| Grétar Magnússon

Liverpool mætir Porto !

Annað árið í röð mætir Liverpool Porto frá Portúgal í Meistaradeild Evrópu en dregið var í 8-liða úrslit keppninnar í dag.

Eins og flestir vita mættust liðin í 16-liða úrslitunum í fyrra þar sem okkar menn sigruðu fyrri leikinn örugglega á útivelli 0-5 og heimaleikurinn endaði svo markalaus. Nú snýst dæmið við og fyrri leikurinn verður leikinn á Anfield 9. eða 10. apríl og seinni leikurinn viku síðar á Estadio do Dragao leikvanginum í Porto.

Komist Liverpool áfram í undanúrslit keppninnar er ljóst að liðið mætir þar sigurvegaranum úr viðureign Barcelona og Manchester United.


Aðrir leikir í 8-liða úrslitunum eru enskur slagur á milli Tottenham og Mancester City og þá mætast Ajax og Juventus, sigurvegarar þessara leikja leika svo í hinum undanúrslitaleiknum.

Við getum farið að láta okkur hlakka til spennandi leikja við Porto. Margir telja að létt verk sé fyrir höndum en Jürgen Klopp veit sem er að enginn leikur er léttur á þessu stigi keppninnar.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan