í kvöld og sigraði heimamenn 4-1. Það er því ljóst að Liverpool mætir Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í ár. 

Eins og við var að búast stillti Klopp upp sterku liði og frekar varnarsinnaðri miðju, með Fabinho, Wijnaldum og Milner. Eini hreinræktaði varamaðurinn í byrjunarliðinu í dag var Divock Origi, en það val kom reyndar ekki ýkja mikið á óvart svona miðað við það að planið var að liggja aftarlega og beita skyndisóknum. Firmino fékk að hvíla fyrir Belgann.

 

Porto byrjaði af miklum krafti og var sterkara liðið fyrstu 25 mínúturnar eða svo. Það var þessvegna þvert gegn gangi leiksins þegar Mané skoraði á 26. mínútu eftir mjög snarpa sókn og glæsilega sendingu frá Salah. Mané var reyndar fyrst dæmdur rangstæður en eftir tveggja mínútna VAR hlé var markið réttilega dæmt gott og gilt. Það kom mörgum á óvart, þar á meðal markaskoraranum sjálfum, en rétt skal vera rétt og markið kannski enn eitt dæmið um hvernig hlutirnir eru loksins að falla með okkur þessa dagana. 

Staðan á Estadio do Dragao 0-1 og róðurinn orðinn þungur fyrir heimamenn. Eðlilega fór ansi mikill vindur úr Porto við markið, enda þýddi VAR markið að nú þurfti portúgalska liðið að skora fjögur mörk til að komast áfram. 

Það gerðist lítið það sem eftir lifði hálfleiksins. Pepe náði sér í bjánalegt gult spjald fyrir fólskulegt brot, ekkert nýtt í þeim efnum.

Firmino kom inná fyrir Origi í hálfleik, ég veit ekki hvort Belginn meiddist eitthvað eða hvort Klopp leist bara ekkert á að hafa hann áfram inná. Það hafði allavega ekki sést mikið til hans. Alveg ljóst að Klopp var ekki að fara að gefa mönnum neinn afslátt í þessum leik, einhverjir hefðu freistast til að hvíla Firmino áfram og henda Sturridge eða Shaqiri inná, en krafan var greinilega full einbeiting áfram og ekkert múður. 

Porto var áfram meira með boltann í upphafi síðari hálfleiks. Liverpool spilaði þó af talsvert meira öryggi en í upphafi leiksins og var að mestu með leikinn í hendi sér fannst manni. 

Á 65. mínútu gerði Salah síðan endanlega út um leikinn með klassa afgreiðslu einn gegn Casillas eftir snilldar stungusendingu frá Alexander-Arnold. Firmino byrjaði sóknina við eigin vítateig þegar hann vann boltann frábærlega eins og svo oft áður og kom honum í leik. Alltaf eitursvalur á boltanum, frábær leikmaður. Staðan 0-2 og Klopp fór strax í að hvíla leikmenn. Alexander Arnold fór beint útaf og inná kom Joe Gomez, verulega gleðilegt að sjá hann á vellinum aftur. 

Tveimur mínútum eftir að Gomez kom inná náði Porto reyndar að minnka muninn, þegar Militao, þeirra besti maður í kvöld skallaði boltann í netið af markteig eftir fast leikatriði. Aðeins leiðinlegt að halda ekki hreinu, en kannski ágæt áminning til leikmanna að það má aldrei slaka á. 

Á 71. mínútu fékk hinn bakvörðurinn kærkomna hvíld þegar Henderson kom inná fyrir Robertson og Milner fór í vinstri bak.

Á 73. mínútu komst Mané síðan einn í gegn og framhjá Casillas en var kominn í ójafnvægi og skaut boltanum yfir. Algjört dauðafæri. Kannski hefði hann frekar átt að leyfa Salah að renna honum í netið, en framherji er jú einu sinni framherji. Sem betur fer breytti þetta atvik engu þegar upp var staðið. 

Á 77. mínútu átti Henderson snyrtilega sendingu á kollinn á Firmino sem skallaði boltann örugglega framhjá Casillas. Staðan 1-3 og undanúrslitasætið 100% klárt. 

Á 84. mínútu kom svo síðasta mark leiksins. Þar var kóngurinn Van Dijk að verki með flottan skalla af markteig eftir hornspyrnu frá Milner og framlengingu frá Mané af fjær. Virkilega vel gert og Porto liðið algerlega varnarlaust. Ef Van Dijk hefði ekki hitt boltann voru Matip og Firmino klárir til að stanga hann inn. Yfirburðir. 
Lokatölur á Estadio do Dragao 1-4 fyrir Liverpool. Frábær úrslit og mjög góð frammistaða. Það eru að verða hrein og klár forréttindi að fylgjast með liðinu okkar. Karakterinn og trúin er orðin svo mikil að menn missa einhvernveginn aldrei trúna á nokkru einasta verkefni. Það sást berlega í kvöld, því þrátt fyrir ansi óörugga byrjun sigldi liðið gífurlega mikilvægum sigri í höfn án teljandi erfiðleika. Solid frammistaða. Næst er það Cardiff í deildinni á sunnudaginn og vonandi heldur einbeitingin áfram - og veislan þar með. 

Liverpool: Alisson, TAA (Gomez á 66. mín.), Matip, Van Dijk, Robertson (Henderson á 71. mín.), Fabinho, Wijnaldum, Milner, Origi (Firmino á 46. mín.), Mané, Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Keita, Shaqiri og Sturridge. 

Mörk Liverpool: Mané á 26. mín., Salah á 65. mín., Firmino á 78. mín. og Van Dijk á 84. mín. 

Maður leiksins: Það eru nokkrir sem koma til greina. Alisson var góður, Fabinho var sterkur og Mané gríðarlega öflugur bæði fram og til baka. Firmino og Henderson komu svo báðir sterkir inn í síðari hálfleik. Ég vel Van Dijk að þessu sinni. Hann hélt vörninni vel saman eins og venjulega og kórónaði góðan leik með lokamarki leiksins. 

Jürgen Klopp: ,,Leikurinn byrjaði erfiðlega. Porto voru mjög grimmir í byrjun en við stóðumst álagið. Við vorum dálítið óskipulagðir í byrjun en það lagaðist smám saman. Við erum orðnir reynslunni ríkari í Evrópukeppni og við komumst í gegnum erfiðan útileik í kvöld og alla leið í undanúrslitin. Það er mikilvægast af öllu."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan