| Grétar Magnússon

Landsleikir

Nokkrir leikmenn liðsins hafa spilað með landsliðum sínum og við rennum yfir gengi þeirra hér.


Á föstudagskvöldið leiddi Andy Robertson Skota til leiks á Hampden Park í vináttuleik gegn Belgum. Robertson og félagar náðu sér ekki á strik gegn bronsliði HM og töpuðu 0-4. Robertson spilaði allan leikinn en mörk Belga skoruðu þeir Romelu Lukaku, Eden Hazard og Michy Batshuayi (2). Næsti leikur Skota er gegn Albaníu í Þjóðadeildinni á mánudagskvöldið.

Kamil Grabara var í marki U-21 árs liðs Pólverja sem gerðu 1-1 jafntefli við Færeyjar í undankeppni Evrópumótsins.

Á fimmtudagskvöldið unnu Hollendingar 2-1 sigur á Perú þar sem þeir Virgil van Dijk og Gini Wijnaldum spiluðu, sá fyrrnefndi allan leikinn en sá síðarnefndi í 45 mínútur.

Dominic Solanke kom inná hjá U-21 árs liði Englendinga á 76. mínútu í markalausu jafntefli gegn Hollandi.

U-20 ára lið Englendinga mætti Sviss á heimavelli og þar spilaði Adam Lewis allan leikinn í 2-0 sigri.

Í Bandaríkjunum mættu Brasilíumenn heimamönnum í New Jersey. Roberto Firmino, Alisson Becker og Fabinho byrjuðu allir og skoraði Firmino fyrsta markið á 11. mínútu. Neymar bætti við öðru marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir að brotið var á Fabinho inní vítateig og þannig endaði leikurinn, 0-2. Alisson og Fabinho spiluðu allan leikinn en Firmino var skipt útaf þegar korter var eftir. Fabinho spilaði hægri bakvörð og þótti standa sig vel.

Á laugardagskvöldið spilaði Egyptaland gegn Níger og Mohamed Salah var að sjálfsögðu í byrjunarliði Egypta. Leikurinn var nokkuð viðburðaríkur fyrir Salah en hann skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö í 6-0 sigri. Egyptar fengu tvær vítaspyrnur í leiknum, Salah tók þær báðar og mistókst að skora úr báðum ! En í seinna vítinu náði hann frákastinu og skoraði.

Annar 6-0 sigur leit dagsins ljós þegar Xerdan Shaqiri og samherjar hans í svissneska landsliðinu unnu stórsigur á okkur Íslendingum í Sviss. Shaqiri skoraði þriðja mark leiksins beint úr aukaspyrnu en við látum duga að fjalla meir um þennan leik.

Að lokum er vert að minnast á Englendinga sem mættu Spánverjum á Wembley í Þjóðadeildinni. Jordan Henderson og Joe Gomez byrjuðu báðir inná í 1-2 tapi en Spánverjar sneru leiknum sér í hag eftir að hafa lent snemma undir. Henderson var skipt útaf í seinni hálfleik en Gomez kláraði leikinn á meðan Trent Alexander-Arnold sat á bekknum allan tímann.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan