| Grétar Magnússon

Góð byrjun á tímabilinu

Liverpool byrjaði tímabilið á besta mögulegan máta þegar 4-0 sigur vannst á West Ham á Anfield í fyrsta leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrir leik var helst rætt um hver myndi vera með Virgil van Dijk í vörninni og fékk Joe Gomez tækifærið.  Að öðru leyti var byrjunarliðið sett upp eins og flestir bjuggust við.  Alisson byrjaði sinn fyrsta deildarleik í markinu, í bakvörðum voru þeir Alexander-Arnold og Robertson, á miðjunni þeir Milner, Wijnaldum og Keita, frammi var svo þríeykið magnaða Mané, Salah og Firmino.  Gestirnir voru einnig með nýja leikmenn innan sinna raða og byrjuðu þeir Fabianski, Fredericks, Balbuena, Wilshere og Felipe Anderson allir.

Eins og við var að búast voru heimamenn mun meira með boltann en gestirnir voru agaðir og skipulagðir til að byrja með.  Á 16. mínútu átti Milner sendingu innfyrir vörnina á Mané sem hafði tekið hlaupið.  Mané náði ekki alveg valdi á boltanum sem skoppaði í hendurnar á Fabianski.  Áfram héldu Liverpool menn að spila vel og bíða færis.  Fyrsta markið kom á 19. mínútu þegar Keita fékk flotta sendingu inná miðjuna frá Alexander-Arnold.  Keita tók á rás í átt að teignum og sendi boltann innfyrir á Robertson sem hikaði ekki og setti boltann strax inná markteig þar sem Salah var mættur og sendi boltann í netið.  Flott sókn og fyrsta mark tímabilsins komið á blað og fáum kom á óvart að Salah skyldi vera þar að verki.

Fyrri hálfleikurinn var eign Liverpool og West Ham töpuðu niður skipulaginu í liði sínu.  Næsta færi var aukaspyrna af nokkuð löngu færi sem Alexander-Arnold tók.  Spyrnan var mjög góð og boltinn stefndi efst í markhornið en Fabianski varði mjög vel.  Naby Keita sýndi svo snilli sína þegar hann lék með boltann framhjá nokkrum West Ham mönnum og inní teiginn, mikið kraðak myndaðist þar sem allir vildu ná til boltans en það endaði með viðstöðulausu skoti frá Wijnaldum sem fór framhjá.  West Ham náðu að kreista út eitt færi þegar Arnautovic fékk langa sendingu innfyrir.  Hann komst inní teiginn vinstra megin og skaut að marki en skotið fór vel framhjá.  Næsta færi fékk Salah þegar Firmino gerði vel hægra megin, komst inná teiginn og sendi boltann aðeins til baka á Salah sem skaut í fyrsta en Fabianski var aftur vel á verði.  Í uppbótartíma kom svo annað mark leiksins þegar Robertson sendi háan bolta yfir til hægri þar sem Milner var mættur.  Hann þurfti að teygja sig vel í boltann en náði að koma honum á markteiginn þar sem Mané var algjörlega óvaldaður og setti boltann í markið.  Staðan í hálfleik 2-0 og allt í blóma á Anfield.


Gestirnir gerðu breytingu í hálfleik þegar Snodgrass kom inná fyrir Rice á miðjunni.  Þeir voru svo ekki langt frá því að minnka muninn þegar Felipe Anderson skallaði boltann áfram eftir hornspyrnu, Antonio var einn á fjærstönginni en hann náði ekki að koma boltanum á markið, sem betur fer.  Á 53. mínútu kom svo þriðja mark leiksins þegar Firmino fékk boltann á miðjunni, hann lék nær teignum og sendi svo boltann innfyrir á Mané sem þrumaði boltanum í netið. Mané var klárlega rangstæður þegar sendingin kom en aðstoðardómarinn flaggaði ekki og markið stóð.

Á 69. mínútu gerði Klopp fyrstu skiptingu sína þegar fyrirliðinn Jordan Henderson kom inná í stað Firmino. Liverpool fengu ágæt tækifæri til að bæta við marki en Wijnaldum og Salah tókst ekki að koma boltanum framhjá Fabianski.  Á síðustu mínútunum gerði Klopp fleiri breytingar, Shaqiri kom inná fyrir Mané og á 87. mínútu kom Sturridge inn fyrir Salah þegar Liverpool hafði fengið dæmda hornspyrnu.  Milner tók spyrnuna, varnarmaður West Ham náði ekki að skalla frá á nærstöng og boltinn barst yfir á fjær þar sem Sturridge var mættur, hver annar, og hann setti boltann í netið eftir að hafa aðeins verið inná í nokkrar sekúndur !  Lokatölur 4-0 sigur sem verður að teljast ansi góð byrjun á tímabilinu.

Liverpool:  Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Milner, Wijnaldum, Keita, Mané (Shaqiri, 82. mín.), Salah (Sturridge, 87. mín.), Firmino (Henderson, 69. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Karius, Clyne, Fabinho, Lallana.

Mörk Liverpool:  Mohamed Salah (19. mín.), Sadio Mané (45+2 og 53. mín.) og Daniel Sturridge (88. mín.).

Gult spjald:  Alexander-Arnold.

West Ham:  Fabianski, Fredericks, Balbuena, Ogbonna, Masuaku, Noble, Rice (Snodgrass, 45. mín.), Antonio, Felipe Anderson (Hernández, 62. mín.), Arnautovic (Yarmolenko, 67. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Adrián, Zabaleta, Obiang, Diop.

Gul spjöld:  Balbuena og Antonio.

Áhorfendur á Anfield:  53.235.

Maður leiksins:  Eins og oft áður er erfitt að velja mann leiksins þegar allir spila vel en James Milner var frábær í leiknum.  Hann var út um allan völl, skapaði hættu framávið og vann boltann þegar á þurfti að halda.

Jürgen Klopp:  ,,Frammistaða allra leikmanna var góð og þeir James Milner og Gini Wijnaldum voru stórkostlegir.  Við spiluðum eins vel og hægt var í dag og náðum að halda okkar góða gengi á undirbúningstímabilinu áfram inní deildina."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu.

- Salah hefur skorað 20 mörk í síðustu 20 leikjum sínum á Anfield.

- Sadio Mané bætti um betur og skoraði tvö mörk og auðvitað sín fyrstu í deildinni.

- Mané er fyrsti leikmaður félagsins sem skorar í fyrsta leik tímabilsins þrjú tímabil í röð en síðast gerði John Barnes það tímabilin 1989-90 til 1991-92.

- Daniel Sturridge skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu en síðast skoraði hann gegn Huddersfield í 3-0 sigri í október í fyrra.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan