| Sf. Gutt

Goðsagnir Liverpool unnu í Dublin

Goðsagnir Liverpool unnu í kvöld 1:2 sigur á úrsvalsliði Írlands í Dublin. Leikurinn var ágóðaleikur fyrir Seán Cox stuðningsmann Liverpool sem slasaðist lífshættulega eftir líkamsárás í fyrravor. Ofbeldismenn úr stuðningsmannahópi Roma réðust á hann. Seán var lengi í dái en er á hægum batavegi. Hann gat verið viðstaddur leikinn og var það stór áfangi fyrir hann. Alls mættu 26.873 áhorfendur á Aviva leikvanginn í Dublin.


Írska úrvalsliðið komst yfir þegar Keith Andrews skoraði með skalla framhjá Sander Westerveld. Liverpool jafnaði fyrir hálfleik úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að brotið hafði verið á Jermaine Pennant. John Aldridge tók vítið og skoraði af miklu öryggi eins og hann gerði jafnan á ferli sínum. John lék með írska liðinu í síðari hálfleik en hann var landsliðsmaður Íra. 


Liverpool tryggði sér sigur í síðari hálfleik. Robbie Keane, sem lék fyrir bæði lið, lagði þá upp færi fyrir Vladimír Šmicer og Tékkinn skoraði af öryggi úr þrekar þröngu færi. Vel gert hjá Vladimír sem hefur haft gott af ferska loftinu á Íslandi. Hann og Patrik Berger voru auðvitað heiðursgestir á árshátíð Liverpool klúbbsins á Íslandi um síðustu helgi. Patrik spilaði leikinn nýkominn frá Íslandi. Niall Quinn var nærri að jafna leikinn en skalli hans fór í þverslá. 

Kenny Dalglish stjórnaði liði Liverpool og var Ian Rush honum til halds og trausts. Ian er að ná sér eftir hnjáaðgerð ef rétt er vitað. Annars hefði hann spilað. Góð kvöldstund í Dublin og mikilvægt málefni fékk góðan stuðning. 

Hér má sjá mörkin úr leiknum.

Hér má sjá
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan