| Grétar Magnússon

Zeljko Buvac formlega hættur störfum

Aðstoðarþjálfari Liverpool og aðstoðarmaður Jürgen Klopp til margra ára, Zeljko Buvac, hefur formlega hætt störfum hjá félaginu.


Buvac hætti í raun störfum í apríl í fyrra, skömmu áður en seinni leikur í undanúrslitum Meistaradeildar gegn Roma fór fram. Var það sagt vera vegna persónulegra ástæðna.

Klopp vildi lítið ræða ástæður brotthvarfs Buvac en hann hafði dregið sig mikið til baka vikurnar á undan og áhugi hans á starfinu virtist hafa minnkað töluvert. Núna, níu mánuðum síðar hefur Buvac gert starfslokasamning við félagið og brottför hans því formlega staðfest.


Buvac og Klopp höfðu unnið saman í 17 ár og lýsti Klopp honum sem heilanum í samstarfi þeirra. Þegar Klopp tók við störfum hjá Liverpool fylgdu þeir Buvac og Peter Krawietz með og komu inní þjálfarateymið.

Nú hefur verið staðfest að Hollendingurinn Pepin Ljinders hefur tekið við sem aðstoðar knattspyrnustjóri og sinnir hann því starfi ásamt Krawietz. Ljinders hafði farið frá félaginu til að taka við knattspyrnustjóra starfi hjá NEC Nijmegen í Hollandi en þar var honum sagt upp störfum. Klopp var fljótur að bregðast við og tryggði sér þjónustu Ljinders aftur þar sem hann hefur mikið álit á honum sem þjálfara.

Ljinders kom fyrst til félagsins undir stjórn Brendan Rodgers og þá sem þjálfari hjá U-16 ára liðinu. Ári síðar var Rodgers búinn að gera hann að þjálfara hjá aðalliðinu og þegar Klopp tók við sá hann fljótlega að mikið var í Ljinders spunnið.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan