| Grétar Magnússon

Emre Can og Jon Flanagan halda á braut

Liverpool FC birti í dag lista yfir þá leikmenn sem yfirgefa félagið eftir tímabilið þar sem samningur þeirra er að renna út.



Helst ber að nefna þá Emre Can og Jon Flanagan en sá fyrrnefndi hefur verið orðaður við Juventus ansi lengi og líklega verða félagsskipti hans þangað staðfest á næstunni.

Can kom til félagsins árið 2014 og spilaði sinn síðasta leik fyrir félagið þegar hann kom inná sem varamaður í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid í lok maí.  Alls urðu leikirnir 167 fyrir Liverpool.

Jon Flanagan sem kom uppúr akademíu félagsins spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool gegn Manchester City árið 2011.  Hann spilaði svo reglulega tímabilið 2013-14 þegar Liverpool var í harðri baráttu um titilinn en lutu á endanum í gras fyrir Manchester City.  Sama tímabil spilaði hann einnig sinn fyrsta landsleik fyrir England.  Alls urðu leikirnir fyrir aðallið félagsins 51 og síðasti leikur hans var gegn Leicester City í Deildarbikarnum í september í fyrra en sá leikur tapaðist.

Aðrir leikmenn sem halda á braut eru ungliðarnir Toni Gomes, Paulo Alves, Mich'el Parker, Jordan Williams, Anthony Glennon, Jordan Hunter og Harvey Whyte.  Í maímánuði var svo tilkynnt um að Yan Dhanda myndi ganga til liðs við Swansea í sumar á frjálsri sölu.

Nýir samningar hafa verið lagðir á borðið fyrir þá George Johnston og Conor Masterson.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan