| Sf. Gutt

Af kvennaliðinu


Það hefur mikið gengið á hjá kvennaliði Liverpool undanfarna mánuði. Bestu leikmenn liðsins hafa yfirgefið félagið og framkvæmdastjórinn fór eftir einn deildarleik!

Neil Redfearn tók við sem framkvæmdastjóri í sumar af Scott Rodgers sem hafði verið með liðið frá 2015. Hann hafði aðeins stýrt liðinu í einum leik þegar hann kom öllum á óvart með því að segja af sér. Leikurinn var gegn Arsenal og tapaðist 5:0. 




Chris Kirkland, fyrrum markmaður Liverpool, sem hafði verið ráðinn markmannsþjálfari sá um liðið til bráðabirgða með Vicky Jepson. Á föstudaginn var tilkynnt að Vicky hefði tekið við liðinu. Hún hefur verið hjá Liverpool frá 2009, fyrst sem leikmaður og svo þjálfari, og þekkir vel til. Chris verður aðstoðarframkvæmdastjóri og heldur áfram að þjálfa markmennina.  







Kvennalið Liverpool varð Englandsmeistari tvö ár í röð 2013 og 2014. Katrín Ómarsdóttir varð meistari bæði árin. En hún og flestar sem urðu Englandsmeistarar eru farnar frá félaginu. Katrín kom heim til Íslands í fyrra og spilar nú með KR. 


Gemma Bonner, sem hefur verið fyrirliði síðustu ár, fór til Manchester City og það sama má segja um skoska landsliðsmanninn Caroline Weir. Shanice Van De Sanden fór til Lyon fyrir ári og vann meistaradeildina með liðinu í vor. Hún var í hollenska landsliðinu sem vann EM í fyrra. Fara Williams, sem er á mynd hér að ofan er líka á braut. 

Það hafa því orðið gríðarlega miklar breytingar á liðinu frá því það varð Englandsmeistari tvö ár í röð. Hugmyndin er núna að byggja upp nýtt lið.   Sem stendur er liðið í fimmta sæti af 11 liðum með níu stig. Arsenal leiðir deildina með 18 stig. Chelsea er ríkjandi Englandsmeistari. Liðið vann deild og bikar á síðustu leiktíð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan