| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Evrópuvegferð Liverpool leiktíðina 2018/19 hefst annað kvöld á Anfield Road. Frönsku meistararnir Paris Saint-Germain koma í heimsókn og vegferðin hefst því með sannkölluðum stórleik. Liðin hafa unnið alla fimm deildarleiki sína fram til þessa og því verður eitthvað undan að láta. Nema þá að liðin skilji jöfn.


Þó Liverpool sé silfurlið frá síðustu leiktíð þá er riðillinn erfiður og það er mikilvægt að ná góðri byrjun. Heimaleikirnir eru jú bara þrír og erfiðir útileikir í París og Napólí bíða seinna meir. Það er þó hægara sagt en gert að leggja Paris að velli. Liðið hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið í frönsku deildinni á síðustu árum og það er ekkert útlit fyrir breytingar í þeim efnum enda nóg til af peningum hjá eigendum félagsins. Liðið hefur unnið frönsku deildina fimm sinnum á síðustu sex árum og báðar frönsku bikarkeppnirnar ár eftir ár. Liverpool lék frábærlega á leið sinni til Kiev á síðustu leiktíð og liðið þarf á því að halda að spila álíka vel eins og á móti Manchester City og Roma í Meistaradeildinni síðasta vor. 


Jürgen Klopp hefur lagt áherslu á að Paris stefni á að vinna Evrópubikarinn á þessari leiktíð og sé eitt sigurstranlegasta liðið í keppninni. Það er erfitt að vera ósammála áliti hans í því efni enda valinn maður í hverju rúmi í franska liðinu. Frá því í vor hafa svo nokkrir liðsmenn bætt við sig heimsmeistaratign.


Þó Liverpool og Paris Saint-Germain hafi ekki leikið saman á seinni árum þá er mikil þekking á liðunum í hvorum herbúðum fyrir sig. Thomas Tuchel, sem tók við Paris í sumar, var arftaki Jürgen Klopp hjá Borussia Dortmund. Það má því búast við mikilli refskák inni á vellinum. Thomas þekkir það magnaða andrúmsloft sem skapast á Evrópukvöldum á Anfield eftir að Dortmund féll úr leik fyrir Liverpool í ævintýralegum leik á leiktíðinni 2015/16. Sumir þjálfarar og leikmenn andstæðinga Liverpool hafa fyrir leiki á Anfield dregið úr áhrifum áhorfenda en Thomas veit að hverju hann gengur í þeim efnum!

Sumir telja að þrátt fyrir að Liverpool hafi unnið fimm fyrstu deildarleiki sína þá hafi liðið enn ekki leikið eins og það ætti að geta best. Líklega þarf liðið að geta sýnt sitt allra besta til að geta unnið annað kvöld. Ég held að Liverpool nái að sýna sitt besta og vinni 2:1 sigur. Mohamed Salah og Sadio Mané sjá um mörkin!

YNWA!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan