| Sf. Gutt

Fyrst og síðast vinir!


Mohamed Salah hefur farið á kostum á leiktíðinni. Jürgen Klopp hafði mikla trú á Egyptanum og lagði mikla áherslu á að kaupa hann í fyrra. Þau kaup hafa reynst sannkölluð kjarakaup. Þeir Mohamed og Jürgen hafa miklar mætur á hvorum öðrum. Mohamed segir að þeir séu fyrst og síðast vinir 

,,Fyrst og síðast erum við vinir. Mér líkar sérstaklega vel við hann. Hann hefur hjálpað mér mikið með það sem ég hef verið að gera. Bæði innan vallar sem utan. Ég á honum mikið að þakka fyrir það sem hann hefur gert á þessu ári. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir honum og ég er viss um að við eigum eftir að gera eitthvað einstakt hjá félaginu á þessu ári."

Sem fyrr segir þá hafði Jürgen Klopp mikla trú á Mohamed áður en hann var keyptur til Liverpool. En óhætt er að segja að Egyptinn hafi staðið sig miklu betur en Jürgen átti von á. Þjóðverjinn segir að Mohamed sé eldri og reynslunni ríkari en þegar hann spilaði á Englandi með Chelsea. 

,,Mo er búinn að spila betur en nokkrum hefði dottið í hug að hann myndi gera. Hann er mjög góður leikmaður og við vorum vissir um að hann myndi standa sig. Þess vegna fengum við hann til liðs við okkur. Hann er mun stöðugri í leik sínum. Hann var bara krakki þegar hann var hjá Chelsea. Núna er hann miklu þroskaðri og allt er í betra standi."


Mohamed Salah hefur slegið hvert metið af öðru á leiktíðinni og vonandi á hann eftir að bæta í verðlaunasafn sitt í Kiev. Framganga hans þar getur ráðið úrslitum um hvort Liverpool nær að vinna Evrópubikarinn í sjötta sinn. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan