| Grétar Magnússon

3-1 sigur á Torino

Liverpool mætti ítalska liðinu Torino í síðasta leik undirbúningstímabilsins á Anfield.  Lokatölur voru 3-1 sigur heimamanna.

Þeir Alisson Becker, Fabinho, Naby Keita og Xerdan Shaqiri spiluðu allir sinn fyrsta leik fyrir Liverpool á Anfield en byrjunarliðið var þannig skipað:  Alisson, Alexander-Arnold, van Dijk, Phillips, Moreno, Fabinho, Wijnaldum, Keita, Mané, Salah, Firmino.  Á bekknum voru Karius, Clyne, Henderson, Sturridge, Grujic, Lallana, Shaqiri, Robertson, Ings, Jones, Johnston, Camacho, Grabara.

Gestirnir frá Ítalíu höfðu staðið sig vel á undirbúningstímabilinu fram að þessum leik, unnið alla sína leiki og ekki fengið á sig mark.  Þess var þó ekki langt að bíða að þeir fengu á sig sitt fyrsta mark.  Það hefði getað komið á 16. mínútu þegar brotið var á Mané innan teigs, hann hélt þó jafnvægi og reyndi að koma skoti á markið.  Dómarinn dæmdi hinsvegar vítaspyrnu og á punktinn fór Fabinho sem er jú þekktur fyrir að vera gríðarlega örugg vítaskytta.  Brasilíumaðurinn skaut hinsvegar framhjá og vonandi er hann þá bara búinn með kvótann yfir misnotuð víti á ferli sínum hjá félaginu.  Fjórum mínútum síðar var boltinn svo í netinu hjá gestunum þegar Firmino skoraði.  Salah sendi boltann innfyrir þar sem Firmino tók við honum og skaut að marki, boltinn hafði viðkomu í Lorenzo Di Silvestri og endaði í markinu.



Eftir 23. mínútna leik var staðan orðin 2-0 þegar Firmino sendi flotta sendingu innfyrir á Wijnaldum sem var yfirvegaður einn gegn markmanni og sendi boltann í netið.  Torino menn bitu aðeins frá sér og skömmu fyrir hálfleik skoraði Belotti með skalla af markteig eftir góða sendingu frá Di Silvestri.  Liverpool fengu eitt færi í viðbót fyrir hálfleik þegar Wijnaldum komst aftur í gegn en Sirigu markvörður Torino varði mjög vel frá honum.

Í hálfleik gerði Klopp sjö breytingar og inn komu þeir Shaqiri, Robertson, Grujic, Jones, Lallana, Sturridge og Ings.  Fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Ings fékk góða sendingu frá Sturridge, hann skaut að marki en boltinn fór framhjá.  Sturridge hélt áfram að ógna, fór illa með Nicolas Nkoulou miðvörð Torino í teignum, þrumaði að marki en Sirigu varði.  Næstur á blað var Ings en Sirigu varði skot hans, boltinn virtist þó vera á leiðinni inn en varnarmaður bjargaði á línu.

Á 70. mínútu var mikið fagnað á Anfield þegar fyrirliðinn Jordan Henderson kom inná sem varamaður.  Ekki voru fagnaðarlætin minni þegar Loris Karius kom inná fyrir Alisson þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum.  Þrem mínútum fyrir leikslok kom svo síðasta mark leiksins og var Sturridge þar að verki.  Shaqiri átti frábæra sendingu frá hægri og Sturridge var mættur til að skalla boltann í netið.  Lokatölur 3-1 og alvaran hefst um næstu helgi þegar West Ham mæta í heimsókn.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan