| Sf. Gutt

Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld!

Í kvöld verður lokað fyrir félagskipti knattspyrnumanna. Eins og vant er verður fylgst með gangi mála hér á Liverpool.is.


23:00. Lokað hefur verið fyrir félagaskipti. Forráðamenn Liverpool ákváðu að bæta ekki við leikmannahópinn. Nú er að vona að leikmannahópur Jürgen Klopp dugi til að vinna til verðlauna á komandi vori!


22:00. Pedro Chirivella hefur verið lánaður til spænska liðsins Extremadura sem leikur í annarri deild. Pedro hefur leikið fimm leiki með aðalliði Liverpool. 

20:00. Ungliðinn Matty Virtue hefur yfirgefið Liverpool. Matty hefur verið fyrirliði varaliðsins, eða undir 23. ára liðsins, upp á síðkastið og þótt meðal efnilegri leikmanna Liverpool. Hann hefur nú gert samning við Blackpool. Hann var á láni hjá Notts County á síðustu leiktíð. Ekki var gefið upp hvað Liverpool fékk í sinn hlut fyrir Matty. 19:00.
Einhver áhugi er á að fá Ben Woodburn í lán og Hull City mun hafa reynt að fá hann. Reiknað er með að hann fari ekki en hann var fyrri hluta leiktíðar í láni hjá Sheffield United. 


18:00. Ungliðinn Liam Miller hefur verið lánaður til Kilmarnock í Skotlandi. Framkvæmdastjóri liðsins er Steve Clarke sem var þjálfari hjá Liverpool fyrir nokkrum árum. Kilmarnock er meðal efstu liða og hefur komið á óvart á leiktíðinni. Liam er frá Kanada og hefur spilað með lansliðinu þar. Hann hefur skorað drjúgt með yngri liðum Liverpool. Liam gerði nýjan samning við Liverpool áður en hann fór. 
17:00. Aftur af öðrum fyrrum leikmanni Liverpool. Peter Crouch er ekki dauður úr öllum æðum. Hann hefur síðustu leiktíðir leikið með Stoke City en gekk í dag til liðs við Burnley. 


12:00. Nokkra athygli vakti þegar Ryan Babel fyrrum leikmaður Liverpool mætti aftur í ensku knattspyrnuna. Hann lék með Liverpool frá 2007 til 2011. Síðan hefur hann víða farið og spilað með 1899 Hoffenheim, Ajax, Kasimpasa, Al Ain, Deportivo La Coruña og nú síðast Besiktas. Hann er nú kominn til Fulham. Hann hefur komist í hollenska landsliðið á nýjan leik og leikið vel með því síðustu mánuði.   


9:00. Ekkert nýtt að frétta. Spurning hvort Lazar Markovic flytji sig um set. Það mun vera einhver áhugi á honum en alls óvíst hvort hann fer núna en samningur hans rennur út í sumar. 

7:15. Hugsanlegt er að ungliðar fari á lán í dag. Vitað er um áhuga félaga á einhverjum af efnilegustu leikmönnum Liverpool. 


7:00. Ekki er vitað til þess að Liverpool sé á eftir neinum leikmanni nú á síðasta degi félagaskipta. Jürgen Klopp hefur látið að því liggja að hann ætli sér að vinna með þá leikmenn sem hann hefur til leika þessarar leiktíðar.  

Staðan í gærkvöldi!Liverpool hefur ekki keypt neinn leikmann það sem af er þessu ári. Einn hefur verið seldur og þrír lánaðir. Dominic Solanke var seldur til Bournemouth og Nathaniel Clyne fór á lán til sama félags. Ovie Ejaria var lánaður til Reading en hann var í láni hjá Rangers fyrri hluta leiktíðar. Kamil Grabara, sem er ungur markmaður frá Póllandi, var lánaður til Arhus í Danmörku.  

Varla er von á miklum tíðindum hjá Liverpool í dag.  Jürgen Klopp hefur talað á þann veg að ekki sé útlit á viðskiptum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan