| Grétar Magnússon

Stórsigur á Napoli

Liverpool mætti Napoli um liðna helgi í Dublin á Írlandi og vann 5-0 stórsigur.

Það var nokkuð ljóst á liðsuppstillingu Jürgen Klopp að hann hafði fyrsta leik úrvalsdeildarinnar í huga því byrjunarliðið var sterkt.  Alisson Becker spilaði í fyrsta sinn fyrir félagið og í vörninni voru þeir Clyne, Gomez, van Dijk og Robertson.  Á miðjunni voru þeir Milner, Keita og Wijnaldum og frammi hið magnaða tríó Mané, Salah og Firmino.  Trent Alexander-Arnold sat á bekknum nýkominn aftur til starfa eftir að hafa fengið lengra frí vegna HM.


Ekki var langt liðið af leiknum þegar fyrsta markið kom og var Milner þar að verki.  Leikmenn Liverpool pressuðu Napoli hátt uppi á vellinum og boltinn vannst hægra megin af Clyne.  Mané fékk boltann inná teiginn og sendi hann út þar sem Milner var mættur og þrumaði boltanum efst í fjærhornið.  Firmino komst svo skömmu síðar í gott færi en Albiol komst fyrir skot hans.  Skömmu síðar höfðu Liverpool menn bætt við marki þegar hornspyrna var tekin stutt á Milner sem sendi fyrir markið.  Þar stökk Wijnaldum hæst og skallaði boltann áður en markvörður Napoli náði til hans.

Napoli fengu sitt fyrsta færi um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Milik þrumaði rétt framhjá, skömmu síðar varði Alisson skot frá Insigne.  Liverpool náði aftur tökum leiknum og Firmino skoraði mark en var dæmdur rangstæður.  Napoli komu boltanum líka í netið hinumegin rétt fyrir hálfleik en það mark var einnig dæmt af vegna rangstöðu sem var þó líklega rangur dómur.  Staðan í hálfleik 2-0 fyrir Liverpool.

Klopp gerði eina breytingu í hálfleik þegar Shaqiri kom inná fyrir Firmino.  Á 56. mínútu lenti Milner í samstuði við mótherja og báðir lágu óvígir á eftir.  Milner hafði fengið stóran skurð á ennið og fór af velli, í hans stað kom Fabinho.  Tveim mínútum síðar var staðan orðin 3-0 þegar Salah skoraði með frábæru skoti efst í markhornið úr vítateignum.  Leikmenn Napoli vildu meina að Mané hefði brotið af sér í aðdragandanum en dómarinn dæmdi ekkert.  Á 62. mínútu gerði Klopp fleiri breytingar þegar þeir Salah, Wijnaldum, Mané, Clyne og Robertson fóru af velli í stað Sturridge, Solanke, Jones, Alexander-Arnold og Moreno.  Á 71. mínútu kom svo Origi inná fyrir Keita.  Á 73. mínútu var svo staðan orðin 4-0 þegar Origi komst í gegn eftir sendingu frá Shaqiri, Origi skaut að marki en skotið var varið beint útí teiginn þar sem Sturridge mætti og smellti boltanum í netið.  Áður en þetta gerðist hafði Sturridge tvisvar sinnum komist í fín færi eftir sendingu innfyrir vörnina.  Síðasta skipting Klopp kom skömmu eftir fjórða markið þegar Phillips kom inná fyrir Gomez í miðvörðinn.  Liverpool bætti við einu marki í viðbót og það var glæsilegt.  Moreno fékk sendingu upp völlinn vinstra megin, lék aðeins áfram inní teiginn og þrumaði boltanum svo uppí þaknetið, gersamlega óverjandi skot.

5 marka sigur og markinu haldið hreinu gegn sterku liði.  Varla hægt að biðja um meira í þessum leik og leikmenn Liverpool fögnuðu eftir leikslok með fjölmörgum stuðningsmönnum í Dublin.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan