| Grétar Magnússon

Fréttir lánsmönnum

Rennum yfir gengi lánsmanna félagsins í síðustu viku og um nýliðna helgi.


Eins og venjulega var gengi manna misjafnt með liðum sínum en við skulum byrja á þeim sem náðu að skora mörk fyrir lið sín.

Danny Ings hefur byrjað vel hjá Southampton en lið hans mætti Crystal Palace á útivelli í úrvalsdeildinni á laugardaginn. Ings skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúman hálftíma leik þegar hann potaði boltanum undir markvörð Palace eftir langa sendingu upp völlinn. Leikurinn endaði með 0-2 sigri Southampton og var þetta fyrsti sigur suðurstrandarliðsins á tímabilinu. Ings hefur nú skorað tvö mörk það sem af er tímabili.

Ovie Ejaria var einnig á skotskónum, annan leikinn í röð með Glasgow Rangers. Lið Stevens Gerrard heimsótti FC Ufa í seinni leik liðanna í umspili um að komast í riðlakeppni Evrópudeildar. Rangers komust yfir í leiknum með marki frá Ejaria sem þótti afar glæsilegt, þrumuskot efst upp í markhornið. FC Ufa jöfnuðu metin í leiknum og Rangers misstu tvo menn af velli með rautt spjald en þeir náðu að halda stöðunni í 1-1 allt til loka og komust þar með í riðlakeppnina. Þar eru þeir í riðli með Rapid Vín, Spartak Moskvu og Villarreal. Mjög sterkur riðill og gaman verður að fylgjast með Rangers í Evrópukeppni í vetur þar sem Ejaria og Ryan Kent munu vonandi öðlast dýrmæta reynslu.

Ejaria og Kent voru svo í eldlínunni í skosku deildinni á sunnudaginn þegar nágrannaslagur Celtic og Rangers fór fram á heimavelli Celtic. Þar mættust Brendan Rodgers og Steven Gerrard þar sem sá fyrrnefndi hafði sigur 1-0. Ejaria og Kent byrjuðu báðir en Celtic stjórnuðu leiknum að mestu og Rangers menn komust lítt áleiðis. Ejaria spilaði allan leikinn en Kent var skipt útaf á 87. mínútu, báðir þóttu standa sig ágætlega í leiknum. Þetta var fyrsta tap Gerrard með Rangers en þeir sitja í 7. sæti deildarinnar með fimm stig eftir fjórar umferðir.

Sheyi Ojo er nýkominn til Stade de Reims í Frakklandi en hann var engu að síður á varamannabekknum gegn Montpellier. Hann kom inná þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum en náði ekki að bjarga sínum mönnum sem töpuðu leiknum á heimavelli 0-1. Reims sitja í 11. sæti deildarinnar með sex stig eftir fjóra leiki.

Loris Karius spilaði svo sinn fyrsta leik fyrir Besiktas í Tyrklandi gegn Bursaspor á útivelli. Leikurinn endaði 1-1 en Þjóðverjinn byrjaði vel, varði dauðafæri einn gegn einum í fyrri hálfleik þegar Besiktas voru komnir í forystu 0-1. En fjórum mínútum fyrir leikslok jöfnuðu heimamenn og það mætti kannski segja að Karius hefði getað gert betur þar. Sending kom frá hægri kanti inná teiginn og Karius fór út en var algjörlega í einskins manns landi þegar sóknarmaður Bursaspor náði að pota í boltann og koma honum í markið á nærstöng. Besiktas hafa ekki byrjað tímabilið vel og sitja í 8. sæti deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki.

Færum okkur yfir til Þýskalands þar sem Marko Grujic byrjaði inná hjá Hertha Berlin gegn Schalke. Grujic fékk á sig víti í leiknum með því að handleika boltann í teignum en Schalke misnotaði vítaspyrnuna. Hertha stigu upp og enduðu á því að vinna leikinn 0-2 og hafa því unnið báða leiki sína í deildinni sem verður að teljast mjög gott.

Taiwo Awoniyi spilaði með Gent í undankeppni Evrópudeildar í liðinni viku, nánar tiltekið í klukkustund þegar liðið tapaði gegn Bordeaux á útivelli 2-0. Þar með var ljóst að Gent spilar ekki í Evrópudeildinni í vetur. Hann kom svo ekkert við sögu um helgina í leik gegn Cercle Brugge í leik sem vannst á útivelli 0-3. Gent sitja í 4. sæti deildarinnar með 13 stig eftir sex leiki.

Í neðri deildum Englands eru svo margir leikmenn Liverpool eins og áður hefur komið fram. Connor Randall spilaði sinn fyrsta leik fyrir Rochdale gegn Middlesbrough í Deildarbikarnum í liðinni viku en meiddist eftir 57 mínútur og var skipt útaf. Meiðslin gerðu það svo að verkum að hann gat ekki spilað um helgina. Rochdale eru í 14. sæti League One með sjö stig eftir sex leiki.

Herbie Kane spilaði ekki með Doncaster í vikunni í Deildarbikarnum en spilaði svo allan leikinn gegn Peterborough á útivelli um helgina. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli og sitja Doncaster í 7. sætinu með níu stig.

Færum okkur aftur til Skotlands þar sem Adam Bogdan var í markinu hjá Hibernian þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Livingston á laugardaginn. Ekki var hægt að saka Bogdan um mörkin, hann varði vel inná milli og hélt sínum mönnum inní leiknum.

Hér er svo yfirlit yfir lánsmennina og leiktíma þeirra:

Loris Karius – Spilaði 90 mín. gegn Bursaspor
Marko Grujic – Spilaði 90 mín. gegn Schalke
Danny Ings – Hvíldur gegn Brighton og spilaði 78 mín. og skoraði eitt mark gegn Crystal Palace
Sheyi Ojo – Spilaði 12 mín. gegn Montpellier
Ovie Ejaria – Spilaði 90 mín. og skoraði gegn FC Ufa og 90 mín. gegn Celtic
Ryan Kent – Spilaði 90 mín. gegn FC Ufa og 87 mín. gegn Celtic
Adam Bogdan – Spilaði 90 mín. gegn Livingston
Taiwo Awoniyi – Spilaði 63 mín. gegn Bordeaux og var ekki með gegn Cercle Brugge
Connor Randall – Spilaði 57 mín. gegn Middlesbrough
Herbie Kane – Hvíldur gegn Blackpool og spilaði 90 mín. gegn Peterborough
Ben Woodburn – Ónotaður varamaður gegn Aston Villa
Shamal George – Ónotaður varamaður gegn Northampton
Anderson Arroyo – Ekki í leikmannahóp gegn Bordeaux og Cercle Brugge
Allan Rodrigues – Ekki í leikmannahóp gegn Werder Bremen
Harry Wilson – Meiddur
Corey Whelan – Engar upplýsingar


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan