| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Eftir góða byrjun hjá mörgum lánsmönnum félagsins spiluðu aðeins sjö leikmenn af þeim fimmtán sem eru á láni um nýliðna helgi. Hér má lesa um gengi þeirra.

Eins og öllum ætti að vera kunnugt eru þeir Ovie Ejaria og Ryan Kent á láni hjá Glasgow Rangers í Skotlandi. Sá fyrrnefndi hefur hingað til fengið mesta athygli fyrir góðar frammistöður en um helgina komst Ryan Kent á blað fyrir skoska liðið.

Rangers mættu Dundee á heimavelli í skosku úrvalsdeildinni og Kent skoraði annað mark leiksins eftir laglegt samspil við samherja sína. Hann komst einn í gegn á teignum og setti boltann örugglega í markið. Kent var af mörgum talinn besti maður Rangers í leiknum og Steven Gerrard hrósaði honum eftir leik:  ,,Hann var frábær og ég vissi að mörkin myndu koma hjá honum. Ég vissi að þegar hann færi aðeins að slaka á fyrir framan markið myndi þetta koma. Hann er á góðum stað núna."

Gerrard sagði eftir leik að Ovie Ejaria ætti við smávægileg meiðsli að stríða og hefði því ekki getað spilað gegn Dundee en að öllu óbreyttu ætti hann að geta spilað í Evrópudeildinni gegn Villarreal á fimmtudaginn kemur.

Þetta var annar sigurleikur Rangers í deildinni og eru þeir í 4. sæti með 8 stig eftir fimm leiki.

Loris Karius spilaði með Besiktas og eftir að hafa átt í smá brasi í sínum fyrsta leik stóð hann sig mjög vel nú. Besiktas mætti Yeni Malatyaspor og sigruðu 2-1 þar sem Karius bjargaði oft á tíðum frábærlega með góðum markvörslum. Það er óskandi að Karius nýti þessa frammistöðu til að bæta sjálfstraust sitt enn frekar.

Besiktas lyftu sér upp í 4. sæti deildarinnar í Tyrklandi en liðið er með 10 stig eftir fimm leiki.

Höldum okkur á meginlandi Evrópu þar sem Marko Grujic spilaði allan leikinn fyrir Hertha Berlin gegn Wolfsburg þar sem lokatölur voru 2-2. Grujic spilaði á miðjunni í 4-2-3-1 kerfi og sinnti meira varnarhlutverki í leiknum, uppskar hann gult spjald fyrir vikið. Hertha Berlin töpuðu þar með sínum fyrstu stigum á tímabilinu en eftir aðeins þrjá leiki í deildinni sitja þeir í 4. sæti með sjö stig ásamt fjórum öðrum liðum.

Sheyi Ojo kom inná sem varamaður hjá Stade de Reims í Frakklandi í seinni hálfleik, spilaði nánar tiltekið síðustu 17 mínútur leiksins. Reims mættu Nantes og endaði leikurinn 0-0. Liðið er í 10. sæti deildarinnar með 7 stig eftir fimm leiki.

Við færum okkur yfir til Bretlandseyja þar sem þrír leikmenn spiluðu með liðum sínum í neðri deildum Englands og í Skotlandi.

Corey Whelan er á láni hjá Crewe Alexandria og fór beint í byrjunarliðið sem vinstri bakvörður gegn Cheltenham í League Two. Whelan spilaði allan leikinn sem endaði markalaus. Crewe eru í 17. sæti með 8 stig eftir 7 leiki og eiga leik til góða.

Herbie Kane heldur áfram að spila vel fyrir Doncaster Rovers og byrjaði hann inná í sjöunda leiknum í röð gegn Walsall í League One. Doncaster unnu góðan 3-1 sigur og sitja í 5. sæti með 15 stig eftir átta leiki.

Adam Bogdan var svo sem fyrr í markinu hjá Hibernian í skosku úrvalsdeildinni þegar sigur vannst á Kilmarnock. Bogdan þurfti að hirða boltann úr marki sínu tvisvar í leiknum en það kom ekki að sök þar sem Hibs unnu 3-2. Hibs eru með jafnmörg stig og Rangers en lakari markatölu og sitja því í 5. sæti deildarinnar.

Danny Ings verður svo væntanlega í eldlínunni með Southampton í kvöld gegn Brighton en nýlega hrósaði Mark Hughes honum fyrir að hafa komið sterkur inní tímabilið hjá suðurstrandarliðinu það sem af er.

Meiðsli aftra svo Connor Randall frá því að geta spilað með Rochdale en í landsleikjahléinu braut hann kinnbein. Gerðist þetta í leik gegn Bury í EFL bikarnum sem er bikarkeppni neðrideildarliða á Englandi. Randall þurfti að fara í aðgerð og verður væntanlega frá næstu 12 vikurnar.

Harry Wilson hefur einnig verið meiddur uppá síðkastið en Frank Lampard, stjóri Derby County sagði að hann byggist við því að geta notað Wilson í næsta leik gegn Blackburn á þriðjudagskvöldið.

Hér fyrir neðan er svo samantekt yfir lánsmennina:

Loris Karius – Spilaði 90 mín. gegn Yeni Malatyaspor
Marko Grujic – Spilaði 90 mín. gegn Wolfsburg
Ryan Kent – Spilaði 64 mín og skoraði gegn Dundee
Adam Bogdan – Spilaði 90 mín. gegn Kilmarnock
Herbie Kane – Spilaði 65 mín. gegn Walsall
Corey Whelan – Spilaði 90 mín. gegn Cheltenham
Sheyi Ojo – Spilaði 17 mín + uppbótartíma gegn Nantes
Ben Woodburn – Ónotaður varamaður gegn Bristol City
Taywo Awoniyi – Ónotaður varamaður gegn Sint-Truiden
Shamal George – Ónotaður varamaður gegn Carlisle
Anderson Arroyo – Ekki í leikmannahópnum gegn Sint-Truiden
Allan – Ekki í leikmannahópnum gegn Borussia Dortmund
Ovie Ejaria – Meiddur
Harry Wilson – Meiddur
Danny Ings – Spilar væntanlega gegn Brighton mánudagskvöldið 17. september


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan