| Sf. Gutt

Sigur í markaregni á móti Crystal Palace!

Mörkunum rigndi á Anfield Road þegar Liverpool vann Crystal Palace 4:3 í æsispennandi leik. Sigurinn tryggði að Liverpool leiðir ennþá deildina. 

Það var kalt í Liverpool og áhorfendur kappklæddir í kuldanum. Fyrir leikinn var minning Bob Paisley heiðruð en á miðvikudaginn, 23. janúar, verður öld liðin frá því hann fæddist. Áhorfendur klöppuðu á meðan The Kop myndaði myndverk til heiðurs Bob. Um leið var Peter Thompson minnst en hann lést daginn fyrir gamársdag. Þessi magnaði útherji var lykilmaður í liði Liverpool á árunum milli 1960 og 1970. 

Joël Matip kom inn í stöðu miðvarðar en hann var orðinn leikfær eftir meiðslin sem hann varð fyrir á móti Napoli í Meistaradeildinni í síðasta mánuði. James Milner lék hægri bakvörð í forföllum Trent Alexander-Gordon. 

Strax frá upphafsflauti dómarans tók Liverpool öll völd á vellinum. Hver sóknin rak aðra en vörn Roy Hodgson hafði lagt vel á ráðin og leikmenn hans léku mjög góðan varnarleik. Liverpool náði þrátt fyrir yfirburðina ekki að skapa sér nein opin færi. Skalli Virgil van Dijk, eftir aukaspyrnu James Milner, eftir rúman hálftíma strauk þó þverslána. Nokkrum mínútum seinna á 34. mínútu komst Palace yfir þvert á gang leiksins. Laglegt samspil Palace fram völlinn frá eigin vallarhelmingi endaði með því að  Wilfried Zaha  fékk boltann vinstra megin, lék á James og sendi út í teiginn á Andros Townsend sem skoraði. Liverpool náði ekki að jafna fyrir leikhlé og gestirnir mjög ánægðir með sinn hlut. 

Í leikhléinu voru nokkrir fyrrum leikmenn sem höfðu spilað undir stjórn Bob Paisley og með Peter Thompson kallaðir út á völlinn. Þeir Kenny Dalglish, Graeme Souness og Ian Callaghan tóku til máls. 

Síðari hálfleikurinn gat ekki byrjað betur því eftir nokkrar sekúndur lá boltinn í markinu fyrir framan Kop stúkuna. Tveir varnarmenn Palace fóru báðir í boltann og mistókst að hreinsa almennilega. Boltinn barst til Virgil sem skaut. Boltinn fór í varnarmann og hrökk þaðan upp í loftið inn fyrir á Mohamed Salah sem stýrði honum laglega neðst í hornið með utanverðri vinstri ristinni af stuttu færi. Frábær afgreiðsla hjá Egyptanum. Sjö mínútum seinna var Liverpool komið yfir. Naby Keita sendi inn í vítateiginn vinstra megin á Roberto Firmino. Hann lék nær markinu og skaut að marki. Boltinn hafnaði neðst í hægra markinu óverjandi fyrir Julian Speroni sem kom í markið sem þriðji markmaður vegna meiðsla. Boltinn fór aðeins í varnarmann á leiðinni en það skipti stuðningsmenn Liverpool engu. 


Flestum fannst líklegt að gestirnir ættu ekki afturkvæmt því Liverpool var komið yfir og yfirburðirnir voru samir og fyrr. En Ernirnir náðu aftur flugi og jöfnuðu á 65. mínútu. James Tomkins skoraði þá óvaldaður með skalla eftir horn frá vinstri. Eins og fyrra markið kom þetta upp úr þurru. Tíu mínútum seinna komst Liverpool aftur yfir. Boltinn barst yfir til hægri og virtist vera að fara út af en James sýndi mikla hörku og náði að renna sér á eftir boltanum við endamörkin og koma honum fyrir markið. Julian virtist ruglast í rýminu í markinu og mistókst að slá boltann frá en hann stefndi þessi í stað í markið. Mohamed var ákveðinn í ná markinu í stað þess að það yrði sjálfsmark og náði að pota boltanum yfir línuna á síðustu stundu.

Þegar mínúta var eftir af leiknum var James vikið af velli eftir að hafa brotið í annað sinn á sjö mínútum á Wilfried. Annað gult spjald og svo rautt. James átti í vandræðum með Wilfried en lék annars mjög vel og lagði upp eitt mark.

Þó Liverpool væri manni færri kom fjórða markið þegar komið var fram í viðbótartíma. Alisson Becker kastaði boltanum langt fram á Andrew Robertson sem sendi á Sadio Mané og fékk boltann aftur frá honum. Boltinn var við að fara út af við vinstri hliðarlínuna en Andrew renndi sér á eftir boltanum og kom honum fram á Sadio. Hann lék inn í vítateiginn og skoraði neðst í fjærhornið. Frábært mark en leikmenn Palace mótmæltu því þeir töldu Andrew hafa handleikið boltann áður en hann bjargaði því að hann færi út af. Með réttu hefði átt að dæma hendi. Palace átti síðasta orðið þegar Max Mayer skoraði eftir að boltinn hafði hrökkið til hans í vítateignum. Sigri Liverpool var þó sem betur fer ekki ógnað meira!

Magnaður sigur í ótrúlega spennandi leik. Liverpool sýndi mikinn styrk eftir að hafa lent undir og gaf sigurinn ekki þrátt fyrir öfluga mótspyrnu Crystal Palace. Bob Paisley hefði verið ánægður með styrk, þrautsegju og falleg mörk Liverpool í kuldanum í dag!


Liverpool: Alisson, Milner, Matip, Van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Lallana 87. mín.), Keita (Shaqiri 71. mín.), Mane, Firmino og Salah (Camacho 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Sturridge og Origi.

Mörk Liverpool: 
Moahmed Salah (46. og 75. mín.), Roberto Firmino (53. mín.) og Sadio Mané (90. mín.).

Gult spjald: James Milner.

Rautt spjald: James Milner. 

Crystal Palace: Speroni, Wan-Bissaka, Tomkins, Sakho, Van Aanholt, Milivojevic, Kouyate (Schlupp 75. mín.), McArthur (Meyer 81. mín.), Townsend, Ayew (Wickham 81. mín.) og Zaha. Ónotaðir varamenn: Tupper, Dann, Benteke og Kelly.

Mörk Crystal Palace: Andros Townsend (34. mín.), James Tomkins (65. mín.) og Max Meyer (90. mín.).

Gult spjald: Jordan Ayew.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.171.

Maður leiksins:
Jordan Henderson. Fyrirliði Liverpool var frábær á miðjunni. Hann spilaði boltanum vel og barðist eins og ljón um allan völl. Það eru skiptar skoðanir um Jordan en mikilvægi hans er ótvírætt. Hann er fyrirliði, lykilmaður og stendur vel undir því áliti!

Jürgen Klopp: Það eru mismunandi aðferðir til að vinna knattspyrnuleik. Í dag urðum við að sýna alla þá þrautsegju sem við áttum til. Strákarnir gerðu það og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Leikurinn var ólíkur milli hálfleikja. Við höfðum það og ég er virkilega ánægður!

Fróðleikur

- Moahmed Salah hefur nú skorað 19 mörk á leiktíðinni. 

- Mörkin tvö komu honum upp í 50 deildarmörk í ensku knattspyrnunni. Hann hefur skorað 48 fyrir Liverpool og tvö fyrir Chelsea. 

- Roberto Firmino skoraði 11. mark sitt á sparktíðinni. 

- Sadio Mané skoraði tíunda mark sitt. 

- Hann skoraði í fjórða leiknum í röð á móti Palace. 

- Roy Hodgson tapaði í fyrsta sinn á Anfield Road eftir að hann stýrði Liverpool. 

- Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem Liverpool vinnur Crystal Palace fjórum sinnum í röð.

Hér er viðtal sem tekið var við Jürgen Klopp eftir leikinn.

Hér er  viðtal við Roy Hodgson sem tekið var eftir leik. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan