| Grétar Magnússon

Markalaust

Það má kannski segja að óvænt úrslit hafi litið dagsins ljós í fyrri leik Liverpool og Bayern Munchen í 16-liða úrslitum Meistaradeildar. Flestir bjuggust við markaleik en annað kom á daginn.

Liðsuppstilling Jürgen Klopp kom ekki á óvart miðað við þann mannskap sem hann hafði yfir að ráða. Fabinho var í miðverði ásamt Joel Matip og í bakvarðastöðunum voru Trent Alexander-Arnold og Andy Robertson. Á miðjunni voru þeir Naby Keita, Jordan Henderson og Gini Wijnaldum. Roberto Firmino hristi svo af sér slenið og leiddi sóknarlínuna ásamt Mané og Salah. Nico Kovac stjóri Bayern þurfti að gera eina breytingu á leikdegi vegna meiðsla Leon Goretzka og í hans stað á miðjunni kom Javi Martinez en að öðru leyti var lið Bayern stillt upp eins og spáð hafði verið fyrir.

Leikurinn hófst í rífandi stemmningu á Anfield en stuðningsmenn beggja liða voru létu vel í sér heyra. Leikmenn beggja liða voru þó frekar rólegir til að byrja með, Liverpool menn pressuðu hátt uppi og leikmenn Bayern áttu í smá erfiðleikum með að spila sig út úr því. Fyrsta tækifærið féll heimamönnum í skaut þegar Henderson sendi háa sendingu innfyrir á Salah sem náði skoti að marki á milli tveggja varnarmanna. Skotið var hinsvegar frekar máttlítið og Neuer átti ekki í erfiðleikum með að verja. Skömmu síðar fékk Serge Gnabry sendingu upp hægra megin og hafði mikið pláss, hann sendi fyrir markið þar sem Joel Matip var fyrstur í boltann en hann skaut honum hinsvegar beint í Alisson og boltanum var svo komið í burtu. Það var smá stress í vörninni hjá Liverpool á þessum tímapunkti og Alisson og Matip voru aftur á ferðinni þegar þeir voru pressaðir í eigin vítateig. Alisson átti frekar slaka sendingu á Matip sem átti enn slakari sendingu og Coman náði boltanum utarlega í teignum vinstra megin. Hann náði skoti á markið en sem betur fer fór það í hliðarnetið. Salah fékk svo ágætt skallafæri á fjærstöng eftir fyrirgjöf frá Alexander-Arnold en hann hitti ekki markið. Besta færi leiksins féll svo fyrir fætur Sadio Mané þegar skot frá Naby Keita fór af varnarmanni og beint til Mané sem var óvaldaður á markteig. Hann sneri baki í markið og reyndi skot um leið og hann sneri sér við en hitti boltann afar illa og skotið fór framhjá. Þarna hefði Mané svo sannarlega mátt gera betur. Fleiri hálffæri litu dagsins ljós en niðurstaðan í hálfleik var 0-0.


Síðari hálfleikur var frekar tíðindalítill og bæði lið áttu ekki nein teljandi færi. Það segir sína sögu að Bayern áttu ekki eitt skot sem hitti á markið í leiknum og verður það að teljast vera ansi vel gert hjá varnarmönnum Liverpool að halda Robert Lewandowski niðri heilt yfir. En því miður var saga hálfleiksins svolítið þannig að þegar komið var fram á síðasta þriðjung vallarins áttu leikmenn Liverpool slakar sendingar og varnar- og miðjumenn gestanna komust fyrir þær trekk í trekk eða þá að sendingarnar voru það slakar að þær hittu bara alls ekki á samherja. Klopp setti þá Milner og Origi inn fyrir Keita og Firmino en það breytti litlu. Eina færið sem vert er að tala um kom þegar Robertson sendi fyrir frá vinstri og Mané skutlaði sér fram og skallaði boltann en Neuer varði við nærstöngina. Niðurstaða leiksins var því markalaust jafntefli en eins og áður sagði var það eitthvað sem fæstir bjuggust við. Liverpool skorar nú yfirleitt á heimavelli og Þjóðverjarnir hafa væntanlega séð sér leik á borði þar sem Virgil van Dijk var ekki í vörn Liverpool.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Fabinho, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Keita (Milner, 76. mín.), Salah, Firmino (Origi, 76. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Lallana, Shaqiri, Sturridge.

Gult spjald: Jordan Henderson.

Bayern Munchen: Neuer, Kimmich, Süle, Hummels, Alaba, Martínez, Thiago, Gnabry (Rafinha, 90. mín.), Rodríguez (Renato Sanchez, 88. mín.), Coman (Ribéry 81. mín.), Lewandowski. Ónotaðir varamenn: Ulreich, Davies, Mai, Shabani.

Gult spjald: Joshua Kimmich.

Áhorfendur á Anfield: 52.250.

Maður leiksins: Það stóð svosem enginn uppúr í leiknum hjá Liverpool en Fabinho stóð sig mjög vel í miðri vörninni. Það var mikil pressa sett á hann að koma inn í vörnina í svona stórleik og hann lét þá pressu ekki á sig fá, var yfirvegaður og ávallt staðsettur rétt þegar á þurfti að halda.

Jürgen Klopp: ,,Við gerðum okkur erfitt fyrir með sendingar á síðasta þriðjungi vallarins. Sennilega runnu álitlegar sóknir út í sandinn 10-12 sinnum. Við getum spilað betur og við ættum að spila betur. Í fyrri hálfleik fengum við betri færi en ég man varla eftir neinu færi í þeim síðari. Þetta var ekki Meistaradeildarkvöld eins og við eigum að venjast. Úrslitalega séð var þetta allt í lagi, ekki nein drauma úrslit en góð engu að síður."

Fróðleikur:

- Síðustu þrír leikir Liverpool og Bayern í Evrópukeppni á Anfield hafa endað 0-0.

- Þetta var í 30. sinn sem Jürgen Klopp stýrir liði á móti Bayern og í fyrsta sinn sem leikur endar markalaus.

- Liverpool er ósigrað á heimavelli í Evrópukeppni í síðustu 20 leikjum (14 sigrar og 6 jafntefli) og í 11. sinn sem liðið heldur hreinu.

- James Milner hefur nú spilað 160 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum.

- Joshua Kimmich verður í banni í leiknum í Þýskalandi eftir þrjár vikur.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan