| Sf. Gutt

Léttir að skora eftir þrautagöngu


Allir tengdir Liverpool glöddust innilega þegar Danny Ings skoraði á móti WBA í gær. Þetta var fyrsta mark hans fyrir aðalið Liverpool í 930 daga! Danny sagði það létti að skora eftir langa þrautagöngu. Hann hafði meðal annars þetta að segja eftir leikinn í viðtali við Liverpoolfc.com.

,,Ég sagði við strákana að ég vissi ekki hvers konar tilfinning kæmi yfir mig þegar ég myndi skora en tilfinningin var eiginlega mest léttir. Um leið og boltinn fór í netið langaði mig bara til að skora aftur. Ég fékk færi sem ég hefði átt að færa mér í nyt. En þetta gengur svona og eftir því sem ég skora meira og næ að spila fleiri leiki þá koma mörk. Ég er mjög ánægður með að hafa skorað eitt en þegar á heildina er litið hefði ég frekar viljað ná þremur stigum. Ekki spurning."

,,Dagurinn í dag er jákvætt skref fyrir mig persónulega. Mig ætla mér að byggja á þessu. Ég hef trú á sjálfum mér og eins liðinu. Það eru frábærir leikmenn í því með mér og ég læri eitthvað nýtt af þeim á hverjum einasta degi. Það verður áfram svoleiðis og ég ætla að halda áfram uppbyggingarstarfinu."

,,Ég er búinn að berjast fyrir svona augnablikum síðustu tvö árin. Það hefði verið auðvelt að gefast upp eftir allt mótlætið en ég hélt mig við efnið. Liðsfélagar mínir, stuðningsmennirnir og félagað hafa reynst mér frábærlega."





Markið sem Danny skoraði á móti WBA var fyrsta mark hans fyrir aðallið Liverpool í 930 daga. Hann skoraði síðast 4. október 2015 þegar Liverpool gerði 1:1 jaftefli við Everton á Goodison Park. Þetta var síðasti leikur Liverpool undir stjórn Brendan Rodgers og nokkrum dögum seinna sleit Danny krossbönd.


Ári síðar þegar hann var nýkominn aftur eftir meiðsli dundi ógæfan aftur yfir þegar krossbönd gáfu sig á nýjan leik. Hann var þá búinn að spila tvo leiki með aðalliðinu. Danny gafst ekki upp og kom aftur til leiks með aðalliðinu í haust og er nú búinn að koma við sögu í 11 leikjum. Elja Danny er til fyrirmyndar og  Jürgen Klopp hefur sýnt að hann hefur álit á honum með því að senda hann ekki í lán í janúar en áhugi var á því hjá öðrum félögum. Frábær fyrirmynd allra sem hafa átt í baráttu við meiðsli. 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan