| Sf. Gutt

Tommy Smith látinn!Tommy Smith fyrrum leikmaður Liverpool er látinn. Tilkynnt var um andlát hans í dag. Tommy var einn dáðasti leikmaður í sögu Liverpool. Tommy fæddist í Liverpool þann 5. apríl 1945. Reyndar fæddist hann aðeins nokkur hundruð metra frá Anfield Road. Hann missti föður sinn á unglingsaldri. Móðir hans fór með hann dag einn til Bill Shankly framkvæmdastjóra Liverpool og bað hann um að sjá um drenginn. Bill tók erindinu vel og Tommy var vallarstarfsmaður til að byrja með og hann fékk því menningu og gildi félagsins beint í æð. Hann vissi að hann yrði að leggja sig allan fram til að ná að upplifa drauminn um að spila með uppáhaldsliðinu sínu. Tommy hóf að æfa með unglingaliðum Liverpool og með mikilli vinnu og þolinmæði komast hann alla leið í aðalliðið. 

Tommy lék sinn fyrsta leik með Liverpool vorið 1963. Á leiktíðinni 1964/65 vann hann sér fast sæti í aðalliðinu. Fyrst á miðjunni en lengst af var hann varnarmaður. Bæði miðvörður og bakvörður. Hann var grjótharður en var samt snjall með boltann og hafði góðan leikskilning.


Tommy var mikill leiðtogi og frá 1970 til 1973 var hann fyrirliði Liverpool. Það var hægt að treysta því að hann lagði allt í sölurnar fyrir Liverpool í hverjum einasta leik og hver sem mótherjinn var. Hann lauk ferli sínum hjá Liverpool á leiktíðinni 1977/78. Tommy lék 638 leiki og skoraði 48 mörk. Hann lék sem lánsmaður fyrir Tampa Bay Rowdies og Los Angeles Aztecs í Bandaríkjunum og lauk svo ferlinum með Swansea City. Hann lék einn landsleik fyrir England.


Tommy varð Englandsmeistari með Liverpool 1965/66, 1972/73, 1975/76 og 1976/77. Hann vann FA bikarinn 1965 og 1974. Tommy vann Evrópukeppni félagsliða 1973 og 1976 og svo Evrópubikarinn 1977 og Stórbikar Evrópu sama ár. Hann var Skjaldarhafi 1965, 1966, 1974 og 1977.


Tommy Smith hugsaði sér að leika sinn síðasta leik með Liverpool þegar liðið mætti Borussia Mönchengladbach í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í Róm 1977. Hann skoraði annað mark Liverpool í leiknum sem vannst 3:1. Hann hætti þá við að hætta og lék fleiri leik á leiktíðinni 1977/78 en á þeirri á undan. Magnaður leikmaður og einn af goðsögnum félagsins. 

Eftir að hann hætti að spila var Tommy unglingaþjálfari hjá Liverpool um tíma. Hann ritaði fasta pistla í staðarblaðið Liverpool Echo í mörg ár. Um tíma þýddi undirritaður pistlana fyrir Liverpool.is. 

Tommy Smith: ,,Ég fæddist með knattspyrnu í blóðinu. Auðvitað rauðu en ekki bláu."

Bill Shankly: ,,Tommy fæddist ekki eins og aðrir. Hann var meitlaður í grjót."

Hér eru
myndir af ferli Tommy Smith af Liverpoolfc.com. 

Hér er
myndband til minningar um Tommy.

Hér er minningargrein um Tommy af vefsíðu BBC. 

Hér má
lesa um feril Tommy á LFCHISTORY.NET.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan