| Sf. Gutt

Flugeldasýning í síðasta leik ársins!



Liverpool bauð upp á flugeldasýningu á síðasta degi ársins 2018 og náði níu stiga forsytu á toppi deildarinnar. Arsenal var tekið í kennslustund á Anfield Road og Liverpool vann 5:1 stórsigur.

Jürgen Klopp gerði aðeins eina breytingu á liði Liverpool frá sigrinum á Newcastle United á öðrum degi jóla. Jordan Henderson vék fyrir Fabinho Tavarez. Það var rafmagnað andrúmsloft fyrir leikinn þegar stuðningsmenn Liverpool sungu You'll Never Walk Alone af miklum þunga og innlifun!

Mikill hraði var í leiknum frá byrjun. Leikmenn Liverpool virtust ekki vera nógu einbeittir á upphafskaflanum og Arsenal komst yfir eftir 11 mínútur. Ainsley Maitland-Niles fékk boltann frír í markteignum hægra megin eftir sendingu frá vinstri og skoraði auðveldlega. Arsenal komst í sóknina eftir mislukkaða sendingu út úr vörn Liverpool. Liverpool svaraði þessu af krafti þremur mínútum seinna. Mohamed Salah fékk boltann inn í vítateig Arsenal eftir sendingu Roberto Firmino. Varnarmaður komst fyrir skot hans en boltinn hrökk fyrir fætur Roberto, sem hafði fylgt fram, og hann skoraði blindandi í autt markið. Tveimur mínútum seinna lá boltinn aftur í marki Arsenal. Sadio Mané vann boltann og kom honum fram á Roberto á miðjum vallarhelmingi Arsenal. Brasilíumaðurinn tók á rás, lék auðveldlega á tvo varnarmenn og skoraði af öryggi. Þrír varnarmenn Arsenal lágu eftir þegar boltann hafnaði í markinu. Allt sprakk á Anfield! Algjörlega magnað mark!

Liverpool tók nú öll völd á vellinum og réði lögum og lofum. Á 32. mínútu kom þriðja markið. Arsenal náði ekki að hreinsa eftir horn. Andrew Robertson sendi yfir til vinstri á Mohamed sem lagði boltann snyrtileg á lofti þvert fyrir markið þar sem Sadio Mané var mættur til að smella boltanum í markið. Góð staða varð frábær í viðbótartíma. Varnarmaður braut klaufalega á Mohamed uppi við endamörk þar sem ekki var nein hætta á ferðum. Dómarinn dæmdi víti sem Mohamed tók. Þrumuskot hans þandi netmöskvana og Liverpool var komið í 4:1 þegar flautað var til leikhlés nokkrum andartökum seinna. 

Liverpool átti síðari hálfleikinn með húð og hári. Á 63. mínútu átti Fabinho hörkuskot eftir fallega hælsendingu frá Mohamed en markmaður Arsenal varði. Tveimur mínútum seinna fékk Liverpool víti eftir að Dejan Lovren var hrint. Mohamed leyfði Roberto að taka vítið til að ná þrennu. Roberto þakkaði gott boð og skoraði með því að senda markmann Arsenal í öfugt horn fyrir framan The Kop og náði sinni fyrstu þrennu fyrir Liverpool. Sigur Liverpool hefði getað verið enn stærri miðað við yfirburði liðsins en liðið hægði heldur á sér og opin færi komu ekki eftir þetta.

Mikill fögnuður braust út í leikslok og áhorfendur hylltu hetjunar sínar sem hafa veitt svo margar gleðistundir á þessu viðburðaríku ár. Það náðist ekki að vinna titil á þessu ári eins og hefði verið verðskuldað en herslumunurinn sem vantaði í vor næst vonandi á næsta vori!

Maður leiksins: Roberto Firmino. Brasilíumaðurinn var frábær eins og reyndar allir félagar hans. En það er ekki annað hægt en að velja mann sem þann besta á vellinum eftir að hafa skorað þrennu. Reyndar var hann óstöðvandi og varnarmenn Arsneal réðu ekkert við hann. 

Jürgen Klopp: Við spiluðum á köflum villta pressu frá hægri til vinstri. Það er auðvitað alveg magnað að vinna jafngott lið og Arsenal 5:1. Þess vegna er allt í þessu fínasta í kvöld.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (14., 16. og 65, víti, mín.), Sadio Mané (32. mín) og Mohamed Salah, víti, (45. mín.).

Gult spjald: Andrew Robertson. 

Mark Arsenal: Ainsley Maitland-Niles (11. mín.).

Gul spjöld: Granit Xhaka og Sokratis Papastathopoulos.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.326.

Fróðleikur

- Liverpool endar árið 2018 í efsta sæti deildarinnar. 

- Roberto Firmino skoraði sína fyrstu þrennu sína fyrir Liverpool. 

- Hann er nú búinn að skora 43 mörk í efstu deild á Englandi. Enginn Brasilíumaður hefur skorað fleiri.

- Hann sló þar með met sem Philippe Coutinho átti. 

- Þeir Roberto Firmino og Sadio Mané eru komnir með níu mörk á sparktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði 16. mark sitt á leiktíðinni. 

- Þegar Arsenal skoraði var það í fyrsta sinn sem Liverpool lenti undir í deildarleik á Anfield Road á árinu. 

- Liverpool tapaði ekki leik í deildinni á Anfield á árinu 2018.

Hér er viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leik. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan