| Sf. Gutt

Glæsimark Daniel tryggði stig gegn Chelsea

Glæsimark Daniel Sturridge mínútu fyrir leikslok tryggði Liverpool stig á móti Chelsea í London. Liðin skildu jöfn 1:1. Liverpool verðskuldaði stig og er enn ósigrað.

Helsta óvissan fyrir leikinn fólst í því hvort Virgil Van Dijk. Hann fór meiddur af velli á móti Southampton um síðustu helgi og tók ekki þátt í Deildrbikarleikm liðanna. Sem betur fer gat Hollendingurinn tekið stöðu sína í vörninni. Bæði lið sendu skiljanlega alla sína bestu menn til leiks. 

Liverpool byrjaði vel og Mohamed Salah átti tvö skotfæri á upphafskafla leiksins en skot hans fóru víðsfjarri. Eftir rúmlega 20 mínútur sendi David Luiz langa sendingu fram á Willian. Hann slapp í gegn en Alisson Becker kom út á móti honum og varði vel. Á 25. mínútu komst Chelsea yfir. Eftir eldsnöggt samspil á miðjunni sendi Mateo Kovacic fram á Eden Hazard. Belginn hafði autt svæði til umræða til vinstri, tók á rás og skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið þegar hann var kominn inn í vítateiginn. Trent Alexander-Arnold hafði hætt sér heldur framarlega á völlinn og Edin nýtti sér svæðið sem hann átti að gæta. 

Á 32. mínútu sendi Roberto Firmino fram á Mohamed sem komst framhjá Kepa Arrizabalaga markmanni Chelsea og sendi svo boltann að auðu markinu. Antonio Rüdiger var þó ekki af baki dottinn og bjargaði á marklínu. Ekkert var meira skorað í hálfeiknum og heimamenn með forystu þegar leikhlé kom.

Sóknir gengu á báða bóga en lítið var um opin færi. Á 58. mínútu náði Sadio Mané að koma sér í færi af harðfylgi en Kepa varði í horn. Um fimm mínútum seinna slapp Eden einn í gegn eftir að heimamenn voru snöggir að taka aukaspyrnu og senda fram en líkt og í fyrri hállfleiknum varði Alisson vel með góðu úthlaupi. Frábær markvarsla. 

Hinu megin hefði Liverpool átt að jafna á 68. mínútu. Andrew Robertson sendi stórgóða sendingu fyrir frá vinstri en Xherdan Shaqiri, sem var nýkominn inn á fyrir Mohamed, hitti ekki boltann almennilega rétt uppi við markið í algjöru dauðafæri og boltinn fór framhjá. Fjórum mínútum seinna kom aftur sending frá vinstri og nú var það James Milner sem sendi. Roberto skallaði að marki en David bjargaði á marklínu. 

Það virtist ekki ætla að ganga hjá Liverpool að jafna og síðasta útspil Jürgen Klopp var að senda Daniel Sturridge inn á. Þá voru fjórar mínútur til leiksloka. Í fyrsta skipti sem hann fékk boltann lagði Daniel hann fyrir sig fyrir utan vinstra vítateigshornið. Hann hefði ekki frekari umsvif heldur skaut honum í næstu snertingu rakleiðis upp í hornið fjær með glæsilegu bogaskoti. Rauðliðar utan vallar sem innan trylltust af fögnuði enda fullt tilefni til. Reyndar var Daniel manna rólegastur því hann vildi ekki fagna of mikið á móti gamla liðinu sínu! 

Sannkallað glæsimark og sennilega það fallegasta sem Daniel hefur skorað fyrir Liverpool. Það er kannski helst spurning um næsta mark á undan þessu á móti Chelsea í síðasta leik! Markið tryggði Liverpool verðskuldað stig því ekki hefði liðið átt skilið að tapa. Liverpool spilaði stórvel og reyndar gerðu bæði lið það!  

Maður leiksins: Alisson Becker. Hann varði tvívegis einn á móti einum. Seinni markvarslan skipti sköpum því hún gaf Liverpool áfram von um að jafna leikinn.  

Jürgen Klopp: Þetta var frábær knattspyrnuleikur. Við fengum mörg færi og spiluðum stórgóða knattspyrnu. Það er alltaf gott að fá stig á útivelli á móti Chelsea. Ef við spilum svona munum við vinna fullt af leikjum.

Mark Chelsea: Eden Hazard (25. mín.).

Mark Liverpool: Daniel Sturridge (89. mín.).

Gult spjald:
Sadio Mané og James Milner. 

Áhorfendur á Stamford Bridge: 40.625.

Fróðleikur

- Liverpool gerði jafntefli eftir sigra í sex fyrstu deildarleikjum sínum. 

- Daniel Sturridge skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. 

- Markið var hans 50. í deildinni fyrir Liverpool.

- Alls hefur hann skorað 67 mörk í 140 leikjum frá því hann kom frá Chelsea. 

- Georginio Wijnaldum lék sinn 100. leik fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað níu mörk.

- Virgil Van Dijk spilaði 30. leik sinn. Hann hefur skorað einu sinni. 

Hér má horfa á öll 50 deildarmörk Daniel Sturridge sem hann hefur skorað fyrir Liverpool. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan