| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Leicester á King Power Stadium í hádegisleiknum á morgun. Leicester hefur byrjað leiktíðina vel og hefur stundum valdið okkur veseni. Vonandi ekki á morgun samt.

Leicester tapaði frekar ósanngjarnt fyrir Manchester United í fyrsta leik, en hefur unnið þrjá leiki í röð síðan. Þrátt fyrir brotthvarf Ryad Mahrez í sumar virðist liðið í ágætu standi. Liðið er vel skipulagt, með sterka vörn og góðan markvörð. 

Mér finnst nokkuð ljóst að Leicester muni spila þéttan varnarleik og freista þess að skora úr skyndisóknum. Það veikir vonir þeirra reyndar nokkuð að Jamie Vardy er í banni á morgun, eftir að hafa nælt sér í rautt spjald gegn Wolves um daginn. Vardy hefur oft reynst okkur erfiður, þannig að það er hið besta mál að hann sé í banni. 

Það er ekki gott að segja hvort Klopp gerir einhverjar breytingar á liðinu á morgun, hann hefur stillt upp óbreyttu liði í fyrstu þremur umferðunum og alveg eins líklegt að hann bíði fram yfir landsleikjahlé með að gera breytingar. Það verður þó að segjast að þrátt fyrir að liðið sé með fullt hús stiga hafa síðustu tveir leikir ekki verið neinar flugeldasýningar þannig að kannski telur Klopp tímabært að setja hungraðri menn inn í byrjunarliðið.

Af orðum hans á blaðamannafundinum að dæma er samt ekki alveg komið að því að Henderson byrji inná, hann segist hafa rætt málin við fyrirliðann og það sé eðlilegt að hann sé á bekknum núna til að byrja með, enda einungis rétt um 4 vikur síðan hann mætti til æfinga. Það kæmi þó ekkert agalega á óvart þótt Henderson byrjaði á morgun, hann hefur allavega komið inn með góðan kraft í síðustu leikjum. 


Ég sé ekki alveg hvaða aðrar breytingar Klopp ætti að gera, en hann talaði um að það væri allt opið. Liðið væri búið að að æfa á fullu í vikunni og hann tæki frammistöðu manna á æfingum ekki síður með í reikninginn en frammistöðu í leikjum. 

Ég veit ekki hvaða svartsýni er í mér, en ég held að við töpum þessum leik á morgun. 1-0. Því miður. 

YNWA!


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan