| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool mætir á Old Trafford á morgun og tekst á við Manchester United lið Ole Gunnar Solskjær, sem er búið að vera á leiðinlega mikilli siglingu allt frá því að Norðmaðurinn tók við. 

Það er svosem ekkert mikið um þennan leik að segja fyrirfram, það er ekki nokkur leið að geta sér til um það hvernig hann þróast eða endar. Þannig hefur það nánast alltaf verið með viðureignir þessara liða og það er ekkert að fara að breytast núna. Það var helst að maður gæti andað rólega þegar Moyes var við stjórnvölinn hjá United. Það var góður tími. 

United hefur verið á mikilli siglingu frá því að Mourinho var látinn fara og Solskjær tók við. Raunar er það svo að liðið hefur ekki tapað leik í deildinni undir stjórn Solskjær og ef allar keppnir eru teknar með í reikninginn er niðurstaðan 12 sigrar í 14 leikjum. Það er dágott. Það er þó ágætt að rifja það upp að síðasta tap United í deildinni kom einmitt á Anfield í desember, í síðasta leik liðsins undir stjórn Mourinho. 

Old Trafford er enginn óskavöllur fyrir Liverpool, liðið hefur tapað 7 af síðustu 9 leikjum sínum þar. Síðasti sigurinn kom 2014, þegar Moyes réði ríkjum og í janúar 2017 skildu liðin jöfn 1-1. 
Það er hrúga af frábærum leikmönnum í báðum leiðum, það er engin spurning og þessir tveir geta verið algjörir lykilmenn. Því miður hefur Pogba blómstrað frá því að Mourinho fór og er á góðum degi einn allra besti leikmaður deildarinnar. Salah er svo bara Salah og á vonandi eftir að skora eitt eða fleiri á morgun, en þessir tveir eru líklega þeir leikmenn sem liðin leggja mesta áherslu á að stoppa.

Það er smá meiðslabasl á Liverpool eins og undanfarið, en það ætti að vera hægt að stilla upp vörn sem eingöngu er skipuð varnarmönnum, sem er tilbreyting. TAA-Matip-VanDijk og Robertson. 

Á miðjunni stendur valið milli Fabinho, Wijnaldum, Keita, Henderson, Shaqiri og Milner og framlínan velur sig væntanlega sjálf. 

Það er rétt að minnast á það að United hefur aðeins haldið einu sinni hreinu á Old Trafford í vetur, Liverpool er hinsvegar þannig stemmt í vetur að það skorar alltaf á útivöllum. Þetta finnst mér jákvæð og uppbyggileg tölfræði. 

Eins og ég kom inn á hér að ofan þá er ómögulegt að segja nokkurn skapaðan hlut um leiki þessara liða. Staða liðanna í deildinni virðist aldrei breyta neinu, þetta eru og verða stórleikir hvers tímabils. Vonandi verður spennustigið á okkar mönnum ekki of hátt, þá ættum við að vera betra liðið. 

Ég ætla að leyfa mér að vera ponsu bjartsýnn og spá 1-2 sigri Liverpool. Firmino og Fabinho skora. 

YNWA! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan