| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Brighton á útivelli. Leikurinn fer fram laugardaginn 12. janúar og hefst klukkan 15:00.

Síðustu tveir leikir hafa tapast og nú reynir á Jürgen Klopp og leikmenn liðsins. Það er stór prófraun fyrir höndum gegn Brighton liði sem hefur náð góðum úrslitum í síðustu þrem leikjum sínum í deildinni, jafntefli gegn Arsenal og sigur á Everton heima og jafntefli gegn West Ham á útivelli. Auk þess sigruðu þeir Bournemouth í síðasta leik sínum á útivelli í FA bikarnum. Eftir tapleik Liverpool gegn Manchester City í deildinni telja margir að nú hafi þeir ljósbláu jafnvel yfirhöndina í titilbaráttunni en það er þó erfitt að sjá það þegar okkar menn eru með fjögurra stiga forskot á toppnum. Það má hinsvegar lítið útaf bregða til að baráttan herðist enn frekar. City eiga leik á mánudagskvöldið heima gegn Úlfunum og það mun setja meiri pressu á þá ef Liverpool nær sigri í sínum leik.

Mikil meiðslavandræði eru hjá miðvörðum Liverpool eins og allir vita en aðeins Virgil van Dijk er heill heilsu nú um stundir. Klopp staðfesti á blaðamannafundi fyrr í dag að Dejan Lovren er frá og gæti í fyrsta lagi verið klár þegar Crystal Palace mæta á Anfield þann 19. janúar. Joel Matip æfði í gær í fyrsta sinn eftir sín meiðsli og það verður að teljast ólíklegt að hann verði 100% klár fyrir þennan leik. Jordan Henderson hefur einnig glímt við meiðsli undanfarið og snýr aftur á æfingasvæðið í dag. Klopp staðfesti svo að þeir Adam Lallana og Joe Gomez eru enn frá. Hjá heimamönnum eru tveir leikmenn frá vegna meiðsla, varnarmaðurinn Bruno og miðjumaðurinn Jose Izquierdo.

Liðin hafa aðeins einu sinni mæst áður í úrvalsdeildinni á heimavelli Brighton, AMEX stadium, nánar tiltekið 2. desember 2017 þegar okkar menn unnu frábæran 1-5 sigur. Liðin hafa svo mæst tvisvar sinnum á Anfield og Liverpool unnið báða þá leiki. Fyrri viðureign liðanna á tímabilinu endaði með 1-0 sigri þar sem Mohamed Salah skoraði markið. Í raun þarf að fara aftur til ársins 1961 til að finna síðasta sigur Brighton á heimavelli á Liverpool. Leikurinn fór fram í gömlu 2. deildinni og endaði 3-1 fyrir heimamenn.

Það má fastlega búast við því að Fabinho verði í miðverði ásamt Virgil van Dijk í leiknum, með þeim í bakvörðum verða þeir Trent Alexander-Arnold og Andy Robertson, Alisson auðvitað í markinu. Miðjan er alltaf ákveðið spurningamerki en þar sem Henderson er að stíga upp úr meiðslum og Fabinho í vörninni finnst mér líklegt að þeir James Milner, Naby Keita og Gini Wijnaldum spili leikinn, þó gæti alveg eins verið að Xerdan Shaqiri fái tækifæri framyfir Keita. Fremstu þrír verða svo Sadio Mané, Roberto Firmino og Mohamed Salah.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn komast á sigurbraut á ný en það verður ekki létt verk. Lokatölur verða 1-2 þar sem heimamenn ná að jafna 1-1 en sigurmarkið kemur seint í leiknum.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni með 13 mörk.

- Glenn Murray er markahæstur Brighton manna með 8 mörk.

- Liverpool eru á toppi deildarinnar með 54 stig eftir 21 leik.

- Brighton sitja í 13. sæti með 26 stig.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan