| Sf. Gutt

Liverpool í úrslit!


Liverpool komst í dag í úrslit í Unglingabikarkeppninni. Liverpool mætti Watford í undanúrslitum og fór leikurinn fram á Anfield Road. Ekki er leikið á hlutlausum völlum í undanúrslitum hvernig sem á því stendur. 


Liverpool komst yfir á 10. mínútu með marki fyrirliðans Paul Glatzel. Paul skoraði aftur á 25. mínútu. Bæði mörk hans komu eftir undirbúning sóknarfélaga hans Bobby Duncan. Liverpool hafði lengst af öll tök á leiknum en tíu mínútum fyrir leikslok minnkaði Watford muninn þegar Ryan Cassidy skoraði. Liverpool hafði þó sigurinn sem var sanngjarn. Paul sem er hér á meðfylgjandi mynd er búinn að skora 28 mörk á leiktíðinni. Hann skrifaði á dögunum undir atvinnumannasamning við Liverpool. 

Liverpool: Ashby-Hammond, N. Williams, Larouci, R. Williams, Boyes, Clarkson, Sharif, Cain, Glatzel, Duncan og Dixon-Bonner (Longstaff, 70. mín.). Ónotaðir varamenn: O'Rourke, Kelly, Ritaccio og Walls.

Liverpool mætir annað hvort Manchester City eða West Bromwich Albion í úrslitum. Liðin mætast 1. apríl og þá ræðst hvermótherji Liverpool verður. Liverpool hefur þrívegis unnið keppnina, 1996, 2006 og 2007, og það verður gaman að sjá hvort fjórði titillinn næst í hús í vor. 

Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Unglingaliðið, undir 18 ára liðið, hefur haft í mörg horn að líta að undanförnu. Síðasta þriðjudag féll liðið úr Evrópukeppni unglingaliða eftir að hafa tapað 4:3 í vítaspyrnukeppni á móti Dinamo Zagreb. Leiknum lauk 1:1.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan