| Heimir Eyvindarson

12 stigum á eftir City á sama tíma í fyrra

Þegar 11 umferðum er lokið í Úrvalsdeildinni er Liverpool í 3. sæti með 27 stig, tveimur færri en topplið Manchester City. Á sama tíma í fyrra var munurinn 12 stig. 

Það má ýmislegt segja um Liverpool liðið á þessari leiktíð og ef maður er ennþá með hugann við hörmungina í Belgrad í gær þá getur maður auðveldlega fundið fullt af hlutum til að gagnrýna. En það má þó ekki gleyma því að þegar litið er á stigasöfnun í deildinni er Liverpool í töluvert betri málum en á síðustu leiktíð - og í rauninni í miklu betri málum en maður leyfði sér að vona fyrir tímabilið. 

Á sama tíma í fyrra var Manchester City reyndar á enn meira flugi en núna, voru með 31 stig af 33 mögulegum. Liverpool var á þessum tíma með 19 stig og í 5. sæti deildarinnar, heilum 12 stigum á eftir City.

Nú er City með 29 stig af 33 mögulegum og Liverpool með 27 stig. Það er bæting upp á 8 stig, sem er ekkert smáræði. 

Í 9. umferð á síðustu leiktíð tapaði Liverpool illa fyrir Tottenham 4-1 og það var ákveðinn vendipunktur. Eftir Tottenham leikinn lék liðið 18 leiki í röð án taps, þar til að botnlið Swansea lagði heillum horfið Liverpool lið 1-0 á kolsvörtu mánudagskvöldi í janúar.

Nú er bara að vona að tapið gegn Rauðu Stjörnunni marki álíka tímamót og Tottenham tapið. Það getur auðvitað brugðið til beggja vona, en við verðum að vona það besta. 

YNWA!


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan