| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fjórði leikur Liverpool í C-riðli Meistaradeildar er í kvöld þegar okkar menn heimsækja Rauðu Stjörnuna.

Það vakti töluverða athygli í gær þegar tilkynnt var að Xerdan Shaqiri yrði ekki í leikmannahópnum sem færi til Serbíu. Liverpool tók þá ákvörðun þar sem andrúmsloftið á Marakana leikvanginum í Belgrad gæti verið enn verra ef Shaqiri myndi spila. Félagið leggur fyrst og fremst áherslu á að það sé komið til Serbíu til að spila knattspyrnu en ekki taka þátt í einhverjum pólitískum deilum milli Serbíu og Kósovó. Foreldrar Shaqiri eru frá Kósovó hluta Albaníu og eftir að Kósovó lýsti yfir sjálfstæði árið 2008 hafa Serbar ekki viljað viðurkenna þá yfirlýsingu. Shaqiri helti svo enn frekari olíu á eldinn með fagni eftir að hafa skorað mark fyrir Sviss gegn Serbíu á HM í sumar. Töluvert var rætt og ritað um það hvernig stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar myndu taka á móti Shaqiri þegar ljóst var að félagið lenti með Liverpool í riðli en nú þarf ekkert að spá í því meir. Shaqiri varð eftir í Liverpool og sætti sig við þá ákvörðun að sögn Jürgen Klopp.

Leikmannahópurinn sem ferðaðist til Serbíu í gær var m.a. skipaður þeim Naby Keita og Dejan Lovren sem hafa náð sér af meiðslum sínum. Jordan Henderson varð eftir á Melwood til að ná sér að fullu af sínum meiðslum og Nathaniel Clyne á við veikindi að stríða. Það má svo búast við því að Klopp geri einhverjar breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Arsenal og ég tippa á að Alexander-Arnold fái hvíld og að Joe Gomez fari í bakvarðastöðuna. Dejan Lovren kemur þá inn í miðja vörnina með Virgil van Dijk. Svo er spurning hvort að Daniel Sturridge fái tækifæri til að byrja nú og þá líklega á kostnað Roberto Firmino. Hvernig svo sem liðið verður skipað þá verður það sterkt enda er leikurinn mjög mikilvægur uppá framhaldið í riðlinum.

Hjá Rauðu Stjörnunni er það helst að frétta að Marko Marin, sem missti af fyrri leik liðanna á Anfield er búinn að ná sér af sínum meiðslum og verður væntanlega í byrjunarliðinu. Markvörðurinn Milan Borjan spilaði ekki um liðna helgi en það var eingöngu til þess að hann yrði klár fyrir þennan leik. Rauða Stjarnan ætti að geta stillt upp sínu sterkasta liði en þó er óvíst hvort að sóknarmaðurinn Richmond Boakye geti spilað þar sem hann hefur ekki spilað síðan á Anfield vegna meiðsla.

Þetta er fyrsti heimaleikur Serbanna síðan í fyrstu umferðinni þegar þeir gerðu gott 0-0 jafntefli við Napoli og því ljóst að það er erfiður leikur fyrir höndum. Tvö stór töp fyrir PSG og Liverpool hafa auðvitað sett liðið í vonda stöðu í riðlinum en á heimavelli vilja þeir klárlega gera vel undir öflugum stuðningi rúmlega 50.000 áhorfenda sem fylla Marakana leikvanginn (sem heitir reyndar réttu nafni Rajko Mitic Stadium). Ástæðan fyrir því að völlurinn er kallaður Marakana er sú upp úr 1960 var völlurinn endurbyggður og tók þá rúmlega 100.000 manns. Þótti völlurinn þar með minna á hinn fræga brasilíska leikvang Maracaná. En vegna breytinga á reglum hvað öryggi stuðningsmanna varðar voru sett sæti á völlinn í stað stæða áður.

Staðan í riðlinum:


Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool nær gríðarlega mikilvægum sigri 1-3. Gestirnir skora fyrstu tvö mörkin en Serbarnir minnka muninn og kveikja þar með í stuðningsmönnum sínum all hressilega. En fjórða mark leiksins verður gestanna og sigurinn þar með tryggður.

Fróðleikur:

- Markaskorun hefur dreifst nokkuð vel á milli manna hjá Liverpool í Meistaradeildinni en fimm leikmenn hafa komist á blað.

- Þeir Mohamed Salah og Roberto Firmino hafa skorað tvö mörk hvor og þeir Sadio Mané, Daniel Sturridge og James Milner eitt mark hver.

- Rauða Stjarnan hefur skorað eitt mark í Meistaradeildinni til þessa en það kom í 6-1 tapi gegn PSG í París.

- Roberto Firmino gæti spilaði sinn 160. leik fyrir félagið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan